Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti sex ára með fjölskyldunni til Reykjavíkur, d. 21. okt. 2020. Hún var yngst átta systkina. Foreldrar hennar voru Guðlaug Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri, f. 19. apríl 1895 í Gunnhildargerði, Hróarstungu, N.-Múl., d. 26. okt. 1988, og Pétur Sigurðsson bóndi og vitavörður, f. 8. janúar 1888 að Hjartarstöðum, Eiðaþinghá, S.-Múl., d. 24. febr. 1955.

Systkini Bryndísar (öll látin) voru Sigríður, Sigrún, Inga Margrét,Ragnhildur, Einar, Rós og Bergur Eysteinn.

Bryndís gekk í V.Í. en fór 16 ára í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og útskrifaðist þaðan og steig fyrst á svið undir leikstjórn Lárusar sem Cecilía í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu 18. nóvember 1946. Með námi starfaði Bryndís á rannsóknarstofu HÍ við Barónsstíg. Helstu áhugamál Bryndísar voru leiklist og ljóðalestur. Hún sté fyrst leikara á svið í vígslusýningu Þjóðleikhússins sem Guðrún í Nýársnóttinni. Upp frá því varð ekki aftur snúið og hún gaf sig leiklistargyðjunni á vald og hafði leiklist að lífsstarfi.

Í Þjóðleikhúsinu lék Bryndís uns hún lét af störfum fyrir aldurs sakir ef frá eru talin nokkur leikrit hjá LR auk þess að taka þátt í leikriti hjá LA. Hún hlaut viðurkenningu fyrir störf sín á 50 ára afmæli Þjóðleikhússins. Á yngri árum fór hún á sumrum í margar leikferðir um landið. Bryndís var fjallkona 1959.

Meðal minnisstæðra hlutverka Bryndísar við Þjóðleikhúsið eru Rósalind í Sem yður þóknast, Helga í Gullna hliðinu ('52 og '55), Sybil í Einkalífi, Sigríður í Pilti og stúlku, Leónóra í Æðikollinum, Ismena í Antígónu Anouhils, Essí í Er á meðan er, Sigrún í Manni og konu, Doris í Brosinu dularfulla, María mey í Gullna hliðinu, Júlía í Romanoff og Júlíu, Helena Charles í Horfðu reiður um öxl, Louise í Eftir syndafallið, Vala í Lausnargjaldi, Enuice í Sporvagninum Girnd og Munda í Stalín er ekki hér. Síðast lék hún Helgu í Kaffi eftir Bjarna Jónsson, á Litla sviði Þjóðleikhússins árið 1998.

Bryndís lék í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi og fór m.a. með aðalhlutverk í fyrstu íslensku kvikmyndunum Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.

Eiginmaður Bryndísar var Örn Eiríksson, f. 28.1. 1926, d. 15.6. 1996, loftsiglingafræðingur. Foreldrar hans voru Eiríkur Kristjánsson, f. 25.8. 1893, d. 4.4. 1965, kaupmaður á Akureyri, og k.h., María Þorvarðardóttir, f. 17.5. 1893, d. 21.6. 1967.

Synir Bryndísar og Arnar eru: 1) Eiríkur Örn Arnarson, f. 19.7. 1949, prófessor emeritus í sálfræði við HÍ, og k.h. Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor emeritus í lyfjafræði við HÍ. Dætur þeirra eru Hildur, f. 1978, og Kristín Björk, f. 1984; 2) Pétur Arnarson, f. 16.5. 1956, flugstjóri hjá Icelandair og k.h. Magnea Lilja Haraldsdóttir skrifstofumaður. Börn þeirra eru Haraldur Fannar, f. 1983, Bryndís, f. 1989, og Leó Snær, f. 1992, og 3) Sigurður Arnarson. f. 29.6. 1967, sóknarprestur í Kópavogskirkju, og k.h. Inga Rut Karlsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandair. Börn þeirra eru Kristinn Örn, f. 1999, Birna Magnea, f. 2002, Karólína María, f. 2006, og Gunnar Karl, f. 2009.

Útför Bryndísar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 1. október 2020, klukkan 13 að viðstöddum nánustu fjölskyldu og vinum. Streymt verður frá athöfninni á slóðinni: sonik.is/bryndis. Virkan hlekk á slóð má nálgast á www.mbl.is/andlat.

„Komi þeir, sem koma vilja. Fari þeir sem fara vilja. Mér og mínum að meinalausu.“ Þetta er fyrsta setningin, sem flutt var í fyrstu frumsýningu Þjóðleikhússins á „Nýársnóttinni“ árið 1950. Setninguna sagði mamma mín, Bryndís Pétursdóttir, þá rúmlega 21 árs að aldri. Og ég veit að hún tók þá, sem og alltaf, vel utan um orðin eins og hún hafði lært í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar á sínum tíma. Setningunni úr Nýársnóttinni gleymdi hún aldrei og fór síðast með í þarsíðustu viku. Og það var gert skýrt og vel. Mamma þoldi ekki muldur og ef hún heyrði slíkt þá fengu viðkomandi skýr skilaboð um að það gengi ekki og þess háttar fyrirlestra sat ég oft hjá henni. Þá sagði hún Sigurður en ekki Siggi.

