Landsleikurinn Glódís Perla Viggósdóttir mun væntanlega hafa nóg að gera í vörn íslenska liðsins í kvöld þegar það tekur á móti Svíum.
Landsleikurinn Glódís Perla Viggósdóttir mun væntanlega hafa nóg að gera í vörn íslenska liðsins í kvöld þegar það tekur á móti Svíum. — Morgunblaðið/Eggert
EM kvenna Víðir Sigurðsson Kristján Jónsson Jóhann Ingi Hafþórsson Erfiðasta verkefni undankeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta til þessa bíður íslenska kvennalandsliðsins í kvöld.

EM kvenna

Víðir Sigurðsson

Kristján Jónsson

Jóhann Ingi Hafþórsson

Erfiðasta verkefni undankeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta til þessa bíður íslenska kvennalandsliðsins í kvöld. Bronsverðlaunaliðið úr síðustu heimsmeistarakeppni, lið Svía, mætir þá á áhorfendalausan Laugardalsvöllinn en þetta er uppgjör tveggja efstu liðanna í F-riðli undankeppninnar og eru bæði með 12 stig af 12 mögulegum eftir fjóra leiki.

Aðeins eitt lið er öruggt áfram úr hverjum riðli og því er sérlega mikið í húfi. Um er að ræða sannkallaðan lykilleik riðilsins því niðurstaða hans mun ráða gríðarlega miklu fyrir bæði lið. Þrjú bestu liðin í öðru sæti undanriðlanna fara líka beint á EM á Englandi og til þess að verða eitt þeirra þarf íslenska liðið líklega að taka stig af Svíum. Besta leiðin er reyndar einfaldlega að sigra þá!

Og það hefur íslenska landsliðinu tekist tvisvar í fimmtán viðureignum þjóðanna. Ísland vann síðasta leikinn gegn Svíum, lagði þá óvænt að velli, 2:1, í leik um bronsverðlaunin í Algarve-bikarnum í Portúgal árið 2014 þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu snemma leiks. Antonia Göransson kom Svíum á blað í uppbótartíma leiksins.

Margar með frá árinu 2014

Sjö leikmenn sem nú eru í íslenska landsliðshópnum tóku þátt í þeim leik en auk Söru voru það Glódís Perla Viggósdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Rakel Hönnudóttir. Átta af Svíunum sem mæta Íslandi í kvöld tóku þátt í þessum tapleik gegn Íslandi árið 2014, þar á meðal fyrirliðinn Caroline Seger, varnarjaxlinn Nilla Fischer og hin snjalla Kosovare Asllani, núverandi leikmaður Real Madrid, sem allar hafa verið burðarásar í sænska liðinu um árabil.

Svíar nánast með HM-liðið

Nánast engar breytingar hafa orðið á sænska liðinu frá því á HM í fyrra þegar það vann England 2:1 í leiknum um bronsið. Hingað til Íslands eru mættar 20 af þeim 23 konum sem skipuðu HM-hóp Svíanna á síðasta ári.

Caroline Seger, samherji Glódísar Perlu hjá Rosengård, er leikjahæst Svíanna með 204 landsleiki og er tíu leikjum frá leikjameti Therese Sjögran. Nilla Fischer á 182 landsleiki að baki, markvörðurinn Hedvig Lindahl, sem nú leikur með Atlético Madrid, er með 170 landsleiki, Asllani hefur spilað 140, Linda Sembrant frá Juventus er með 120 leiki og Sofia Jakobsson frá Real Madrid, sem var valin í 11 manna úrvalslið HM í fyrra, hefur leikið 113 landsleiki.

Sara jafnar leikjametið

Sara Björk Gunnarsdóttir jafnar í kvöld landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur en fyrirliðinn leikur sinn 133. landsleik. Ekki skorti hrósyrðin í garð hennar og Glódísar Perlu á fréttamannafundi Svía á Laugardalsvelli í gær. Seger fyrirliði og Peter Gerhardsson þjálfari Svía fóru fögrum orðum um þær. Gerhardsson sagði að Sara væri einn af bestu leikmönnum heims í dag og Glódís væri einn besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar.

Svíar unnu Ungverja 8:0 síðasta fimmtudag, á sama tíma og Íslendingar unnu Letta 9:0. „Við skoruðum átta mörk á móti Ungverjum en vitum að við þurfum að hafa fyrir hlutunum á móti íslenska liðinu og vera klár að verjast föstum leikatriðum,“ sagði Gerhardsson.

Þær verða meira með boltann

„Ég held að þetta verði hörkuleikur. Tvö lið sem vilja sigur og þurfa á sigri að halda til að vinna riðilinn. Þær sænsku verða sennilega meira með boltann. Við munum reyna að verjast en viljum framkvæma ákveðna hluti þegar við fáum boltann. Þær eru með meiri hefð og þeirra lið er mjög vel skipulagt. En ég á von á skemmtilegum leik,“ sagði Glódís Perla, leikmaður sænska meistaraliðsins Rosengård, á fréttamannafundi íslenska liðsins í gær en sex samherjar hennar hjá Rosengård eru í sænska hópnum.

Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari gaf ungu leikmönnunum tækifæri gegn Lettum. Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í sínum fyrsta landsleik, Barbára Sól Gísladóttir lék einnig sinn fyrsta leik, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði í sínum öðrum landsleik og Alexandra Jóhannsdóttir í sínum sjötta.

Jón sagði að allar væru klárar í slaginn, nema hvað óvíst væri með Svövu Rós Guðmundsdóttur sem hefði meiðst lítillega á æfingu og væri í kapphlaupi við tímann.