Þingsetningardagurinn 1. október er gleðidagur. Hann markar upphaf samstarfs á þingi, þar sem öll mál eru sett fram af heilum hug þingmanna og fullvissu um að málið bæti samfélagið.

Þingsetningardagurinn 1. október er gleðidagur. Hann markar upphaf samstarfs á þingi, þar sem öll mál eru sett fram af heilum hug þingmanna og fullvissu um að málið bæti samfélagið.

Þingsályktun um menntastefnu til 2030

Undanfarið hefur menntakerfið staðist mikið álag. Við eigum áfram að sækja fram til að tryggja framúrskarandi menntun á öllum skólastigum og í haust mun ég kynna tillögu til þingsályktunar um menntastefnu til ársins 2030, þar sem menntun landsmanna er í öndvegi. Stefnan er afrakstur mikillar samvinnu allra helstu hagaðila og þar verður áhersla lögð á fjögur markmið: jöfn tækifæri til náms, kennslu í fremstu röð, gæði skólastarfsins og hæfni menntakerfisins til framtíðar. Ég hlakka til að tala fyrir henni á þingi, enda er menntakerfi lykilþáttur í samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Aukin réttindi eftir iðnnám

Í ljósi breytinga í framhaldsskólum á liðnum árum er nauðsynlegt að bæta stöðu þeirra sem hafa lokið öðru prófi en stúdentsprófi. Ég vil að gildi lokaprófa taki mið af hæfni og þekkingu nemenda, en ekki að eitt sé sjálfkrafa æðra öðru, og mun mæla fyrir lagabreytingu í þá veru. Með henni vil ég ýta undir að nemendur fái notið þeirrar hæfni, þekkingar og færni sem þeir hafa öðlast með ólíkum lokaprófum frá mismunandi framhaldsskólum. Mikilvægt er að vægi eininga verði gegnsætt og endurspegli tiltekinn mælikvarða, svo námslok frá framhaldsskóla verði metin með sambærilegum hætti við innritun í háskóla.

Ályktun um menningarstefnu til 2030

Undirbúningur að gerð menningarstefnu til ársins 2030 er í fullum gangi. Ég vona að hún verði hvatning og innblástur til þeirra fjölmörgu sem vinna á sviði íslenskrar menningar til að halda áfram sínu góða starfi. Menning skapar samfélag, gerir okkur mennsk, og er því ómetanleg. Okkur ber að rækta menninguna, setja markið hátt og ná árangri. Stefnan á að nýtast stjórnvöldum í allri umræðu um menningarmál, stefnumótun á afmörkuðum sviðum og ákvarðanatöku.

Sterkir fjölmiðlar

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru fyrirheit um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Því verki er ekki lokið og því mun ég leggja fram fjölmiðlafrumvarpið svokallaða í þriðja sinn. Ég vænti þess að samstaða náist um frumvarpið, enda hefur málið lengi verið á döfinni og þörfin brýn. Reynslan af Covid-19-stuðningi við fjölmiðla á þessu ári sýnir líka að hægt er að útfæra stuðning af þessu tagi á sanngjarnan hátt. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við að efla samfélagslega umræðu. Stuðningur gerir fjölmiðlum kleift að efla ritstjórnir sínar, vera vettvangur skoðanaskipta og tjáningarfrelsis og rækja hlutverk sitt sem einn af hornsteinum lýðræðisins.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.