Loftur Guðmundsson kvikmyndaleikstjóri fór einu sinni á fund Arnar Johnson, forstjóra Flugfélags Íslands, og sagðist vera að leita að fallegri flugfreyju til að leika aðalhlutverk í fyrstu íslensku talsettu kvikmyndinni og Örn kynnti hann fyrir mömmu. Leiklistin var henni mikið en ekki síður fólkið hennar. Pabbi, bræður mínir, ég og fólkið okkar og aðrir ættingjar og vinir. Hún vildi allt og gerði allt sem hún gat fyrir okkur í orði og verki með skilyrðislausri ást. Fór mörg aukaskref ef henni sýndist svo. Skólaljóðin las hún með mér sem barni og sum þeirra kann ég orðrétt enn þá og svo las hún með og fyrir mann á hverju kvöldi og sögurnar urðu einhvern veginn ljóslifandi í hennar túlkun. Hún sá um að ég lærði og ef vantaði betri stuðning t.d. í stafsetningu eða stærðfræði leitaði hún lausna og fann þær. Ég á henni svo ótalmargt að þakka. Mamma var ákveðin og stefnuföst. Einu sinni ók hún bifreið á Hringbrautinni og fór yfir á rauðu ljósi.

Ég blánaði efalaust í framan og stundi upp: „Mamma, þú keyrðir yfir á rauðu ljósi.“ Þá svaraði hún strax: „Sigurður, það er aldrei rautt ljós hér.“ Hún fór á móti straumnum ef hún taldi þörf á en gerði hlutina með hjartanu, húmor og á sinn hátt. Síðasta hláturskastið áttum við saman í þarsíðustu viku og hjúkrunarfræðingur á kvöldvaktinni í Sóltúni þurfti að koma inn í herbergið hennar til að biðja okkur að hafa lægra. Þá brostum við breitt. Á dánardegi mömmu í síðustu viku, í hádeginu, flaug Boeing 747, ein af uppáhaldsflugvélunum hans pabba, lágflug yfir Reykavíkurflugvöll með drunum og það er sjaldgjæf sjón. Þegar ég sá þetta og heyrði brosti ég út að eyrum og hugsaði glaður með mér: Nú er pabbi að ná í mömmu.

Sigurður (Siggi).

Elsku amma Dísa, alltaf tókst þú á móti okkur með hlýju og brosi á vör. Að koma í heimsókn til þín og afa Bassa var ævintýri líkast, maður gat auðveldlega villst innan sem utandyra á Sæbrautinni. Sama hvaða tíma dags vorum við alltaf velkomin í sælgæti, sígarettur og vindla. Þegar við mættum varst þú auðvitað búin að setja rúllur í hárið, henda í einn appelsínu kjúkling og rölta út í Hagkaup og kaupa bakkelsi „hjá strákunum“ eins og þú sagðir alltaf.

Þegar jólin nálguðust stjórnaðir þú laufabrauðs gerðinni í Hjallanum og auðvitað átti pabbi alltaf fallegustu skreytinguna ár eftir ár. Alltaf varst þú til í að grípa í spilin með okkur þegar við komum í heimsókn. Sama hvað gekk á passaðir þú uppá að við fengum engar skammir þegar þú heyrðir til og gerðir þig stóra til að passa uppá okkur ef þess þurfti.

Þú varst alltaf til staðar og lagðir það ekki fyrir þig að skutlast með okkur hvert sem er ef þess var óskað. Þessir bíltúrar tóku sinn tíma en eru okkur svo dýrmætir í minningunni.

Í seinni tíð fengum við ófá símtöl sem enduðu í bíltúr út á Nes til að hjálpa þér með sjónvarpið og fjarstýringuna, sem átti það til að flækjast fyrir þér, því ekki máttir þú missa af dagskrá kvöldsins.

Alltaf varst þú svo glæsileg, fórst aldrei út úr húsi nema vel til höfð og þín einstaka orka heillaði alla sem á vegi þínum varð. Þú sast aldrei á þínum skoðunum, hreinskilin og sagðir alltaf nákvæmlega það sem þú varst að hugsa. Stundum var það óheppilegt en oft gátum við hlegið mikið af því.

Okkur þykir ótrúlega vænt um að þú hafir kynnt okkur fyrir leikhúsinu og töfrum þess, tókst okkur baksviðs og lést eins og þú ættir staðinn meðan þú kynntir okkur sérstaklega fyrir öllum sem við hittum í Þjóðleikhúsinu. Þér var annt um að við töluðum skýrt og lagðir áherslu á það við okkur.

Sögurnar og minningarnar sem rifjast upp eru endalausar. Þín verður sárt saknað elsku besta amma Dísa og munum við alltaf hugsa til þín með hlýjunni og brosinu sem þú tókst á móti okkur með.

Þú, Guð, sem stýrir stjarnaher

og stjórnar veröldinni,

í straumi lífsins stýr þú mér

með sterkri hendi þinni.

Stýr mínu fari heilu heim

í höfn á friðarlandi,

þar mig í þinni gæslu geym,

ó, Guð minn allsvaldandi.

(Valdimar Briem)

Haraldur Fannar,

Bryndís og Leó Snær.

