Útlendingurinn – morðgáta Snorri Helgason og Friðgeir Einarsson á æfingu í Borgarleikhúsinu fyrr í vikunni.
Útlendingurinn – morðgáta Snorri Helgason og Friðgeir Einarsson á æfingu í Borgarleikhúsinu fyrr í vikunni. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Þessi líkfundur er saga úr raunheimum sem gerðist rétt hjá þar sem ég bý í Bergen.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þessi líkfundur er saga úr raunheimum sem gerðist rétt hjá þar sem ég bý í Bergen. Ég var að reyna að finna mér einhverja tengingu við nýja umhverfið mitt og þessi nánd við söguslóðir málsins kveikti áhuga minn. Konan liggur í ómerktri gröf í kirkjugarði nálægt þar sem ég bý og ég fór að leita að henni, sem var ekki auðvelt. Einnig gekk mér erfiðlega að finna staðinn þar sem líkið fannst í Ísdalnum, en það er mjög fallegur dalur rétt við heimili mitt þar sem ég fer oft út að hlaupa,“ segir Friðgeir Einarsson sviðslistamaður þegar hann er spurður að því hvers vegna hann hafi valið fimmtíu ára gamalt óleyst mál um líkfund í Noregi til að vinna með í leiksýningu sinni sem ber heitið Útlendingurinn – morðgáta . Verkið verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu á morgun, föstudag.

„Í Ísdalnum fannst brunnið lík af konu árið 1970 og það gekk mjög illa að upplýsa hver þetta hefði verið og hvað hefði átt sér stað. Ýmsar flökkusögur hafa myndast í kringum þetta mál, en allt sem tengist því er sveipað dularfullum ljóma. Konan hafði villt á sér heimildir, haft fjölmörg dulnefni og verið í dulargervum. Miðar höfðu verið klipptir af öllum fötum í farangri hennar, hún hafði markvisst verið að hylja slóð sína. Hún var óþekkjanleg vegna þess að líkið var brunnið og í blóði hennar fannst töluvert magn af sljóvgandi lyfjum, þótt bruninn hafi verið dánarorsök. Allt varð þetta til þess að stutt var í samsæriskenningar. Sumir töldu að hún væri mögulega sovéskur njósnari, aðrir að hún hefði verið njósnari fyrir ísraelsku leyniþjónustuna. Fólki fannst einnig grunsamlegt hversu fljótt málinu var lokað.“

Þegar Friðgeir er spurður að því hvort það sé ekki skrýtið að svo óhugnanlegur atburður hafi átt sér stað nálægt þar sem hann býr, segir hann svo vera.

„Jú, en samt er einhver spenna í því, ég verð að játa það, því Bergen er ákaflega friðsamur staður og svona hræðilegt ofbeldi er fjarri mínum hversdagsveruleika þar. Samt gerðist þetta í dalnum fagra sem ég horfi inn í þegar ég lít út um svefnherbergisgluggann minn.“

Fjallar líka um mína aðlögun

Útlendingurinn, morðgáta , er annað verkið í einleiks-trílógíu Friðgeirs, en fyrsta verkið var Club Romantica , þar sem efniviður Friðgeirs var leit hans að konu sem hann sá á myndum í albúmi sem hann keypti á flóamarkaði í Belgíu. Friðgeir lagðist í mikla leit að henni sem vakti hann líka til umhugsunar. Hann notar sömu aðferð í nálguninni í Útlendingnum, morðgátu , hann er bæði höfundur og leikari og rannsókn hans er verkið sjálft.

„Þetta verk fjallar jöfnum höndum um málið og mig sem rannsakanda og þær áskoranir sem ég stend frammi fyrir í nýju umhverfi í Bergen. Þetta er líka um líf mitt og aðlögun þegar ég flyt á ókunnar slóðir. Inn í þetta fléttast saga Alberts Camus um útlendinginn, aðalpersónan er að vinna leikgerð eftir sögunni og veltir vöngum yfir tilgangi tilveru sinnar og stöðu sinni í veröldinni, um leið og hún heillast af þessu glæpamáli og veltir fyrir sér hvernig hún geti leyst það.“

Hví heillumst við af hryllingi?

