Ragnhildur Þrastardóttir Freyr Bjarnason Samtals greindust 30 ný innanlandssmit kórónuveiru á sunnudag, 15 smitaðra voru í sóttkví við greiningu.

Ragnhildur Þrastardóttir

Freyr Bjarnason

Samtals greindust 30 ný innanlandssmit kórónuveiru á sunnudag, 15 smitaðra voru í sóttkví við greiningu. Meðalaldur smitaðra er nú um 40 ár og má rekja stóran hluta smitanna til skemmtistaða í miðbæ Reykjavíkur, að því er Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá á upplýsingafundi almannavarna í gær.

Eins og áður hefur verið greint frá hefur virkum smitum hérlendis fjölgað mikið á síðastliðinni viku.

„Þessi fjölgun smita er áhyggjuefni, staðan er alvarleg og þess vegna þarf að skerpa á öllum þáttum sóttvarna og það eru þegar miklar aðgerðir í gangi. Það er mikið í höndum okkar sem einstaklinga hvernig málin þróast,“ sagði Alma D. Möller landlæknir á fundinum í gær.

Bæði hún og Þórólfur sögðu að ekki væri þörf á hertum aðgerðum.

„Það er stöðugt verið að meta hvort þörf sé á eða gagn sé að frekari fjöldatakmörkunum og lokunum og verður gripið til þeirra ef þörf krefur,“ sagði Alma og bætti við:

„Það væri auðvitað bara hægt að loka öllu og grípa til hörðustu aðgerða en það á samt ekki endilega við nú þegar við erum að reyna að feta okkur að því að halda niðri smitum og afleiðingum þeirra með sem minnstri röskun á daglegu lífi.“

Ánægjuleg fækkun

Smitin sem greindust á sunnudag voru þó nokkuð færri en smitin sem greindust á laugardag og föstudag. 38 greindust á laugardag og 75 á föstudag.

„Það er ánægjulegt að sjá þessa fækkun en við gætum fengið einhverja uppsveiflu og niðursveiflu. Það er eðli svona faraldra að gera það. Að jafnaði viljum við náttúrlega sjá hann fara niður. Ég tel alls ekki ástæðu til að grípa til harðari aðgerða núna en við höfum verið að grípa til,“ sagði Þórólfur.

Síðustu daga hefur fólki í sóttkví fjölgað stöðugt og eru nú 2.102 í sóttkví.

„Sem er náttúrlega eðlileg afleiðing af fjölda þeirra einstaklinga sem hafa verið að greinast,“ sagði Þórólfur og bætti því við að ánægjulegt væri að sjá hvað fyrirtæki og einstaklingar hafi tekið við sér í smitvörnum. „Þannig náum við árangri,“ segir hann.

Yfirvöld hafa ekki gripið til víðtækra aðgerða vegna aukins smitfjölda og frekar leitast við að hvetja til ýmissa viðbragða fyrirtækja og einstaklinga við smitfjöldanum.

Þannig hafa embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvatt fyrirtæki og stofnanir til að skipta upp rýmum, fá starfsfólk sem getur verið í fjarvinnu til að gera það og að sameiginleg rými séu sótthreinsuð oft og vel.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum að mikilvægast sé þó að allir gæti að einstaklingsbundnum sóttvörnum, það er að starfsmenn þvoi og sótthreinsi hendur oft og tryggi að minnsta kosti eins metra fjarlægð.

Andlitsgrímur í skólum

Þá hefur Þórólfur einnig mælst til þess að framhalds- og háskólar bjóði nemendum upp á fjarkennslu. Þar sem það sé ekki mögulegt bjóði skólarnir nemendum upp á andlitsgrímur.

Virk smit eru nú í öllum landshlutum nema á Austurlandi. Langflest virku smitin eru á höfuðborgarsvæðinu en tvö smit greindust utan höfuðborgarsvæðisins í gær, annað á Vesturlandi og hitt á Vestfjörðum.