Amma mín er án efa ein magnaðasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún kenndi mér margt. Þegar ég var í menntaskóla sat ég einu sinni í sögutíma. Í tímanum var verið að fara yfir seinni heimsstyrjöldina. Kennarinn spurði okkur nemendurna hvort eitthvert okkar kynni þýsku? Ég svaraði fljótt: „Já, ég er svona mellufær í þýsku.“ Kennarinn fékk hláturskast og spurði hver hefði kennt mér þetta orðalag. Ég svaraði: „Jú amma mín kenndi mér þetta.“ En orðið er ekki það eina sem amma kenndi mér. Frá ungum aldri þurfti maður alltaf að mæta á réttum tíma annars kom þessi setning hjá henni: „Því ég hefði verið rekin úr leikhúsinu hefði ég ekki mætt tímanlega.“ Svo kenndi hún mér líka að standa á mínu. Þótt hún hafi kannski verið fullþrjósk. Violet Crawley, sem Maggie Smith lék í sjónvarpsþáttaröðinni Downtown Abbey, sagði eitt sinn: „Ég rökræði ekki, ég útskýri.“ Þetta er dæmigert fyrir það sem hún amma mín hefði sagt. En svo var hún líka alltaf góð við mig, skutlaði mér út um allan bæ, var alltaf með jólaköku tilbúna handa mér og sýndi mér aldrei neitt nema kærleika. Síðustu ár hennar fór hún að gleyma, en þótt hún vissi ekkert hver ég væri var hún alltaf góð við mig, sama hvað. Hún var eitt stykki magnað eintak og engum lík. Ég er búinn að ganga svo langt að fá mér húðflúr með orðinu amma. Því ömmur eru nefnilega langbestar.

Kristinn Örn Sigurðsson.

Eftir að ég áttaði mig á því að lífið væri ekki án enda hef ég kviðið því að amma myndi halda í Draumalandið. Hún átti innihaldsríkt, gjöfult, langt og dásamlegt líf en var tilbúin að halda á stefnumót við afa Bassa á nýjum stað. Hún grínaðist með það að hún færi að fara og ég bað hana þá í guðanna bænum að vera ekki að taka upp á því og svo hlógum við. Góð kona benti á fyrir stuttu að við fólkið hennar yrðum að sleppa svo hún gæti farið en held að við höfum öll ríghaldið. Þótt söknuðurinn leyni sér ekki þá er þakklætið alltumlykjandi.

Forréttindi að fá að kalla þessa stórglæsilegu konu ömmu og betri fyrirmynd er ekki hægt að hugsa sér, hún hefur verið stoð mín og stytta alla tíð, en alltaf tilbúin að gleðjast. Amma kenndi margt gott og fallegt og fór fram með góðu fordæmi. Mátti ekkert aumt sjá, öfund var ekki til í hennar orðabók, gerði aldrei mannamun og að það dýrmætasta væri fólkið okkar.

Í gegnum ömmu fékk ég að kynnast leikhúsinu og tækifæri til að fylgjast með æfingaferlinu og sjá leikhústöfrana verða til, fylgjast með alls staðar að úr leikhúsinu og síðast en ekki síst standa með henni á sviði í Fjalla-Eyvindi sem var líka fyrsta verkið sem amma sá í leikhúsi. Við lásum saman línur og hún veitti mér innsýn í vinnu leikarans en til að koma hlutverki til skila þarf að gjörþekkja sjálfan sig. Amma lýsti því að tilfinningin við að standa á sviði og ná tengingu við áhorfandann væri ólýsanleg en kæmist næst gæsahúð af hrifningu. Amma varaði mig við leikhúsinu sem ævistarfi þar sem samkeppnin og harkan getur verið mikil, ég sé það nú að hún vildi vernda mig fyrir atriðum sem eru erfið í lífinu sjálfu en við förum ekki á mis við þótt starfssviðið sé annað.

Ég skil vel að hún hafi viljað vernda mig því ég vil mínum börnum það sama. Það er ekki tilviljun að elsti drengurinn minn heitir í höfuðið á þeim afa Bassa og eins litla Dísin mín. Við ferðuðumst oft saman og þá var mikið um að vera og lítill svefn en pössuðum að njóta stundarinnar eins og þegar við hlýddum á söngvara syngja á torgi „those were the days my friend, I thought they'd never end“ og óskaði þess svo heitt að þessir dagar okkar myndu ekki taka enda.

Nú er mitt verkefni að vera öðrum það sem elsku amma var mér; uppalandi, leiðbeinandi, sálusorgari, hvatning og dýrmæt vinkona. Það er okkar allra að varðveita minningu hennar með góðum gildum, sögum og skemmtilegum tilsvörum eins og henni var tamt. En hlutverkið er líka að segja frá dýpstu hjartarótum „takk fyrir að vera til“ við fólkið sem við elskum eins og hún. Elsku amma mín, það er með yfirmáta þakklæti sem ég kveð eina af mínum bestu vinkonum með kvæði sem þú fluttir fyrir mig á einum af okkar síðustu fundum þegar við önduðum að okkur ferska loftinu, fengum rigninguna í andlitið og ofurlitla skeið af sjeik.

Blessuð sólin elskar allt,

allt með kossi vekur,

haginn grænn og hjarnið kalt

hennar ástum tekur.

Geislar hennar út um allt

eitt og sama skrifa

á hagann grænan, hjarnið kalt.

Himneskt er að lifa!

(Hannes Hafstein)

Þín

Hildur.

„Dísa systir“ – þessi tvö orð ómuðu öll mín uppvaxtar- og fullorðinsár þar til fyrir skömmu og hljómur þeirra bar vitni um mikla elsku Ragnhildar móður minnar í garð litlu systur sinnar. Duglegu litlu systur sem hafði brotist úr viðjum og gert garðinn frægan. Á þeirra tíma vísu þótti hæfilegt að synirnir og elsta dóttirin gengju menntaveginn, ekki voru efni til annars. Miðjudótturinni móður minni þótti áberandi vænt um að Dísa hafði fylgt hjartanu og valið sér vettvang á sviði leiklistarinnar sem mátti í þá daga segja að væri jafnvel nokkuð utan alfaraleiðar fyrir unga stúlku úr sveit.

