Skarfasker Ysti hluti nýju landfyllingarinnar við Klettagarða nær langleiðina að skerjunum. Þarna hefur fólk gott tækifæri til skoða fuglana í návígi.
Skarfasker Ysti hluti nýju landfyllingarinnar við Klettagarða nær langleiðina að skerjunum. Þarna hefur fólk gott tækifæri til skoða fuglana í návígi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Gerð landfyllingar við Klettagarða við Laugarnes í Reykjavík lauk í sumar. Á framkvæmdatímanum var fuglalíf á svæðinu vaktað og fuglar taldir.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Gerð landfyllingar við Klettagarða við Laugarnes í Reykjavík lauk í sumar. Á framkvæmdatímanum var fuglalíf á svæðinu vaktað og fuglar taldir.

„Meðan talningar fóru fram var verið að vinna við landfyllinguna og komu vörubílar með grjót og efni sem þeir sturtuðu og vinnuvélar ýttu og færðu efnið til. Það var greinilegt að fuglarnir voru orðnir vanir framkvæmdunum því skarfar og máfar sem sátu í skerinu norður af landfyllingunni kipptu sér ekkert upp við það þótt vörubíll sturtaði grjóti skammt frá með tilheyrandi látum,“ segir í skýrslu Verkís, sem kynnt var á stjórnarfundi Faxaflóahafna fyrir helgi. Verkís tók að sér verkefnið í fyrrahaust. Fuglar voru taldir á strandlengjunni við framkvæmdasvæðið mánaðarlega frá síðustu áramótum fram í júní.

Ekki varpsvæði fugla

Framkvæmdasvæðið sem um ræðir er við austurjaðar hverfisverndarsvæðis í Laugarnesi og er framhald landfyllingar sem er austan við það. Fjaran sem fer undir landfyllingu er að mestu manngerð fyrir. Ekki er því um að ræða að varpbúsvæði fugla fari undir landfyllingu og rask af hennar völdum, heldur mun eitthvað af svæðum sem nýtt eru til fæðuöflunar fara undir fyllinguna, segir í skýrslu Verkís. Gögn sem til eru um fugla á svæðinu eru helst úr vetrartalningum fuglaáhugamanna sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haft umsjón með. Talningar þessar hófust 1952 og hafa því staðið yfir í áratugi á mörgum svæðanna og m.a. á strandlengju Reykjavíkur.

Nokkra breytingu má sjá á fuglalífi við ströndina eftir talningadögum. Áberandi mikið var af skörfum í vetrarfuglatalningunni um áramótin og aftur í febrúar. Erfitt var að greina skarfana til tegunda að vetri og í febrúar var mikil hreyfing á þeim, þeir flugu og köfuðu þannig að flestir þeirra féllu í flokk ógreindra skarfa. Líklegt er þó að þeir hafi flestir verið dílaskarfar, líkt og í desember, en níu af tíu greindum skörfum í febrúar voru dílaskarfar. Skörfunum hafði svo snarfækkað í mars og eftir það. Líklegt er að í desember til febrúar hafi verið nóg æti handa þeim þarna, einhver fiskigengd. Í febrúar voru þeir greinilega að eltast við æti og mikil hreyfing á þeim. Í mars hafa skarfarnir horfið og eru þá farnir að vitja varpstöðvanna um það leyti. Skarfarnir nýta sér skerin norður af landfyllingunni (Skarfasker) sem setstað, en þeir þurfa að koma á land til að þurrka haminn og standa þá með útbreidda vængi.

Mikið var einnig af bjartmáfum í vetrarfuglatalningunni en lítið eftir það. Bjartmáfar eru vetrargestir hér og ræður fæðuframboð líklega mestu um dreifingu þeirra. Því er líklegt að í lok desember hafi verið nægt fæðuframboð sem svo hefur minnkað, en bjartmáfar éta helst smáfiska og dýr úr yfirborði sjávar. Æðarfugl er algengur við ströndina um veturinn en þegar kemur fram á vor og svo um sumarið er minna af honum. Talsvert æðarvarp er í eyjunum norður af Reykjavík en þær eru Akurey, Engey, Viðey, Þerney og Lundey. Í lok apríl eru æðarfuglarnir væntanlega farnir að vitja varpstöðvanna. Lítið var af æðarfugli í júní og af fimm æðarkollum voru þrjár með unga og leituðu að æti fyrir þá við fjöruborðið í grjóthleðslunum og við fjöruna í Laugarnesi. Slæðingur var af öðrum máfum en bjartmáfum, helst voru það hvítmáfur, silfurmáfur og svartbakur í desember og svo koma hettumáfar og sílamáfar í mars til júní. Minna er af öðrum tegundahópum.

„Landfyllingin fer nærri skerjum sem eru norður af henni og þar er setstaður skarfa og máfa. Ef vel er staðið að hleðslum þannig að fólk komist nærri skerjunum án mikillar truflunar gæti gefist þar gott tækifæri til að skoða þessa fugla í meira návígi en víða,“ segir í skýrslu Verkís.