Gamla brúin Er orðin meira en 50 ára gömul og barn síns tíma. Þetta er ein umferðarmesta einbreiða brúin á Íslandi og kominn tími á endurnýjun.
Gamla brúin Er orðin meira en 50 ára gömul og barn síns tíma. Þetta er ein umferðarmesta einbreiða brúin á Íslandi og kominn tími á endurnýjun. — Ljósmynd/Vegagerðin
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í smíði brúar á hringveginum, yfir Jökulsá á Sólheimasandi, endurgerð vegarins beggja vegna og gerð bráðabirgðavegar. Nýja brúin mun leysa af hólmi einbreiða og hættulega brú.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í smíði brúar á hringveginum, yfir Jökulsá á Sólheimasandi, endurgerð vegarins beggja vegna og gerð bráðabirgðavegar. Nýja brúin mun leysa af hólmi einbreiða og hættulega brú. Á álagstímum á sumrin hafa oft myndast biðraðir við brúna.

Samkvæmt útboðslýsingu verður heildarlengd vegkafla á hringvegi um einn kílómetri. Ný brú verður eftirspennt bitabrú í fimm höfum, alls 163 metrar. Hún verður reist á sama stað og sú gamla, sem verður rifin. Bráðabirgðabrú verður gerð sem vinnuflokkur Vegagerðarinnar smíðar. Nýja brúin er hönnuð af Verkís.

Verkinu skal að fullu lokið fyrir 15. nóvember 2021. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og verða tilboð opnuð þriðjudaginn 27. október nk.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er gamla brúin á Jökulsá á Sólheimasandi austan Skóga eina einbreiða brúin á leiðinni frá Reykjavík og austur að Kirkjubæjarklaustri. Hún var byggð árið 1967 og er 159 metra löngstálbitabrú með steyptu gólfi byggð í fimm höfum.

Eitt af skilgreindum markmiðum í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar er að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegum þar sem fleiri en 200 ökutæki fara um á sólarhring að meðaltali. Samkvæmt tölum Vegagerðarinnar frá 2018 er brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi með næstmestu umferð einbreiðra brúa á landinu (ÁDU) eða 1.875 bílar að meðaltali á sólarhring. Aðeins brúin yfir Tungufljót norðan Geysis er með meiri umferð. Einbreiðum brúm hefur verið markvisst fækkað á undanförnum árum.