Allt frá því að Dísa valhoppaði lítil hnáta um grundir á Vattarnesi við Fáskrúðsfjörð í stórbrotinni austfirskri náttúru og horfði til hafs á Skrúðinn var þessi knáa manneskja að sækja á og feta nýjar slóðir. Hún umbreytti sér úr sveitabarni í siglda og þenkjandi borgardömu. Yfir henni var tíguleg ára heimskonunnar, hún var Grace Kelly litlu Reykjavíkur; sveiflaði ljósgullnum makkanum svo sígarettureykurinn þyrlaðist í allar áttir og lagaði faldinn á glæsilegum tískukjólnum, alltaf elegant og vakti athygli hvar sem hún fór. Hún vann hug og hjarta leikhúsgesta sem leikkona sem sópaði að frá fyrstu senu og vann einnig um hríð sem flugfreyja í árdaga millilandaflugs landsmanna. Hún var fyrsta íslenska kvenfilmstjarnan og lék í alls kyns leiksýningum, kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpsleikritum fram á efri ár.

Þau Bassi heitinn, Örn Eiríksson, áttu glæsilegt heimili þar sem andríki, samræða og menning skipuðu öndvegi. Í minningunni var þar aldrei lognmolla og synir Dísu og Bassa, þeir Eiríkur, Pétur og Sigurður, hafa borið andríkið áfram í sínu lífi, hver á sinn hátt.

Dísa þekkti alla sem skiptu máli, þá sem voru á stóra sviðinu og fyrst og fremst skapandi fólk með hugsjónir og eldmóð sem lagði meginlínurnar í menningarlífi og arfleifð okkar þjóðar. Hún tók drjúgan þátt í þeirri uppbyggingu og var skapandi og starfandi alla tíð.

Ég var satt að segja dauðhrædd við Dísu frænku þegar ég var barn. Mér fannst hún svo glæsileg og ósnertanleg, jafnvel af öðrum heimi. Henni fylgdi langoftast klingjandi hlátur og léttur þytur, ilmvatnsangan, flýtir. Hún var ákveðin í tali, dvaldi ekki við það sem henni þótti ómerkilegt og lokaði málefnum með konkret yfirlýsingum. Ég hafði ekki roð í að tala við hana. Ekki fyrr en ég var komin til vits og ára og áttaði mig á að hún vildi viðnám og þá fundum við snertiflöt sem varð grunnur að áralangri hlýju á milli okkar.

Mamma mín sagði mér margt um líf þeirra systkina fyrir austan til ársins 1933 og við Dísa dvöldum þar gjarnan í samræðum síðustu árin og skemmtum okkur hið besta. Hún elskaði Fljótsdalshérað með Gunnhildargerði í Hróarstungu og austfirsku firðina fögru, upprunastaðurinn var einstakur og bjartur í hennar huga.

Þessi fastastjarna á himni mínum er nú hnigin til viðar, síðust af systkinunum, daginn fyrir nítugasta og annað afmæli sitt. Heiðruð og blessuð sé minning hennar. Ég votta kærum frændum mínum og fjölskyldum mína dýpstu samúð.

Steinunn Ásmundsdóttir.

Ég minnist Bryndísar frænku minnar fyrst þegar Þjóðleikhúsið fór í leikferð um landið, kannski fyrir svona 60 árum. Þá kom hún við á æskuheimili mínu með allan leikhópinn í rútu. Veggspjald með auglýsingunni um leikritið var sett á fjárhúsið. Man eftir hvað ég, stelpukrakkinn, var stolt af að eiga svona glæsilega frænku.

Síðar kynntist ég henni betur þegar við bjuggum nálægt hvor annarri á Seltjarnarnesinu. Fór þá stundum í kaffi til hennar. Hún var með eindæmum frændrækin. Þessar stundir voru mjög gefandi og engin lognmolla. Ekkert var henni óviðkomandi. Leikhúsið lifandi fyrir henni. Hún dáðist að mörgum yngri leikurunum en bætti við: „Þetta unga fólk kann ekkert í framsögn, það bara muldrar.“

Hvöss og gagnrýnin og með kímnigáfu. Ég man söguna af frændanum úr Vesturheimi sem heimsótti Ísland. Bryndís vildi keyra með hann á Gullfoss en frændinn sagði: „I have seen Niagara falls.“ Sá sem þekkti frænku mína getur ímyndað sér hvort þetta hafi fallið í kramið.

Við hjónin urðum líka þeirrar gleði aðnjótandi að hún varð okkur samferða til Lúxemborgar en þar átti Hildur, sonardóttir hennar, heima um árabil. Samband þeirra var fallegt og sterkt.

Bryndís frænka mín var glæsileg kona, henni verður best lýst með slettunni „elegant“. Á öðrum tímum en hún lifði á ferli sínum hefði henni örugglega hlotnast meiri frami. Stundum upplifði ég að hún hefði gjarnan viljað hafa hlutina öðruvísi en hún var fljót að beina samræðunni inn á jákvæðari brautir.

Blessuð sé minning hennar.

Ættingjum votta ég innilega samúð.

