Norræna Færeyska ferjan verður stækkuð og fær andlitslyftingu. Hún mun líta svona út að loknum breytingum sem lokið verður við í byrjun mars. Hefur skipið verið fullbókað á sumrin.
Norræna Færeyska ferjan verður stækkuð og fær andlitslyftingu. Hún mun líta svona út að loknum breytingum sem lokið verður við í byrjun mars. Hefur skipið verið fullbókað á sumrin. — Tölvumynd/Smyril line
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Byggt verður yfir efstu hæðina á ferjunni Norrænu í vetur og verður við það hægt að flytja 100 farþegum meira í hverri ferð. Útsýniskaffihús verður gert ofan á efstu hæðinni.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Byggt verður yfir efstu hæðina á ferjunni Norrænu í vetur og verður við það hægt að flytja 100 farþegum meira í hverri ferð. Útsýniskaffihús verður gert ofan á efstu hæðinni. Þá fær skipið andlitslyftingu og möguleikar til afþreyingar farþega auknir.

„Á aðalferðamannatímanum hefur okkur vantað pláss fyrir fleiri farþega. Við höfum verið að skoða síðustu ár hvað best er að gera og niðurstaðan er að byggja yfir efstu hæðina og klassa ferjuna aðeins upp,“ segir Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril line á Íslandi.

Stígandi í flutningum

Með breytingum fást 50 tveggja manna káetur, auk nýja kaffihússins. Linda segir að Norrænu sé vel við haldið og ýmislegt hafi verið gert síðustu ár til bæta upplifun farþega. Nú hafi verið komið að stærra átaki. Tækifærið hafi verið notað þegar lítið er að gera vegna kórónuveirufaraldursins.

Skipið mun taka 1.582 farþega eftir stækkun, 100 farþegum meira en nú. Uppselt hefur verið yfir háannatímann en einnig eru viðskipti að aukast vor og haust.

Linda segir að ef litið er fram hjá þessu ári hafi verið stígandi í aðsókn að Norrænu, sem siglir á milli Danmerkur, Færeyja og Íslands. Flestir viðskiptavinir Norrænu komi á eigin ökutækjum og verji miklum tíma á Íslandi, mest á hringferð um landið. Þetta sé því mikilvægur hópur fyrir ferðaþjónustuna.

Unnið verður að breytingum á ferjunni í skipasmíðastöð í Danmörku frá 19. desember til 4. mars. Leigt verður skip til vöruflutninga til og frá Seyðisfirði á meðan en ekki verður boðið upp á neina farþegaflutninga á þessum tíma.