Íslendingar Þegar hefur tekist að finna 411 færslur um Íslendinga í Zhenhua-gagnalekanum, þar á meðal þau 40, sem hér sjást að ofan. Nafnalistann má finna á síðum 18 og 19, en talið er að hugsanlega hafi verið safnað þar persónuupplýsingum um fjögur þúsund Íslendinga í óljósum tilgangi.
Íslendingar Þegar hefur tekist að finna 411 færslur um Íslendinga í Zhenhua-gagnalekanum, þar á meðal þau 40, sem hér sjást að ofan. Nafnalistann má finna á síðum 18 og 19, en talið er að hugsanlega hafi verið safnað þar persónuupplýsingum um fjögur þúsund Íslendinga í óljósum tilgangi.
Andrés Magnússon Karl Blöndal Listi yfir 411 Íslendinga, sem koma fyrir í gagnasafni kínverska fyrirtækisins Zhenhua, er birtur í Morgunblaðinu í dag.

Andrés Magnússon

Karl Blöndal

Listi yfir 411 Íslendinga, sem koma fyrir í gagnasafni kínverska fyrirtækisins Zhenhua, er birtur í Morgunblaðinu í dag. Þar má finna fjölda nafna áhrifafólks í íslensku þjóðfélagi, en einnig barna þeirra, maka og skyldmenna annarra.

Þar má finna töluvert af stjórnmálafólki, núverandi og fyrrverandi, starfsmönnum utanríkisþjónustu og annarrar stjórnsýslu, auk margs fólks úr atvinnu- og viðskiptalífi, ekki síst það sem átt hefur í einhverjum tengslum við Kína. Þá má greina sérstakan áhuga á réttvísinni, bæði dómurum og lögreglu, en eins er talsvert þar um fjölmiðlafólk.

Talið er að þessi 411 nöfn séu ekki nema brot af þeim Íslendingum, sem safnað hefur verið upplýsingum um, hugsanlega um 10%. Þannig má t.d. ráða að eftir eigi að koma í ljós upplýsingar um tiltekna einstaklinga, þar sem sjá má nöfn barna þeirra eða maka meðal þeirra nafna, sem þegar hafa komið í ljós. Ekki verður séð að um Íslendinga hafi verið safnað öðru en opinberum upplýsingum.

Gagnalekinn hefur vakið gríðarlega athygli um heim allan, enda er talið að í fórum kínverska fyrirtækisins séu persónuupplýsingar um 2,4 milljónir manna í nær öllum ríkjum heims.

Óljóst er um tilgang þessarar yfirgripsmiklu gagnasöfnunar, en fyrirtækið Zhenhua Data gumar af því að kínversk stjórnvöld, herinn og ámóta stofnanir séu meðal helstu viðskiptavina sinna.

Sködduðu öryggisafriti af gagnagrunni var lekið til bandarísks fræðimanns, sem kom því áleiðis til ástralsks netöryggisfyrirtækis, sem fengist hefur við að dirka upp upplýsingar úr grunninum. Í samtali við Morgunblaðið, sem birt er í dag, sagði Robert Potter framkvæmdastjóri þess, að hann teldi ósennilegt að það tækist að endurheimta allan grunninn, en vel mætti vera að fleiri færslur kæmu upp úr krafsinu.

Zhenhua-gagnaleikinn
» Gagnagrunni með persónuupplýsingum um 2,4 milljónir manna var lekið frá Kína.
» Kínverska fyrirtækið Zhenhua Data safnaði þeim saman í óljósum tilgangi, en meðal helstu viðskiptavina eru kínversk stjórnvöld, her og njósnastofnanir.
» Flestar upplýsingarnar, ekki þó allar, hafa verið fundnar hér og þar á netinu og settar saman.