G. Bergþóra Karlsdóttir.

Á enga hygg ég sé hallað þótt ég segi að svipmeiri og glæsilegri konu efri ára hefi ég ekki augum litið heldur en Guðlaugu frænku mína Sigmundsdóttur frá Gunnhildargerði. Það sópaði að henni er hún bar íslenska þjóðbúninginn svo sem vera ber, með reisn og af virðuleika. Aldrei varð ég þeirra forréttinda aðnjótandi að sjá Bryndísi dóttur hennar á íslenskum búningi en ljósmynd hefur borið mér fyrir augu sem staðfestir að ofangreindir eiginleikar móðurinnar erfðust með sóma. Og annað sem ekki var síðra: Lífsfjör og drifkraftur sem af bar. Góður maður sagði eitt sinn að ávallt skyldum við minnast fólks eins og það var þegar það skartaði sínu besta. Þeim orðum trúr get ég sagt að fáar manneskjur hefi ég hitt um dagana sem bjuggu að slíkri lífsorku og fjöri sem Bryndís frænka mín. Aldrei var neinn barlómur á þeim bæ! Og ávallt yljaði það mér þegar hún sló á þráðinn – af eintómri umhyggju fyrir vellíðan frænda síns. Sú velvild kom frá hjartanu eins og annað sem Bryndísi Pétursdóttur viðkom. Og henni var sú list lagin að yngja viðmælandann um tíu ár!

Ég tel mér skyldleika okkar til stórra tekna enda var frænka mín sannkallaður frumkvöðull í íslensku menningar- og listalífi. Hún lék í fyrstu leiknu íslensku myndinni,

Milli fjalls og fjöru, árið 1949, stóð á sviði Þjóðleikhússins við opnun þess 1950 og áratugi síðan, lék legíó hlutverka í útvarpsleikritum og þekkti alla fremstu listamenn þjóðarinnar um áratuga skeið; dansaði meira að segja vals við Davíð Stefánsson frá Fagraskógi! Er mér sérlega minnisstæð vinátta hennar og Gunnars Eyjólfssonar enda lifðu bæði til hárrar elli og héldu sér einstaklega vel. Og segja má að kvæði Davíðs, „Þú sem eldinn átt í hjarta“, eigi vel við um þessa frænku mína. „Alltaf leggur bjarmann bjarta af brautryðjandans helgu glóð.“

Fáa hef ég vitað halda fjöri og þreki svo lengi sem Bryndísi. Hún var upptekin hvern dag, sinnti daglegu sundi og hvers kyns áhugamálum, ræktaði ættgarðinn með stakri prýði – ekki síst vestanhafs – og fylgdist með hverri hreyfingu í íslensku leikhúslífi. Ekki eru mörg ár síðan við Bryndís stóðum á tali þegar að bar unga kunningjakonu mína sem blandaði sér í samræðurnar. Voru þær stöllur orðnar perluvinkonur eftir fimm mínútna spjall – slík manneskja var þessi frænka mín. Bárust æviár í tal og bað Bryndís stúlkuna að giska á aldur sinn. Stúlkan hugsaði sig um og sagði síðan:

Ja, þú ert svona rúmlega sextug!

Bryndís var þá 86 ára!

Það er skarð fyrir skildi í Gunnhildargerðisætt þegar Bryndís Pétursdóttir kveður. En víst er að von er til að fjörgist á lista- og mannlífssviði þeirrar Valhallar sem hún er nú horfin til. Þar verður hvorki doði né dá þegar slíkan gest ber að garði.

Frændum mínum þremur hrósa ég fyrir sérlega smekkvísi í móðurvali og votta þeim og fjölskyldum þeirra alla samúð mína við fráfall hennar.

Jón B. Guðlaugsson.

Þegar frú Bryndís Pétursdóttir er gengin út af sviðinu og tjaldið fallið þá leita myndir minninganna á hugann af vináttu og samskiptum rúmlega tveggja áratuga. Þær myndir og minningar geymum við hjónin í hjörtum okkar og þökkum þær dýpstum sefa. Við höfðum oft séð Bryndísi á sviði og hrifist af þessari glæsilegu leikkonu en svo tengdumst við vináttuböndum þegar börn okkar, sr. Sigurður Arnarson og Inga Rut, felldu hugi saman og afréðu að ganga saman æviveginn. Þá hafði Bryndís nýlega misst mann sinn, Örn Eiríksson, og harmaði hann sárt. Því miður kynntumst við honum aldrei, en finnst við hafa þekkt hann, þann glaðsinna og góðviljaða öðling. Mörg voru þau fjölskylduboðin og hátíðirnar sem við áttum með henni er við glöddumst með börnunum okkar og glöddumst yfir þeim, þakklát fyrir gæfu þeirra, glöð og stolt yfir sameiginlegum barnabörnum okkar. Bryndís kunni vel að fagna gleði góðra stunda, höfðingi í sjón og raun, hugumstór og hjartahlý, einarðleg og ákveðin. Það var alltaf gaman að ræða við hana, hún var víðlesin og fróð, skoðanaföst, húmorinn var aldrei langt undan og hláturinn auðvakinn. Ættrækin var hún, trygglynd og vinföst með afbrigðum, stolt af fólkinu sínu, drengjunum sínum, þeim Eiríki Erni, Pétri og Sigurði, og þeirra fólki öllu, og ættliði sínu. Gaman var að heyra hana segja frá lífinu og fólkinu í leikhúsinu og ekki duldist manni væntumþykjan og virðingin sem hún bar fyrir því. Hún var fyrsta konan sem lék í talsettri kvikmynd og fyrsta konan sem steig á svið Þjóðleikhússins við opnun þess, þegar Nýársnóttin var frumsýnd. Þessir viðburðir voru henni jafnan hugstæðir og leikhúsið henni afar hjartfólgið sem og þeir fjölmörgu leikarar og leikhúsfólk sem hún hafði verið samtíða þar. Um árabil kvöddum við ár og fögnuðum nýju ári með henni og fundum saman tímans þunga nið þegar nýársnóttin lagðist yfir. Við erum þakklát fyrir þær stundir og blessum þær minningar og allt það góða sem minningu hennar tengist. Nú er Bryndís Pétursdóttir gengin af sviðinu hinsta sinni. Minning hennar lifir og birtu stafar af henni í huga okkar. Guð blessi minningu Bryndísar Pétursdóttur og hópinn hennar og þau öll sem hún unni. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Kristín og Karl

Sigurbjörnsson.

