Kosningavaka Ráðherrann og eiginkonan.
Kosningavaka Ráðherrann og eiginkonan.
Ég hef verið staddur sem fréttaljósmyndari á kosningavökum þar sem spennan hefur verið mun meiri en á þeirri hjá kosningabandalaginu sem treysti á níutíu prósenta kosningaþátttöku í nýrri þáttaröð, Ráðherranum, sem hóf göngu sína í RÚV á sunnudag.

Ég hef verið staddur sem fréttaljósmyndari á kosningavökum þar sem spennan hefur verið mun meiri en á þeirri hjá kosningabandalaginu sem treysti á níutíu prósenta kosningaþátttöku í nýrri þáttaröð, Ráðherranum, sem hóf göngu sína í RÚV á sunnudag. En það kraumaði sitthvað undir niðri, svo sem dramatískt framhjáhald í bakherbergi rétt í þann mund er Bogi Ágústsson var að fara að kynna síðustu tölur og auðvitað voru Framsóknarmenn komnir í lið með flokkseigendafélagi Sjálfstæðismanna, og búnir að stilla upp öðru valdabandalagi.

Kynningarmaskínan hefur lengi kokkað upp spennu fyrir Ráðherranum með þeim árangri að þessi rýnir, sem reynir annars að forðast þáttaraðir, ákvað að horfa. Og margt var áhugavert, þótt skerpa hefði mátt á flæðinu í klippiherberginu og líka skera með afgerandi hætti úr um það hvort um gaman- eða dramafrásögn væri að ræða. En uppákomur vantaði ekki; hvort sem það var í (frekar líflausum) sjónvarpskappræðum, ástalífi Sjálfstæðismanna eða fjölskylduflækjum sem tekið var að byggja upp og eiga greinilega að vera mikilvægur þáttur framvindunnar. En Ólafur Darri leikur ráðherrann og eignar sér skjáinn – það verður athyglisvert að sjá eftir þessa kynningu hvaða flugi þættirnir ná.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson