Réttur Gunnar Jóhann Gunnarsson sagði það ekki hafa verið ásetning sinn að ráða hálfbróður sinn af dögum. Aðalmeðferð í máli hans hófst í Vadsø í gærmorgun. Þar sagðist Gunnar hafa verið viti sínu fjær af sorg og bræði.
Réttur Gunnar Jóhann Gunnarsson sagði það ekki hafa verið ásetning sinn að ráða hálfbróður sinn af dögum. Aðalmeðferð í máli hans hófst í Vadsø í gærmorgun. Þar sagðist Gunnar hafa verið viti sínu fjær af sorg og bræði. — Ljósmynd/Eril Brenli/Finnmark
Atli Steinn Guðmundsson skrifar frá Vadsø Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem ákærður er fyrir að hafa orðið hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, að bana í Mehamn í Noregi aðfaranótt 27.

Atli Steinn Guðmundsson

skrifar frá Vadsø

Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem ákærður er fyrir að hafa orðið hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, að bana í Mehamn í Noregi aðfaranótt 27. apríl í fyrra, kvaðst fyrir héraðsdómi í Vadsø við upphaf aðalmeðferðar málsins í gærmorgun ekki hafa ætlað sér að ganga svo langt sem raun bar vitni, fyrir honum hefði einungis vakað að skjóta Gísla Þór skelk í bringu eftir að hann varð þess áskynja að Gísli og Elena Undeland, barnsmóðir og fyrrverandi eiginkona Gunnars, felldu saman hugi.

Ekki alltaf reiður

Játaði Gunnar fúslega, þegar Kåre Skognes héraðsdómari innti hann eftir því, að hann hefði átt við áfengis- og fíkniefnavandamál að stríða sem markað hefði samband þeirra Elenu meðan á hjónabandi þeirra stóð og eftir að því lauk.

„Það er einhvern veginn þannig með mitt líf að þegar hlutirnir ganga mjög vel þá er eins og ég höndli ekki góðærið. Vandamálið mitt með áfengi er að ég drekk þegar ég er glaður og ég drekk þegar ég er leiður. Ég vil ekki meina að ég hafi alltaf verið reiður og vondur þegar ég var að drekka, en vissulega var ég það stundum,“ játaði Gunnar fyrir héraðsdómi í gær.

Leitaði ásjár

Kvaðst hann hafa orðið viti sínu fjær af sorg og bræði í kjölfar þess að hafa orðið þess áskynja að fyrrverandi eiginkona hans og hálfbróðir hans væru orðin svo náin sem raun bar vitni.

Gunnar Jóhann leitaði aðstoðar á geðdeild í Karasjok, sveitarfélagi suður af Mehamn, í apríl í fyrra, í kjölfar úrskurðar um nálgunarbann gagnvart hálfbróður sínum og Elenu, en fór þaðan sjálfviljugur föstudaginn 26. apríl, daginn fyrir þann dag sem honum er gefið að sök að hafa stytt hálfbróður sínum aldur.

Skulum bara drekka

Gunnar tók þá að eigin sögn leigubíl til Mehamn og settist að drykkju með vinum sínum, gegn betri vitund.

„Strákarnir sögðu við mig: „Gunnar, í kvöld skulum við bara drekka,“ og ég var svo sáttur við það, ég vildi bara drekka mig fullan og geta gleymt ástandinu í bili. Við fórum svo út, fórum á skemmtistaði en það var bara enginn úti að skemmta sér þetta kvöld. Svo þegar við komum á Nissen-barinn [í Mehamn] helltist þetta allt yfir mig aftur, ég fór að hugsa um hvernig bróðir minn gæti gert mér þetta. Og þá ákvað ég að fara heim til hans og hræða hann,“ segir Gunnar.

Var brjálæði

„Ég vildi bara fá hann til að pakka niður, taka draslið sitt og bátinn sinn og koma sér frá Mehamn. Ég hafði tvo valkosti, annaðhvort að hengja mig og láta börnin mín alast upp án mín eða fá bróður minn til að hætta þessu. Á þessum tíma sá ég þetta sem einu valkostina. Þetta var brjálæði, ég viðurkenni það alveg,“ sagði Gunnar frá þegar Kåre Skognes héraðsdómari bað hann að fara yfir atburði aðfaranætur 27. apríl 2019 í Mehamn með viðstöddum í gær.