Bryndís Pétursdóttir er mér um margt minnisstæð, bæði sem leikkona og fjölskylduvinur foreldra minna. Á æskuárunum urðu við Eiríkur sonur hennar vinir, og fórum marga ævintýraferðina með dr. Gunnlaugi föður mínum á jeppanum í Sundhöllina, upp í sumó eða á aðra óvænta staði. Alltaf allt í botni og ekkert gefið eftir. Ég var tíður gestur á heimili Bryndísar, hún var ákveðin og hlý móðir sem ég bar virðingu fyrir. En það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég kynntist henni náið, það var þegar ég leikstýrði kvikmyndinni Vandarhögg eftir handriti Jökuls Jakobssonar heitins. Við Jökull höfðum rætt um að fara nokkuð óvenjulega leið í leiktúlkun þessa verks. Að fara þá leið var ekki heiglum hent, og það var ekki augljóst hvaða leikarar gætu og væru tilbúnir til að fara þessa leið. Ég bauð Bryndísi hlutverk Emmu, systurinnar skrýtnu með skeggið. Henni leist ekki á blikuna, en þegar hún fékk að vita að aðalmótleikari hennar væri Benedikt Árnason, sá virti leikstjóri og leikhúsmaður, sagðist hún tilbúin að reyna. Og það skipti engum togum, Bryndís hellti sér út í að vinna hlutverkið og það var unun að upplifa hversu næm hún var á fínlegustu blæbrigði og náði að skapa Emmu á þann hátt sem gerir þennan karakter ógleymanlegan. Það reyndi oft á í upptökum og stundum fann ég að Bryndís þurfti að taka mikið á, en með hverjum degi varð hún sterkari og hugrakkari. Við áttum saman einstaklega einlægt samstarf.

Ég minnist þessarar einstöku leikkonu með virðingu og söknuði.

Hrafn Gunnlaugsson, rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri.

Á kveðjustund er margs að minnast. Góð vinátta mín og Sigurðar Arnarsonar, Sigga prests, þess yngsta og „stríðnasta“ af þeim bræðrum, enda kallaður af okkur strákunum Siggi leikari, sem er réttnefni, hefur staðið frá fjögurra ára aldri og hófst í Tjarnarborg. Vissulega með ýmsum hléum lífsins, góður vinskapur er oft þannig, en alltaf erum við vinir og ræktum það þegar og ef við getum. Sem er oftar enda orðnir háaldraðir „unglingar“.

Bryndís Pétursdóttir var einstök kona, glæsileg alls staðar þar sem hún kom, hlý og kom fram af hreinskilni og góðmennsku við umhverfi sitt og samgöngufólk. Fjölskyldu sína elskaði hún skilyrðislaust og ástin og kærleikurinn sem maður upplifði og sá svo sterkt alltaf með henni, Bassa og strákunum er nokkuð sem kveikir ljós, hlýju og ást í hjarta manns og gleður þegar hugsað er til baka.

Og það er auðvitað fallegt. Enda var allt fallegt hjá Bryndísi. Hún fylgdist vel með öllu og öllum. Dóttur minni Ragnheiði Björk sýndi hún mikinn ræktarskap og hlýju og við vorum alltaf á leið í heimsókn áður en Bryndís varð veik. Sirrý Hjaltested, konuna mína, var Bryndís vinkona mín sérstaklega ánægð með, ég reyndar grunaði Bryndísi um að hafa haft áhyggjur af að ég myndi ekki ganga út – svo ánægð var hún þegar hún hitti Sirrý mína í fyrsta sinn. Hvað þeim fór nákvæmlega á milli veit ég ekki en þær hlógu mikið!

Þegar ég kom úr námi frá BNA hérna um árið, ca. 1992, var ég á milli vita í nokkurn tíma. Bryndís fékk veður af þessu og kallaði mig á sinn fund og bauð mér að búa í kjallaranum á Sæbraut 21, því stóra húsi, eins lengi og ég vildi, en þar höfðu Bassi og Dísa byggt sér einstakt og fallegt einbýlishús á einum besta stað á Nesinu. „Ari minn, það er enginn í kjallaranum... jú Siggi er þarna í litla herberginu, þú verður bara í hinu,“ og ég gleymi ekki hvað Bassi hló, þetta fannst honum gaman og nú yrði sko gaman – við vorum orðin sambýlingar, í stuttan tíma að vísu því ég kom mér svo fyrir í íbúð í miðbænum nokkrum vikum síðar. En vistin hjá þeim sæmdarhjónum var frábær.

Heimskona var hún og frábær listamaður. Og átti marga hápunkta í íslensku leikhúslífi á öllum sviðum. Í leikhúsinu starfaði hún lengst af, fastráðin ævilangt í Þjóðleikhúsinu, en einnig lék hún í bíómyndum, sjónvarpsmyndum og útvarpsleikritum.

