Leifsstöð Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, kveðst bjartsýnn.
Leifsstöð Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, kveðst bjartsýnn. — Morgunblaðið/Eggert
Isavia tapaði samtals 7,6 milljörðum króna á fyrri hluta ársins en tapaði 2,5 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Inni í upphæðinni í fyrra var 1,9 milljarða niðurfærsla vegna falls WOW air.

Isavia tapaði samtals 7,6 milljörðum króna á fyrri hluta ársins en tapaði 2,5 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Inni í upphæðinni í fyrra var 1,9 milljarða niðurfærsla vegna falls WOW air. Tekjusamdráttur móðurfélagsins, sem sinnir rekstri Keflavíkurflugvallar, var upp á 97%, en ef horft er til allra félaga samstæðunnar var samdrátturinn 77%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem send var út í gær.

Tekjur félagsins á fyrri hluta þessa árs námu 8,6 milljörðum króna. Rekstrartap fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var 5,3 milljarðar og heildarafkoman sem fyrr segir neikvæð um 7,6 milljarða. Handbært fé Isavia er 16,2 milljarðar og eigið fé er upp á 32,8 milljarða og eiginfjárhlutfallið 38,1%.

Haft er eftir Sveinbirni Indriðasyni, forstjóra Isavia, í tilkynningunni að afkoman beri veruleg merki um áhrif kórónuveirunnar. „Við höfum gripið til umfangsmikilla aðgerða til að mæta þessum áhrifum og höfum m.a. því miður neyðst til þess að segja upp fjölda starfsmanna hjá móðurfélaginu og í Fríhöfninni ásamt því að skerða starfshlutföll starfsmanna hjá samstæðunni. Við búum okkur undir að flugumferð fari jafnvel ekki af stað á ný fyrr en í lok fyrsta ársfjórðungs næsta árs.

Segir Sveinbjörn að afkomuspá félagsins geri ráð fyrir að heildarafkoma samstæðunnar verði neikvæð um 13-14 milljarða króna á árinu og að heildaráhrif kórónuveirunnar geti numið 15-16 milljörðum.

Hann telur félagið þó standa vel þrátt fyrir þetta. „Aftur á móti er sjóðstaða félagsins sterk og við ráðum við að vera tekjulaus á Keflavíkurflugvelli fram á næsta vor án þess að sækja viðbótarfjármögnun. Við gerum þó ráð fyrir í okkar áætlunum að sækja nýtt fjármagn inn í félagið til að geta viðhaldið umsvifum okkar til næstu ára.“

Sveinbjörn segist bjartsýnn á framtíðina hjá félaginu og ferðaþjónustu á Íslandi.