Gauti Jóhannesson
Gauti Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnið verður með Isavia og ríkisvaldinu að uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar svo hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hans sem fyrsta varaflugvallar Keflavíkurflugvallar en um leið hugað að framtíðarmöguleikum vallarins varðandi vöruflutninga og...

Unnið verður með Isavia og ríkisvaldinu að uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar svo hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hans sem fyrsta varaflugvallar Keflavíkurflugvallar en um leið hugað að framtíðarmöguleikum vallarins varðandi vöruflutninga og millilandaflug. Þetta er eitt af fjölmörgum áhersluatriðum sem koma fram í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi.

Oddvitar framboðanna, Gauti Jóhannesson, D-lista, og Stefán Bogi Sveinsson, B-lista, undirrituðu í gær málefnasamninginn. Hann var undirritaður og kynntur rafrænt til að leggja áherslu framboðanna á að þróa rafræna stjórnsýslu þar sem fulltrúar hvaðanæva úr sveitarfélaginu geti tekið virkan þátt í starfsemi þess. Einnig verða áhrif íbúanna tryggð með heimastjórnum í öllum gömlu sveitarfélögunum. Bryddað er upp á fjölmörgum málum. Aðeins rúmlega hálft annað ár er til stefnu og viðurkenndu oddvitar meirihlutans að ekki tækist að ljúka þeim öllum en mikilvægt væri að hefjast handa.

Samið er um að sjálfstæðismenn tilnefni fólk í tvö helstu embættin, forseta sveitarstjórnar og formanns byggðarráðs, en ekki hefur verið gengið formlega frá því hvaða fólk tekur þessi verkefni að sér. Flokkarnir tilnefna báðir tvo fulltrúa í helstu ráð og nefndir. Stefán Bogi verður formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs en sjálfstæðismenn tilnefna formann fjölskylduráðs. Ákveðið hefur verið að ganga til viðræðna við Björn Ingimarsson, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, um að gegna stöðu sveitarstjóra nýja sveitarfélagsins til loka kjörtímabilsins. helgi@mbl.is