Við félagarnir fórum til London mörg sumur í röð, á rúmlega unglingsaldri, 15-20 ára gamlir. Vissulega voru flestir okkar að fara til að skemmta sér, sinna dansæfingum o.fl. og stundum fullmikið skal viðurkennast, nema Siggi, sem hefur alltaf ráðið fullvel við Bakkus, sem er góður kostur. En alltaf leituðum við til Bryndísar áður en farið var til London um hvaða leikrit við ættum að sjá þann tíma sem við dveldum þar og alltaf valdi hún frábærar sýningar í bestu leikhúsunum fyrir okkur. Hún þekkti meira að segja vel leikhúslífið í New York því þegar við Siggi, Nóni o.fl. vorum þar á ferð lét hún okkur sjá tvö verk á Manhattan, annað mjög eftirminnilegt með Pacino í aðalhlutverki.

Það er margs að minnast á kveðjustund. Ég vil þakka Bryndísi og Bassa og fjölskyldunni allri vinskap í minn garð alla tíð.

Elsku Siggi minn og Inga mín elskuleg og börnin, Pétur vinur minn og Eiríkur og öll ykkar börn og barnabörn. Blessuð sé minning Bryndísar Pétursdóttur. Drottningar lifa að eilífu.

mbl.is/andlat

Ari Gísli Bragason.

Það var Lárus Pálsson sem fann hana. Kornunga og glæsilega stúlku í miðasölu Tjarnarbíós og fékk hana til að leika í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu í Iðnó 1946. Þar með bættist íslensku leikhúsi leikkona sem veitti okkur ómældar ánægjustundir næstu fimm áratugina. Hjá Leikfélagi Reykjavíkur lék hún m.a. Dísu í Galdra-Lofti og „sýndi ótvíræða hæfileika“ aðeins tvítug að aldri. Svo var Þjóðleikhúsið opnað 1950, þar lék hún Guðrúnu heimasætu í Nýársnóttinni og þar varð hennar aðalstarfsvettvangur. Hún lék ungu stúlkurnar hverja af annarri en langstærsta hlutverkið og það sem henni þótti sjálfri skemmtilegast á öllum ferlinum var Rósalind í verki Shakespeare Sem yður þóknast, sem hún greinilega blómstraði í. Bryndís hafði sterka sviðsnærveru og átti auðvelt með að hrífa áhorfendur með sér. Umsagnir um leik hennar hníga allar í eina átt: hún átti heima á sviðinu.

Hún lék í svo til öllum barnaleikritum Þjóðleikhússins í áratugi og ógerlegt að telja það allt upp. Nokkrar kynslóðir hafa því alist upp með persónum þeim sem Bryndís gæddi lífi. Hún lék ótal góðlátlegar og ástríkar mæður en líka skringilegar og skemmtilegar kerlingar, oft mjög eftirminnilega. Ég hef sennilega séð þær flestar en mér er hún líka minnisstæð sem vinkonan Helena í Horfðu reiður um öxl, sýningu sem vakti mikla athygli og hún gerði sér sömuleiðis mikinn mat úr hlutverki húsmóðurinnar Mundu í Stalín er ekki hér, sem hún nefndi gjarnan sjálf sem eitt sitt skemmtilegasta hlutverk frá seinni árum. Þá skilaði hún glæsilega kveðjuhlutverki sínu í Þjóðleikhúsinu í Kaffi eftir Bjarna Jónsson en sú sýning var líka leikin á leiklistarhátíð í Bonn í Þýskalandi og hlaut afbragðsgóðar viðtökur. Hún lék sem ung stúlka í fyrstu íslensku kvikmyndunum: Milli fjalls og fjöru og Niðursetningnum og að sjálfsögðu oft í útvarpi og sjónvarpi, minnisstæður er t.d. leikur hennar í sjónvarpsleikritinu Vandarhöggi.

Það geislaði af Bryndísi glæsileiki, hlýja og sjarmi en það gat líka gustað af henni ef á þurfti að halda, hún átti líka til þunga og eftirfylgju í leik. Hún hætti að leika reglubundið fyrir tæpum tveim áratugum og hafði þá glatt íslenska áhorfendur í hartnær hálfa öld. Það var alltaf gaman að hitta Bryndísi á frumsýningum eftir að hún hætti sjálf að leika. Bros, hlátur, faðmlag, alltaf kát og hress. Og svo hrein og bein. En hún var líka hvatvís, hafði mjög ákveðnar skoðanir og lá yfirleitt ekki á þeim þannig að umræður um viðkomandi sýningar urðu oft mjög fjörugar. Ég stríddi henni stundum á að það mætti ganga að því vísu að hún væri alltaf ósammála síðasta ræðumanni. Því mótmælti hún að sjálfsögðu og sannaði þar með fullyrðinguna.

Við Tóta, sem vann oft með henni, og fjölskyldan öll sendum Sigurði, Eiríki Erni og Pétri, sonum Bryndísar, og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Stefán Baldursson.

Þetta er haustið 1948. Í framsýn er ævintýrið mikla, opnun Þjóðleikhússins. Að vísu hefur íslenskt leikhús orðið fyrir áfalli þetta haust og misst tvær af sínum hæfustu leikkonum. En ungt fólk hefur verið að búa sig undir að fylla í skörðin og taka við blysum íslenskra leikbókmennta. Í kvöld er það Galdra-Loftur. Í fyrsta þætti hafði Gunnar Eyjólfsson margverðlaunaður úr erlendum listaskólum birst eins og stormsveipur á sviðinu – framtíðin var mætt – og áður en þættinum lýkur er Bryndís Pétursdóttir í hlutverki nöfnu sinnar biskupsdótturinnar komin í dyrnar í ómótstæðilegum æskuþokka með þessum orðum: Ég er komin! Og áður en þættinum lýkur eru þau farin að svífa á vit ævintýrisins á klæðinu góða.

