Gögn Lekinn frá Kína hefur vakið ugg víða um heim, frekar vegna þess hve víðtæk gagnasöfnunin hefur verið en að þar séu endilega viðkvæm gögn.
Gögn Lekinn frá Kína hefur vakið ugg víða um heim, frekar vegna þess hve víðtæk gagnasöfnunin hefur verið en að þar séu endilega viðkvæm gögn.
Andrés Magnússon andres@mbl.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is Greina má töluverðan áhuga á íslensku áhrifafólki í stjórnmálum, viðskiptalífi, stjórnkerfi og réttvísi, þegar litið er yfir þau íslensku nöfn, sem fundist hafa í gagnaleka frá kínverska fyrirtækinu Zhenhua, og greint hefur verið frá víða um heim undanfarnar vikur. Þar er talið að finna megi persónuupplýsingar um 2,4 milljónir manna, en ekki er talið ósennilegt að þar á meðal séu um 4.000 Íslendingar eða liðlega 1% þjóðarinnar.

Meðal þeirra upplýsinga, sem safnað hefur verið í kínverska persónugrunninn, eru fæðingardagar, heimilisföng, hjúskaparstaða, stjórnmálaþátttaka, ljósmyndir, ættingjar og notendanöfn á félagsmiðlum. Þar hefur verið safnað saman upplýsingum af Facebook, Twitter, LinkedIn, Instagram og jafnvel TikTok, í bland við fréttir, dómsuppkvaðningar og ásakanir. Megnið af upplýsingunum hefur verið skrapað upp af netinu og mega heita opinberar upplýsingar, en þó má finna dæmi um upplýsingar, sem virðast hafa verið fengnar úr gögnum, sem ekki eiga að vera opinber, líkt og reikningsupplýsingar, starfsumsóknir eða sálfræðimat. Ekki verður þó séð að það eigi við um hinar íslensku upplýsingar.

Fundist hafa 411 færslur um Íslendinga í þeim gögnum, sem þegar hefur tekist að endurheimta úr Zhenhua-gagnalekanum, en ekki er ómögulegt að fleiri nöfn bætist við. Það er þó tæplega nema brot af þeim upplýsingum, sem fyrirtækið hefur safnað um Íslendinga og milljónir annarra, en aðeins hefur náðst að endurbyggja um 10% gagnagrunnsins, líkt og lesa má um hér á hægri síðu.

Áhrifafólk og ættingjar þess

Meðal þeirra, sem krafsaðir hafa verið upp úr grunninum, má nefna fyrrverandi ráðherra á borð við Geir H. Haarde, Gylfa Magnússon, Katrínu Júlíusdóttur og Óttar Proppé, sendiherra eins og Stefán Skjaldarson, Gunnar Snorra Gunnarsson og Kristján Andra Stefánsson og þjóna réttvísinnar líkt og Sigríði Friðjónsdóttur, Jón H.B. Snorrason og Hrafn Bragason.

Þegar litið er til þess fólks, sem þar er að finna, og glöggva má sig á í nafnaskránni að neðan, blasir við að um sumt virðist valið fremur handahófskennt og tæplega reist á mikilli þekkingu á íslensku þjóðlífi. Þannig má þar finna fólk, sem látið er fyrir allnokkru, en einnig virðist ritun sumra nafna nokkuð á reiki. Þau hafa verið leiðrétt eftir bestu getu hér að neðan, en eins er rétt að benda á að þar má bæði finna alnafna og algeng nöfn, sem ekki er unnt að segja til um við hvern eigi.

Sumt fólk á listanum hefur átt í einhverjum viðskiptum við Kína, stórum sem smáum, en þar má einnig sem fyrr segir finna ráðherra, þingmenn, sendiherra, dómara, fjölmiðlafólk og einnig nokkuð af íþróttamönnum. Jafnframt eru dæmi um fólk sem sætt hefur ákæru eða hlotið dóma fyrir efnahagsbrot, en um það má iðulega sjá tilvísanir til frekari upplýsinga um þau efni. Sá áhugi kann að gefa eitthvað til kynna um þær hvatir, sem liggja að baki gagnasöfnuninni.

Mörgum þykir vafalaust óþægilegt að sjá nafn sitt á listanum, enda erfitt að segja til um í hvaða tilgangi nöfnunum var safnað eða hver vill notfæra sér þær upplýsingar. Þar hlýtur að vekja sérstakan ugg, að fyrirtækið Zhenhua státar sérstaklega af tengslum sínum við kínversk yfirvöld, bæði herinn og kommúnistaflokkinn þar, sem öllu ræður.

Enn óþægilegra er þó sjálfsagt að sjá nöfn barna eða annarra skyldmenna, líkt og finna má ýmis dæmi um. Tvö barna Willums Þórs Þórssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, eru meðal nafnanna að neðan, en eins má nefna Þóru Baldvinsdóttur, eiginkonu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og Hjörleif Sveinbjörnsson, eiginmann Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fv. utanríkisráðherra.

Rétt er að ítreka, að ekki verður séð af íslensku gögnunum að í þeim felist neinar upplýsingar sem ekki liggja fyrir opinberlega á einhvern hátt. Megnið er auðfundið með leit á vefnum eða með því að gramsa á félagsmiðlum. Einhver hefur samt þurft að hafa fyrir því að finna til nöfn fólksins og skyldmenna þess.