Albert Þór Jónsson
Albert Þór Jónsson
Eftir Albert Þór Jónsson: "Íslensk framleiðsla eflir atvinnustig, verkkunnáttu, vöruþróun og samfélagslega ábyrgð á Íslandi."

Veljum íslenskt því aukin innlend framleiðsla skapar meiri verðmæti og minni sóun til framtíðar. Með því að velja íslenskar vörur og þjónustu efla Íslendingar samfélagslega ábyrgð sína til frekari uppbyggingar íslenskra atvinnugreina og auka samkeppnishæfni landsins til framtíðar. Aukin framleiðsla innanlands kallar á fleiri vinnandi hendur sem felur í sér aukna innlenda verðmætasköpun sem eykur velferð þjóðarinnar. Með auknum viðskiptum á innanlandsmarkaði bæta landsmenn lífskjör sín horft til framtíðar og efla atvinnu á Íslandi. Mikil sóun og flutningur á vörum milli landa sem auka mengun og óhollustu mun eiga þyngra undir fæti horft til framtíðar. Matvæli sem ekki eru framleidd með sjálfbærum hætti munu eiga erfiðan róður. Íslensk framleiðsla eflir atvinnustig, verkkunnáttu, vöruþróun og samfélagslega ábyrgð á Íslandi. Á Íslandi er fólk í fremstu röð á sviði hugvits, hönnunar, handverks, lista og matvælaframleiðslu. Verkkunnátta iðnaðarfólks er framúrskarandi á mörgum sviðum. Íslenskur landbúnaður hefur getið af sér afurðir á heimsmælikvarða eins og íslenska lambakjötið, kjúklingaafurðir, nautakjötið, skyrið, osta og aðrar mjólkurafurðir.

Íslenskur landbúnaður á mikið inni í hreinni og ómengaðri framleiðslu og sjálfbærni. Ylrækt getur orðið stóriðja 21. aldar á Íslandi ef hugarfar og stolt þjóðarinnar er rétt. Verð og eftirspurn eftir heilnæmum íslenskum landbúnaðarafurðum á einungis eftir að aukast á næstu árum og mikil sóknarfæri eru í ylrækt með endurnýjanlegri orku. Mikilvægi innlendrar framleiðslu og aukinnar innlendrar verðmætasköpunar mun skipta sköpum í samkeppnishæfni landsins þar sem aukin áhersla verður lögð á innlenda framleiðslu og minnka þannig mengun í lofti og á hafi.

Skattalegir hvatar til uppbyggingar í ylrækt eru mikilvægir til að ná að byggja upp atvinnugrein sem eykur sjálfbærni. Á næstu árum mun íslensk matvælaframleiðsla eiga möguleika á að taka forystu í hreinum og sýklalausum landbúnaðarafurðum sem verður að teljast sérstaða í heimi þar sem mengun, sýklamengaðar kjötvörur og afurðir úr ríkisstyrktum landbúnaði í Evrópu og annars staðar munu eiga undir högg að sækja enda gæði íslenskrar framleiðslu framúrskarandi.

Hugarfar og stolt af íslenskri framleiðslu auðveldar árangur

Umhverfisvernd, náttúruvernd, minni sóun og betri meðferð og nýting náttúruauðlinda munu verða leiðarljós forystu í fyrirtækjarekstri og stjórnmálum heimsins á 21. öldinni þannig að stjórnlaus neysluhyggja og sóun valdi ekki óafturkræfu tjóni á jörðinni. Heimurinn er að mörgu leyti búinn að veðsetja framtíð okkar fyrir skammtímahagnað og græðgi sem mun hafa víðtækar afleiðingar horft til framtíðar. Ísland er í kjörstöðu til að taka forystu á mörgum sviðum sem munu verða eftirsóknarverð á næstu áratugum með hreint vatn, endurnýjanlega orku, ómengaðar landbúnaðarafurðir, sjálfbærar fiskauðlindir og stefnumarkandi staðsetningu landsins.

Á Íslandi er einstakt tækifæri til að auka útflutningstekjur með lækkun skatta, hagræðingu í ríkisrekstri með afgerandi hætti og framtíðarsýn sem eykur verðmætasköpun með snjöllum hugmyndum í tengslum við framleiðslu á sjálfbærum afurðum. Hreint vatn, endurnýjanleg orka og sjálfbærar fiskauðlindir eru grunnur að mikilli sókn fyrir Ísland á nýrri öld umhverfismála og náttúruverndar. Með því að velja íslenskt er hægt að efla verðmætasköpun, hækka atvinnustig og ná meiri stöðugleika í efnahagsmálum sem er ávinningur fyrir alla.

Upprunamerking matvæla er mikilvæg þannig að Íslendingar geti notið þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða og valið um að styðja við íslenska matvælaframleiðslu og stuðla þannig að innlendri verðmætasköpun til hagsbóta fyrir alla Íslendinga. Hugarfar og stolt yfir íslenskri framleiðslu og afurðum eflir aðrar atvinnugreinar og veldur margföldunaráhrifum í öðrum atvinnugreinum til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Íslensk framleiðsla skapar mörg atvinnutækifæri og því mikilvægt að keyra í gang íslenska framleiðslu um allt land. Veljum íslenskt fyrir Ísland.

Höfundur er viðskiptafræðingur með MCF í fjármálum fyrirtækja og 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði. albertj@simnet.is