Ásdís Halla Bragadóttir
Ásdís Halla Bragadóttir — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsögur eru áberandi á útgáfulista Veraldar fyrir þessi jól, en líka gefur forlagið úr fræðibækur, ljóð og barnabók. Ein heitir fyrsta skáldsaga Ásdísar Höllu Bragadóttur, en áður hafa komið út eftir hana minningabækurnar Tvísaga og Hornauga .

Skáldsögur eru áberandi á útgáfulista Veraldar fyrir þessi jól, en líka gefur forlagið úr fræðibækur, ljóð og barnabók.

Ein heitir fyrsta skáldsaga Ásdísar Höllu Bragadóttur, en áður hafa komið út eftir hana minningabækurnar Tvísaga og Hornauga . Í Ein segir frá því þegar ung kona, sem starfar í heimaþjónustu, mætir til vinnu í blokk fyrir eldri borgara við Aflagranda blasir við henni óvænt sýn. Inn í söguna blandast eldri maður í sömu blokk og ungur íslenskur læknir sem berst við að bjarga fórnarlömbum Covid-19-faraldursins í New York.

Einnig er væntanleg ný skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar sem hann nefnir Snertingu . Kristófer, eldri maður í Reykjavík, hyggst loka veitingastað sínum í miðbæ Reykjavíkur vegna veirunnar, eftir áratuga farsælan rekstur. Sama dag berst honum óvænt vinarbeiðni á Facebook og hann leggur af stað í ferð yfir þveran hnöttinn á vit minninga um ástir, fornar og nýjar, leynd og eftirsjá eftir því sem hefði getað orðið.

Konan sem elskaði fossinn eftir Eyrúnu Ingadóttur segir frá baráttu Sigríðar í Brattholti (1871-1957), eins kunnasta náttúruverndarsinna Íslandssögunnar, sem barðist gegn því á sínum tíma að Gullfoss yrði virkjaður. Eyrún Ingadóttir er sagnfræðingur og hefur um árabil rannsakað ævi og baráttu Sigríðar í Brattholti.

Ragnar Jónasson snýr aftur til Siglufjarðar í skáldsögunni Vetrarmeini . Bókin segir frá því er lögreglumaðurinn Ari Þór Arason, sem er söguhetja Siglufjarðarseríu Ragnars, þarf að glíma við undarlegt og óhugnanlegt mál, en aðfaranótt skírdags finnst lík af ungri konu á gangstétt fyrir framan þriggja hæða hús við Aðalgötuna á Siglufirði. Skömmu síðar skrifar íbúi á hjúkrunarheimili í bænum með æpandi rauðum lit á vegginn í herberginu sínu: Hún var drepin.

Bráðin eftir Yrsu Sigurðardóttur segir frá því er björgunarsveitir eru sendar inn í Lónsöræfi í leit að hópi fólks sem er saknað. Á sama tíma gerast undarlegir atburðir á ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Og á nesinu er gat í sjávarklöpp sem sogar til sín fólk.

Næturskuggar er þriðja bók Evu Bjargar Ægisdóttur um lögreglukonuna Elmu og samstarfsmenn hennar. Í bókinni segir frá því er ungur maður lætur lífið í dularfullum eldsvoða á Akranesi og skilur eftir sig niðurbrotna fjölskyldu og vini. Um svipað leyti lendir ung kona í mikilli tilfinningaflækju sem vindur upp á sig. Og athafnamenn á Skaganum villast af þröngum vegi dyggða og heiðarleika í starfi og einkalífi.

Einnig er væntanleg skáldsagan sem hlaut verðlaunin Svartfuglinn 2020, en Svartfuglinn er samkeppni um verðlaunaspennusögu eftir höfund sem ekki hefur áður sent frá sér spennusögu. Úrslit verða kynnt um miðjan mánuðinn, en í tilkynningu frá Veröld kemur fram að sigurvegarinn sé þjóðþekkt persóna sem ekki hafi áður gefið út slíka bók.

Veröld gefur einnig út tvær ljóðabækur, Skáldaleyfi eftir Sigmund Erni Rúnarsson, en um þessar mundir eru fjörutíu ár síðan hann sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, og Óstöðvandi skilaboð eftir Ásdísi Óladóttur, sem sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók fyrir aldarfjórðungi.

Eina ævisögu gefur Veröld út og það óvenjulega, því Fyrir augliti Dagatal eftir Úlfar Þormóðsson birtir 730 færslur úr dagbók sem Úlfar hélt á árunum 2018 og 2019. Sviðið er miðbær Reykjavíkur og samfélag Íslendinga suður í höfum – en kannski mest andi Úlfars sem fer með lesendur í ferðalag um hugmyndir og atburði líðandi stundar, allt frá tíðindalausri ferð í matvörubúð til bréfaskipta við unga og efnilega rithöfunda. Margir koma við sögu og það er líka mikið lesið og skrifað.

Af fræðibókum og bókum almenns eðlis kom út fjórar bækur. Bók Steinars J. Lúðvíkssonar, Brimaldan stríða Örlagarík skipströnd við Ísland , segir frá nokkrum af örlagaríkustu skipströndum sem orðið hafa við Ísland. Í bókinni Hjarta Íslands Milli fjöru og fjalla skrifa þeir Gunnsteinn Ólafsson og Páll Stefánsson um 62 perlur í landinu milli fjöru og fjalla. Heilsubók Jóhönnu Eiturefnin og plastið í daglegu lífi okkar eftir Jóhönnu Vilhjálmsdóttur fjallar um þau manngerðu eiturefni af ýmsu tagi sem eru orðin hluti af daglegu lífi okkar, fóstur og ungbörn hafa aldrei í sögunni mælst með eins mikið magn eiturefna í sér í móðurkviði og eftir fæðingu. Fjórða bókin, sem er reyndar þegar komin út, er Þegar karlar stranda og leiðin í land eftir Sirrý Arnardóttur, en í henni ræðir Sirrý við karlmenn á ólíkum aldri, úr ólíkum áttum og með mismunandi stöðu í samfélaginu sem eiga það sameiginlegt að hafa strandað og upplifað verulega vanlíðan.

Yrsa Sigurðardóttir sendir ekki bara reyfara frá sér heldur kemur líka út frá henni barnabókin Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin sem er fyrsta barnabók hennar frá því hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2003.

arnim@mbl.is