Hvernig er fyrir þig að bregða þér í hlutverk spæjara, reynir þú að koma að málinu með öðrum hætti en hin hefðbundna leynilögregla?

„Já, ég held að það sé óumflýjanlegt, því ég hef ekki dregist mikið að glæpasögum hingað til, ég er ekki mikill krimmakarl. Ég kem ókunnur að krimmaforminu og þá verður mín nálgun meira inn á við, leikritið er líka um glæpasöguformið og hvað það er í mannlegu eðli sem dregur okkur að glæpaþáttum og glæpasögum. Hvers vegna við heillumst af hryllingi og heimi glæpanna.“

Fannst þú fyrir því í þér sjálfum við það að kafa í þetta morðmál?

„Já, maður fer að finna einhverja spennu og fer að ímynda sér að maður geti tekið þátt. Ég er langt frá því sá eini sem hefur kynnt sér sögu þessa máls um líkfundinn í Ísdalnum, á netinu eru mjög virk samfélög þar sem einvörðungu er verið að rýna í þetta mál. Þar er fólk miklu hæfara og áhugasamara en ég um þetta tiltekna mál, og ekki aðeins Norðmenn heldur fólk um allan heim. Sumir eru helteknir og verja töluverðum tíma í þetta, þótt með hverju árinu sem líður sé ólíklegra að málið verði upplýst.“

Vandasamt að finna jafnvægið

Friðgeir tekur fram að hann geri sér grein fyrir að alvörumanneskja liggi til grundvallar umfjöllun hans í verkinu, rétt eins og í Club Romantica . „Hættan er að konan verði einhvers konar viðfang í spennuþætti, verði hlutgerð. Fólki hættir til að gleyma að þetta var lifandi manneskja og ég er ekki alveg saklaus af því. Það er vandasamt að nota raunverulega manneskju til að búa til leiksýningu og sýna um leið virðingu. Hvaða leyfi hefur maður til að gera þetta, að taka líf manneskju eða dauða hennar sem efnivið? Auðvitað reyni ég að nálgast það af virðingu, en það er vandasamt því hluti af þessari sýningu eins og þeirri síðustu er húmorísk, en hún gengur út á að sýna húmorískar hliðar á mínu lífi. Ég þarf að finna jafnvægið hvar ég get leyft mér að vera með gamanmál og hvar ekki.“

Kynnir sér önnur morðmál

Var margt sem kom þér á óvart við að grennslast fyrir um þennan líkfund?

„Já, þar sem ég hef aldrei heillast af glæpasögum þá kom mér á óvart að ég gat líka heillast af þessum heimi. Ég gat orðið heltekinn af þessu máli. Áhuginn er jafnvel að þróast yfir í að ég er byrjaður að kynna mér önnur morðmál. Einnig kom mér á óvart hversu langt fólk fer inn í þetta mál, fólk sem hefur aldrei komið til Noregs og þekkir engan þar en er samt að birta skjöl í lokuðum hóp sem tekur greinilega margar vinnuvikur að útbúa, mjög ítarlegar rannsóknir. Þetta fólk myndar sér einhvers konar samfélag á netinu og óafvitandi er þessi kona í dauða sínum farin að veita fólki einhvers konar tilgang og sameina fólk frá ólíkum þjóðlöndum. Mér fannst það áhugaverð uppgötvun,“ segir Friðgeir sem er með sama fólkið með sér í sýningunni og hann var með í Club Romantica . Snorri Helgason sér um tónlistina, Pétur Ármannsson leikstýrir, Brynja Björnsdóttir er leikmyndahönnuður og sér um búninga og Pálmi Jónsson er ljósahönnuður. „Við ætlum líka að vera saman í þriðju ráðgátunni, en það er ekki nægilega þróuð hugmynd til að hægt sé að segja frá henni strax.“