Straumsvík Aðgerðir eru í undirbúningi hjá sex stéttarfélögum í álverinu.
Straumsvík Aðgerðir eru í undirbúningi hjá sex stéttarfélögum í álverinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Félagsmenn í sex stéttarfélögum sem starfa í álveri Rio Tinto í Straumsvík hefja á morgun atkvæðagreiðslu um vinnustöðvanir í álverinu sem mun standa í eina viku.

Félagsmenn í sex stéttarfélögum sem starfa í álveri Rio Tinto í Straumsvík hefja á morgun atkvæðagreiðslu um vinnustöðvanir í álverinu sem mun standa í eina viku.

Samningaviðræður höfðu staðið yfir frá því í júní í fyrra þegar samkomulag náðist í mars sl. en það var háð því að álverið og Landsvirkjun semdu um raforkuverð. Ef það gerðist ekki fengju starfsmenn álversins ekki 24.000 króna launahækkun sem hafði verið lofað frá og með 1. júlí.

Þegar ljóst varð að samningur um raforkuverð var ekki gerður féll samkomulagið úr gildi og vísuðu stéttarfélögin deilunni til ríkissáttasemjara í byrjun ágúst. Sáttaumleitanir hafa ekki skilað árangri og hafa stéttarfélögin því ákveðið að hefja atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir.

Skærur sem hefjast 16. okt.

Í könnun sem gerð var meðal félagsmanna í Hlíf kom fram yfirgnæfandi stuðningur við aðgerðir til að knýja á um gerð kjarasamnings á grunni Lífskjarasamningsins en yfir 90% þátttakenda vildu grípa til aðgerða.

Fyrirkomulag aðgerðanna sem atkvæði eru greidd um er á þá leið að félagar í hverju stéttarfélagi um sig greiða atkvæði sérstaklega um þá vinnustöðvun sem starfsmenn þess félags taka þátt í. Aðgerðaáætluninni er þó stillt upp sameiginlega af öllum hlutaðeigandi stéttarfélögum.

Samkvæmt auglýsingu félaganna er kosið um skæruverkföll á mismunandi dögum í fyrstu og svo allsherjarvinnustöðvun allra félaganna sem hæfist 1. desember ef samningar hafa ekki þá náðst. Félagsmenn Hlífar greiða atkvæði um vinnustöðvun í formi skæruverkfalla sem hefjast laugardaginn 24. október. Félagsmenn Félags íslenskra rafvirkja, Félags rafeindavirkja, VM-félags vélstjóra og málmtæknimanna og FIT-félags iðn- og tæknigreina greiða atkvæði í hverju félagi um sig um skæruverkföll sem hefjast eiga föstudaginn 16. október.

Félagsmenn VR greiða atkvæði um vinnustöðvun í formi skæruverkfalla sem hefjast mánudaginn 26. október. Öll félögin greiða einnig atkvæði um allsherjarverkfall allra félagsmanna í álverinu sem tæki við af skæruverkföllunum 1. desember, hafi ekki samist fyrir þann tíma.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, sagði í gær að starfsmenn álversins hafi lengi beðið eftir að fá lífskjarasamninginn eins og aðrir launþegar en ekki hefur náðst árangur á sáttafundum. Spurður um skæruverkföllin sagði hann að verið væri að útfæra þau, iðnaðarmennirnir myndu væntanlega leggja niður störf á dagvinnutíma og starfsmenn á helgarvöktum um helgar o.s.frv.