Svartsengi Endurgerð vélbúnaðar í virkjuninni er í skoðun með það fyrir augum að auka raforkuframleiðslu þar.
Svartsengi Endurgerð vélbúnaðar í virkjuninni er í skoðun með það fyrir augum að auka raforkuframleiðslu þar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi eru fjölmörg verkefni í undirbúningi en fyrirtækið stefnir nú á að auka framleiðslugetu Reykjanesvirkjunar um 30 MW á næstu tveimur árum.

Baksvið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi eru fjölmörg verkefni í undirbúningi en fyrirtækið stefnir nú á að auka framleiðslugetu Reykjanesvirkjunar um 30 MW á næstu tveimur árum. „Nokkur erlend og innlend fyrirtæki eru að skoða uppbyggingu í auðlindagarðinum. Eitt er að breyta raforku með rafgreiningu í annað form, svo kallað Power to X, það er vetni, metan, eða metanól til dæmis,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku. „Við teljum líka að mikil tækifæri séu í tengslum við fiskeldi, þörungarækt og hátæknivædd gróðurhús. Á svæðinu er nægt framboð á heitu og köldu vatni auk hreins koltvísýrings sem skiptir miklu við hverslags ræktun.“

Álfan sjálfri sér næg

Í dag eru 10 fyrirtæki starfrækt í auðlindagarðinum og þar starfa í allt um 1.500 manns við fjölbreytta starfsemi. Vöxtur starfsemi í garðinum var eftir hruntíma hornsteinn atvinnuppbyggingar á Reykjanesi, að sögn Tómasar. Hann telur HS Orku standa undir enn frekari vexti, nú á erfiðum tímum.

„Ég var um árabil í stjórn samtakanna Business Europe þar sem saman koma forstjórar stærstu fyrirtækja álfunnar. Á þeim vettvangi er reglulegt samtal við æðstu ráðamenn ESB sem fóru fyrir allnokkru að tala opinskátt um mikilvægi þess að álfan væri sjálfri sér næg um græna orku. Ekki gengi að eiga allt undir duttlungum OPEC eða annarra ráðandi afla,“ segir Tómas Már og heldur áfram: „Mótleikurinn er meðal annars bygging vindorkugarða og framleiðsla vetnis með vindorku. Í þessari byltingu eru bæði ógnir og tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Það dregur úr samkeppnisforskoti okkar að orkuverð í Evrópu hefur lækkað, sem ég tel þó vera tímabundið. Við getum hæglega nýtt okkur þessa þróun og farið að framleiða vetni eða aðra orkugjafa. Ekki bara til að vera sjálfum okkur nóg um alla orkugjafa í samgöngum heldur líka til útflutnings. Við teljum mikilvægt að halda áfram að afla aukinnar raforku, samanber að stækkun Reykjanesvirkjunar hefst senn og endurgerð vélbúnaðar í Svartsengi er í skoðun.“

Vindorkan hagkvæmari

Nýting vindorku verður æ fýsilegri og hagkvæmari kostur í framleiðslu orkufyrirtækja. Brýnt er þó leysa úr flækjum til dæmis á sviði skipulagsmála sem torveldað hafa uppbyggingu á því sviði, segir Tómas Már. Er fyrirtækið með nokkra kosti á sviði vindorku í skoðun.

„Framleiðsla á vindorku er mun hagkvæmari en áður,“ segir Tómas. „Sú var tíðin við að kostnaður við hvert uppsett megavatt var meira en tvöfalt það sem kostar að virkja fallorku eða jarðhita. Þetta er gjörbreytt. Nú er kostnaður við hvert megavatt í vindorku um fjórðungur af því sem það kostar að byggja vatnsafls- eða jarðvarmavirkjanir. Þessi kostur verður því mun áhugaverðari en áður, sérstaklega hér á landi þar sem lognið fer hratt yfir.“

Breyttur heimsmarkaður

Tómas Már leggur áherslu á mikilvægi þess að vanda til verka við uppbyggingu vindorkugarða. Þeir þurfi til dæmis að vera utan fjölsóttra ferðamannastaða og í sátt við nærsamfélagið. Ný tækni og breytt viðhorf leiði svo til þess að horfa þurfi til nýrra þátta í atvinnumálum. Álframleiðsla í Kína og Mið-Austurlöndum hafi verið aukin stórum á síðustu árum sem breytt hafi aðstæðum á heimsmarkaði.

Aðrir virkjunarkostir nærtækari

Vesturverk ehf., sem er í meirihlutaeigu HS Orku, hefur lengi stefnt að virkjun Hvalár við Ófeigsfjörð á Ströndum. Í vor ákváðu stjórnendur fyrirtækisins að hægja á framkvæmdum. Þar ræður að undirbúningur Vesturverks er kominn mun lengra en annarra sem málinu tengjast. Þar nefnir Tómas Landsnet hf.; að mat á umhverfisáhrifum vegna háspennulína frá virkjuninni liggi enn ekki fyrir. Raunar felist vandi Vestfjarða í orkumálum ekki í ónógri raforkuframleiðslu, heldur veiku flutningskerfi sem verði að styrkja. Hvalárvirkjun sé þó athyglisverður kostur, það er að hún kæmi með breytilega framleiðslu í takt við þarfir almenna markaðarins á hverjum tíma.

„Það er óþarfi að taka verkefnið hraðar en þörf er á,“ segir Tómas. Hann segir andstöðu gegn þessum áformum vissulega skiljanlega. Hún sé þó umhugsunarverð í ljósi þess að virkjun Hvalár var í nýtingarflokki skv. rammaáætlun um orkunýtingu. Í því ferli hafi mörgum kostum verið hent út, svo sem Búlandsvirkjun í Skaftártungu. Þá hafi orkuframleiðsla við Trölladyngju á Reykjanesskaga verið tekin úr nýtingarflokki og sett í vernd. Þar hafi því verið sjálfhætt fyrir HS Orku en fyrirtækið hafði þó áður varið miklum fjármunum og löngum tíma til rannsókna á svæðinu.

Hvalá áfram á dagskrá

„Virkjun Hvalár er því áfram á dagskrá þó erfitt sé að tímasetja það verkefni. Einnig erum við opin fyrir því að aðrir aðilar komi að þessu verkefni. Í núverandi stöðu og þegar aðrir nærtækari virkjunarkostir eru til staðar beinum við hjá HS Orku kröftum okkar að þeim,“ segir Tómas Már að síðustu.