Já, Bryndís Pétursdóttir var komin, og á íslensku leiksviði stóð hún í rúma hálfa öld. Hún kom úr leiklistarskóla Lárusar Pálssonar eins og flest þessi glæstu ungmenni sem brátt urðu máttarstólpar í leikhúsum höfuðstaðarins. Hún þreytti frumraun sína kornung í sýningu Lárusar á Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu eftir Lagerkvist 10. nóvember 1946 og óhætt að segja að gagnrýnendur urðu óvenjulega lýrískir af því tilefni. Svo lék hún meðal annars annað aðalhlutverkið á móti Rúrik Haraldssyni í Bænum okkar eftir Thornton Wilder og var því vel að því komin að leika sjálfa Guðrúnu í Nýársnóttinni á opnunarkvöldi Þjóðleikhússins 20. apríl 1950. Með örfáum undantekningum, t.d. gestaleikjum á Akureyri, var síðan ferill hennar bundinn þjóðarleikhúsinu og þar urðu hlutverkin mörg. En reyndar ekki aðeins þar og þess má vel minnast; Bryndís var nefnilega fyrsta kvikmyndastjarna okkar, lék t.d. aðalkvenhlutverkið í tímamótamynd Lofts Guðmundssonar, Milli fjalls og fjöru.

Þetta voru vitaskuld ungu stúlkurnar öll fyrstu árin, margvíslegar að gerð og upplagi, sumar kankvísar og skemmtilegar, aðrar kannski leiðinlegar og fordekraðar. En löngum þótti Rósalind í Sem yður þóknast eftir Shakespeare með sínum barnslega aðlaðandi æskuþokka og ljóðrænu hrifningu vera hátindurinn á þessum ferli Bryndísar.

Hin fræga franska leikkona Gisele Casadesus sem lék ungu stúlkurnar hjá Comédie Française um langt skeið sagði það vandann, að þegar maður væri orðinn nógu þroskaður til að skilja flókið sálarlíf ungra stúlkna væri maður sjálfur hættur að vera ung stúlka, og undan því væri kvartað. Þetta var hvorki vandi né hlutskipti Bryndísar því að hún hélt þokka sínum og reisn alla ævi.

Seinna breyttust hlutverkin vitaskuld, röddin dýpkaði, fangið stækkaði og skapið þrútnaði og sársaukinn skein í gegn. Hlutverkin urðu mörg og ótrúlega margvísleg. Án þess að setja hér á þulu vil ég nefna Mundu í Stalín er ekki hér, frú Bumble í Oliver Twist, frú Klöru í Stálblómum hjá Leikfélagi Akureyrar til að sýna breiddina, að ógleymdu síðasta hlutverkinu, Helgu í Kaffi Bjarna Jónssonar i Þjóðleikhúsinu 1998.

Fljúgðu nú klæði með Bryndísi Pétursdóttur á alla þá staði sem unaðslegastir eru. Taki hún með sér allar góðu minningarnar og virðingu og þakklæti frá okkur Þóru fyrir trygga áratuga vináttu.

Sveinn Einarsson.

Bryndís Pétursdóttir var leikkona í Þjóðleikhúsinu í nærri hálfa öld og lék mörg af helstu kvenhlutverkum leikhúsbókmenntanna á Stóra sviði Þjóðleikhússins.

Bryndís steig fyrst á svið undir leikstjórn Lárusar Pálssonar sem Cecilía í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu árið 1946 og upp frá því hafði hún leiklistina að lífsstarfi. Hún steig fyrst leikara á svið Þjóðleikhússins, í fyrstu vígslusýningu hússins, 1950, sem Guðrún í Nýársnóttinni og lék síðan í Þjóðleikhúsinu þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Bryndís lék einnig í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi, og fór meðal annars með aðalhlutverk í fyrstu íslensku kvikmyndunum, Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.

Meðal minnisstæðra hlutverka Bryndísar má nefna Rósalind í Sem yður þóknast; Helgu í Gullna hliðinu 1952 og 1955; Sigríði í Pilti og stúlku; Ismenu í Antígónu; Maríu mey í Gullna hliðinu, Júlíu í Romanoff og Júlíu; Helenu Charles í Horfðu reiður um öxl; Völu í Lausnargjaldinu, Eunice í Sporvagninum Girnd og Mundu í Stalín er ekki hér. Bryndís lék síðast á sviði í Kaffi eftir Bjarna Jónsson á litla sviði Þjóðleikhússins árið 1998. En síðasta hlutverk Bryndísar var í útvarpsverkinu Einförum (sex einþáttungar fyrir eldri leikara) eftir Hrafnhildi Hagalín árið 2010 og var það hlutverk skrifað sérstaklega fyrir hana.

Bryndís hlaut viðurkenningu fyrir störf sín á 50 ára afmæli Þjóðleikhússins og var fastagestur á frumsýningum leikhússins eftir að hún hætti störfum.

Sjálfur man ég fyrst eftir Bryndísi þegar ég lék í Þjóðleikhúsinu barn að aldri. Þá tók Bryndís vel á móti mér, var hvetjandi og hlý. Það sama átti við alla tíð. Eftir Bryndísi var tekið, hvert sem hún fór, fyrir glæsileika og geislandi viðmót. Hún var elskuð og dáð sem leikkona og samstarfskona.

Starfsfólk Þjóðleikhússins minnist Bryndísar með hlýhug og þakklæti og sendir sonum hennar, Eiríki, Sigurði og Pétri og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Magnús Geir Þórðarson

þjóðleikhússtjóri.