Gjörningur Eins og áður verður boðið upp á fjölbreytilega gjörninga á hátíðinni sem fer fram á Akureyri og í Hrísey. Meðal listamannanna sem koma fram eru Hekla Björt Helgadóttir og Egill Logi Jónasson.
Gjörningur Eins og áður verður boðið upp á fjölbreytilega gjörninga á hátíðinni sem fer fram á Akureyri og í Hrísey. Meðal listamannanna sem koma fram eru Hekla Björt Helgadóttir og Egill Logi Jónasson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin árlega A! Gjörningahátíð hefst á Akureyri í dag, fimmtudag, og stendur fram á föstudag. Þessi fjögurra daga alþjóðlega gjörningahátíð er nú haldin í sjötta sinn og er ókeypis á alla viðburðina.

Hin árlega A! Gjörningahátíð hefst á Akureyri í dag, fimmtudag, og stendur fram á föstudag. Þessi fjögurra daga alþjóðlega gjörningahátíð er nú haldin í sjötta sinn og er ókeypis á alla viðburðina.

Að þessu sinni fara gjörningarnir fram í Listasafninu á Akureyri, Menningarhúsinu Hofi, Vanabyggð 3 og Sæborg í Hrísey. Aðstandendur hátíðarinnar segja að gætt verði að fjarlægðartakmörkunum og sóttvörnum og gestum boðið upp á andlitsgrímur og spritt.

Valnefnd valdi úr innsendum umsóknum listamanna og eru fjölbreyttir gjörningar og leikhústengd verk af öllum toga á dagskránni. Þátttakendur eru ungir og upprennandi listamenn, ásamt reyndum og vel þekktum gjörningalistamönnum og leikhúsfólki. Vegna veirufaraldursins er hátíðin í ár smærri í sniðum en áður og þurftu fjórir erlendir listamenn að afboða komu sína.

Margir ólíkir listamenn

Í ár koma fram listamennirnir Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Anna Richardsdóttir, Egill Logi Jónasson og Hekla Björt Helgadóttir, Halldór Ásgeirsson, Katrín Gunnarsdóttir og Rán Flygenring, Páll Haukur Björnsson, Steinunn Önnu- Knútsdóttir og Gréta Kristín Ómarsdóttir, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir og Erwin van der Werve ásamt Örnu Valsdóttur, Arnbjörgu Kristínu Konráðsdóttur, Brák Jónsdóttur, Freyju Reynisdóttur, Hörpu Björnsdóttur, Silfrúnu Unu Guðlaugsdóttur og Töru Njálu Ingvarsdóttur.

Gjörningahátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, LÓKAL alþjóðlegrar leiklistarhátíðar, Gilfélagsins, Listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri, Vídeólistahátíðarinnar Heim og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Dagskrána má sjá á vefnum www.listak.is.

Skaftáreldar og sláturtíð

Gjörningar hafa verið mikilvægur þáttur listsköpunar Halldórs Ásgeirssonar en hann tekur nú í fyrsta skipti þátt í A!-hátíðinni, með viðamikinn gjörning í Ketilhúsinu kl. 20 á laugardagskvöldið. Heiti gjörnings hans er „Hvítnaði þá andlit jarðar“ og er heitið sótt í annál frá 1783 þar sem Skaftáreldum er lýst. Halldór segist hafa verið að vinna á árinu verk sem tengjast Skaftáreldum og séra Jóni Steingrímssyni eldklerki og má sjá þau fyrstu á sýningu sem var nýverið opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar. „Gjörningurinn er í framhaldi af því og ég á eftir að vinna meira úr þessum efniviði og þá í fleiri löndum,“ segir hann og bætir við að það sé sérkennilegt að vera að vinna úr hamfarasögu Skaftáreldanna nú á tímum heimsfaraldurs.

Halldór hefur lengi unnið í verkum sínum og gjörningum með hraun sem hann bræðir og mun gera það nú í Ketilhúsinu en fleiri þættir bætast við. „Sauðkindin kemur við sögu en hún er nú á undanhaldi hjá okkur. Á leiðinni kom ég við í ullarþvottarstöð á Blönduósi að fá ullarreyfi sem ég nota í gjörningnum og hitti þar bændur sem hafa miklar áhyggjur af framtíð sauðkindarinnar sem fækkar sífellt og það hefur mikil áhrif á sveitirnar. En sauðkindin kemur við sögu, í bland við hraunbræðsluna. Áhorfendur verða uppi á svölunum og horfa niður í gryfjuna þar sem ég athafna mig.“ Og í þaulhugsuðum gjörningnum kemur líka við sögu kjötskrokkur, tólg og þoka, svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta er ekki impróviserað heldur vinn ég með ákveðin element í úthugsaðri röð,“ segir Halldór.

„Ég byrjaði strax á mínum ferli að vinna með performansa. Svo komu tímabil þar sem ég setti þetta form til hliðar en það kom aftur. Síðast var ég með gjörning í Verksmiðjunni á Hjalteyri 2017. Í gjörningunum verður að vera samtal við viðkomandi stað og stund, auk þess sem grunnatriði eru tími og rými. Nú erum við til að mynda í miðri sláturtíð, það kemur við sögu, sem og Skaftáreldarnir og öll sú dramatík sem er mér mjög hugleikin. Það verða margar tilvísanir í gjörningnum – og svo kemur í ljós hvernig heppnast.“