Hugverkadrifin nýsköpun kallar á að fyrirtækin í landinu hafi aðgang að vel menntuðu og duglegu fólki. Samtök iðnaðarins hafa lagt á það ríka áherslu undanfarin ár að vekja áhuga ungs fólks á iðnnámi enda víða vöntun á fólki með góða iðnmenntun.

Hugverkadrifin nýsköpun kallar á að fyrirtækin í landinu hafi aðgang að vel menntuðu og duglegu fólki. Samtök iðnaðarins hafa lagt á það ríka áherslu undanfarin ár að vekja áhuga ungs fólks á iðnnámi enda víða vöntun á fólki með góða iðnmenntun. „Iðnnám greiðir leiðina að alls konar tækifærum og spennandi störfum, og hjá mörgum efnilegustu nýsköpunarfyrirtækjum landsins er fjöldi iðnmenntaðs fólks að störfum, enda framlag þess ómissandi við að smíða þær vélar og vöru sem þessi fyrirtæki þróa og selja,“ segir Sigurður.

Í samstarfi við aðra aðila hafa SI staðið að kynningum á þeim tækifærum sem iðnnám felur í sér. Þessi átaksverkefni hafa borið árangur og má greina merki þess að ungt fólk sé áhugasamara en áður um iðnnám, og að kynjahlutföllin í iðnnámi séu að þróast í rétta átt. „Við getum ekki slegið af og þurfum stöðugt að vera að minna á þá möguleika sem iðnmenntuðu fólki bjóðast, og um leið fræða unga fólkið um það að störfin hafa breyst mikið og eru mun tæknivæddari en áður.“

Mikilvægt skref til að styðja við iðn- og verknám er að búa náminu umgjörð við hæfi. Sigurður segir Tækniskólann, sem er bæði stærsti iðnskóli og framhaldsskóli landsins, vera í þeim sporum í dag að kennsla fer fram á níu stöðum víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Tímabært sé að koma starfsemi skólans undir eitt þak þar sem aðstaða til kennslu væri eins og best gæti hugsast. „Ríkið og sveitarfélögin eru þegar farin að huga að þessu verkefni og ljóst að yrði mikil lyftistöng fyrir iðnnám á Íslandi.“

Má líka reikna með að iðnfyrirtækin myndu sækja í það að starfa náið með slíkum skóla, og myndu helst vilja hafa hann í næsta nágrenni við sig. „Nemendur Tækniskólans eru hátt í 3.000 talsins og ljóst að það yrði til mjög blómlegt samfélag í kringum skólastarfið ef það færðist allt á einn stað. Þá má reikna með að þegar iðngreinar af öllu tagi eru kenndar undir sama þaki muni góðar hugmyndir taka að gerjast, og verkefni nemenda og kennara þvert á ólíkar greinar leysa mikla krafta úr læðingi.“