Tími innviðafjárfestinga er runninn upp. Slíkar fjárfestingar snúast um fleira en vegi og brýr, því innviðir samfélagsins eru margir og samfléttaðir.

Tími innviðafjárfestinga er runninn upp. Slíkar fjárfestingar snúast um fleira en vegi og brýr, því innviðir samfélagsins eru margir og samfléttaðir. Hugmyndir um langþráðar framkvæmdir við Menntaskólann í Reykjavík eru loksins að raungerast, greining á húsnæðisþörf fyrir iðn- og tæknimenntun er á lokametrunum og undirbúningur vegna nýs Listaháskóla er í fullum gangi. Unnið er að framtíðarskipan Náttúruminjasafns Íslands og Hús íslenskunnar hefur þegar tekið á sig mynd.

Um áratugaskeið hefur þjóðin átt sér þann draum að byggja þjóðarleikvanga fyrir íþróttastarf í landinu. Slíkt er löngu tímabært, enda núverandi mannvirki úr sér gengin og standast ekki kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda. Þannig uppfyllir ekkert íþróttahús hérlendis lágmarkskröfur sem gerðar eru í alþjóðakeppnum í handknattleik eða körfuknattleik. Laugardalshöllin kemst næst því, en þar er gólfflötur of lítill, rými fyrir áhorfendur of smátt og aukarými fyrir ýmsa þjónustu ekki til staðar. Alþjóðasambönd hafa þegar gefið okkur gula spjaldið vegna aðstöðuleysis, og ef ekkert verður að gert gæti það rauða fylgt í kjölfarið.

Svipaða sögu er að segja um Laugardalsvöllinn, sem er einn elsti þjóðarleikvangur í Evrópu. Líkt og handbolta- og körfuboltafólkið okkar hefur knattspyrnulandsliðið náð undraverðum árangri, bæði í kvenna- og karlaflokki. Það er þó ekki vellinum að þakka, sem líkt og Laugardalshöllin stenst ekki kröfur sem gerðar eru í alþjóðlegum mótum. Aðfinnslurnar eru svipaðar; völlurinn er lítill, áhorfendaaðstaða óviðunandi og skortur er á rýmum fyrir ýmsa þjónustu. Þá hafa keppnistímabil í alþjóðlegum mótum lengst og þörfin fyrir góðan völl því brýnni en nokkru sinni fyrr.

Eftir áratuga draumfarir sést nú til lands. Tveir starfshópar – annar vegna inniíþrótta og hinn vegna knattspyrnuiðkunar – hafa skilað greiningu á ólíkum sviðsmyndum, kostum, göllum, ávinningi og áhættu af ólíkum leiðum. Þannig er stór hluti undirbúningsvinnunnar kominn vel á veg og hægt er að taka næstu skref. Fram undan er að tryggja fjármögnun, ráðast í hönnun og grípa skófluna og byggja framtíðarleikvanga fyrir landslið Íslendinga.

Þótt meginmarkmiðið sé að byggja utan um og yfir íþróttastarfið er mikilvægt að þjóðin öll finni sig í nýjum þjóðarmannvirkjum. Að hún sé velkomin í mannvirkin árið um kring, en þau standi ekki tóm og safni bæði kostnaði og ryki. Það má gera með ýmsum hætti; 1) bjóða sérsamböndum, stökum félögum og skólum vinnu- og æfingaaðstöðu, 2) hugsa fyrir viðburðahaldi strax á hönnunarstigi og tryggja að almenningur, sér í lagi börn, geti notið og prófað ólíkar íþróttir. Þjóðarleikvangar eiga að iða af lífi frá morgni til kvölds, eigi þeir að standa undir nafni.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.

Höf.: Lilja Dögg Alfreðsdóttir