Baðstjóri Heiður Vigfúsdóttir er framkvæmdastjóri Vök Baths.
Baðstjóri Heiður Vigfúsdóttir er framkvæmdastjóri Vök Baths.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
K100 kynnir sér skemmtilega áfangastaði í öllum landshlutum í vetur.

Fyrsta ferð vetrarins var á Austurland þar sem Logi og Siggi voru í beinni útsendingu frá Vök Baths. Á morgun ætla þeir að skella sér norður til Akureyrar. Strákarnir tóku á móti skemmtilegum gestum ofan í heitar laugarnar og ræddu um lífið á Austurlandi.

Spilaði með úrvalsdeildinni í fótbolta en býr nú á Egilsstöðum

Ívar Ingimarsson þekkja margir Íslendingar úr fótboltaheiminum en hann spilaði meðal annars með Reading F.C. í úrvalsdeildinni. Það sem kannski færri vita er að hann er uppalinn á Stöðvarfirði.

Ívar mætti í viðtal og ræddi þar um fótboltaferilinn og landsbyggðarlífið.

Hann segir skrítið að horfa til baka í dag og velta því fyrir sér að hann hafi búið í litlu sveitarfélagi en samt komist út til Englands á samning.

„Það er fullt af krökkum alls staðar í kringum landið sem hafa allskonar drauma og menn verða bara að láta reyna á það,“ sagði hann.

Þegar Ívar kom aftur heim til Íslands eftir að hafa spilað fótbolta úti í Englandi segir hann að þrír staðir hafi komið til greina til þess að búa á, Reykjavík, Akureyri eða Egilsstaðir. Að lokum hafi þau séð tækifæri í ferðaþjónustunni fyrir austan og fluttu því á Egilsstaði.

Var honum ekkert fjær en að flytja út á land

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri í Djúpavogshreppi, vann á dögunum stóran kosningasigur þegar sameining sveitarfélaganna gekk í gegn.

Hann viðurkennir að þegar hann var yngri hafi ekki verið mikil landsbyggð í honum og að ekkert hafi verið honum fjær en að flytja út á land. Það hafi hins vegar breyst árið 1986 þegar hann, ásamt eiginkonu sinni, ákvað að flytja til Staðarborgar í Breiðdal. Þar hafi orðið kaflaskil og ákveðin uppljómun átt sér stað. Í kjölfarið hafi þau tekið ákvörðun um það að til Reykjavíkur ætluðu þau ekki meir.

Gauti segir fordóma gagnvart landsbyggðinni sem betur fer ekki vera eins og þeir voru áður. Þegar hann var yngri þótti hallærislegt að vera utan af landi og krakkar hafi átt það til að stríða krökkum sem voru aðfluttir.

Vatnið úr Vök kemur frá botni Urriðavatns

Hún Heiður Vigfúsdóttir frá Vök Baths spjallaði við strákana um staðinn og leyndardóma hans.

Rúmt ár er síðan Vök Baths var opnað en Heiður segir aðdragandann mjög langan. Fyrsta hugmyndin hafi komið fram árið 1999 en þá var hugmyndin sú að opna ylströnd sem afþreyingu fyrir heimamenn. Það hafi síðan verið þrír heimamenn sem seinna gripu hugmyndina og byrjuðu að kasta henni á milli sín. Að lokum varð Vök Baths að veruleika eftir mikla vinnu.

Vegna Covid þurftu eigendur að breyta plönum sínum og markhópi en Heiður segir vel hafa tekist til. Þau hafi fengið góðan hóp Íslendinga í sumar og það hafi verið nóg að gera.

Vatnið sem baðgestir fá að baða sig upp úr er eina vottaða heitavatnið til drykkjar á Íslandi. Það kemur beinustu leið frá botni Urriðavatns og er algjörlega drykkjarhæft.