Gögn Fjölda nafna hefur verið lekið.
Gögn Fjölda nafna hefur verið lekið. — Ljósmynd/Unsplash
Karl Blöndal kbl@mbl.is Gagnagrunnur kínversks fyrirtækis, Zhenhua Data, með nöfnum yfir 2,4 milljóna manna, þar á meðal fjölda Íslendinga, og persónlegum upplýsingum um þá hefur verið í fréttum um allan heim.

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Gagnagrunnur kínversks fyrirtækis, Zhenhua Data, með nöfnum yfir 2,4 milljóna manna, þar á meðal fjölda Íslendinga, og persónlegum upplýsingum um þá hefur verið í fréttum um allan heim. Gætu Íslendingarnir á listanum verið tífalt fleiri en komið er fram. Zhenhua Data hefur tengsl við kínversk stjórnvöld og hefur getum verið leitt að því að gagnagrunnurinn hafi verið gerður fyrir þau. Er meðal annars talað um norðurslóðagrunninn. Í honum eru nöfn 411 Íslendinga, 163 Færeyinga og 73 Grænlendingar. Gagnagrunninum var lekið til bandarísks fræðimanns, Chris Balding, sem afhenti hann ástralska netöryggisfyrirtækinu Internet 2.0 í Canberra. Framkvæmdastjóri Internet 2.0 er Robert Potter.

„Þetta er magnað,“ sagði Potter í samtali við Morgunblaðið. „Þegar við fórum að setja grunninn saman upp á nýtt vissum við að þar yrði hægt að greina hluti, sem við myndum ekki að koma auga á, því að við vissum ekki hvaða fólk væri um að ræða og værum ekki kunnug á þeirra slóðum. En við hugsuðum með okkur að með tímanum myndu færðimenn og rannsakendur sökkva sér ofan í þetta, komast að sínum niðurstöðum og finna hluti, sem við hefðum ekki áttað okkur á.“

Munur eftir löndum

Potter segir að ekki sé hægt að segja að gagnagrunnurinn fylgi ákveðnu mynstri, áherslur séu ólíkar eftir löndum og hann geti ekkert sagt um norðurslóðahlutann.

„Ef við skoðum hins vegar þann hluta sem snýr að skipulagðri glæpastarfsemi þá eru eiturlyf greinilega aðalatriði í ástralska hlutanum, en á Indlandi spilling, stigamennska og vopnasala,“ segir hann. „Ég get hins vegar ekkert sagt þér um hver munurinn sé á gögnunum um Ástralíu og Ísland.“

Mjög skaddað öryggisafrit

Internet 2.0 hefur tekist að endurheimta um 10% af gagnagrunninum, sem var lekið.

„Ég held að okkur muni ekki takast að endurheimta allan grunninn, hann var það skemmdur,“ segir Potter. „Við fengum mjög skaddað öryggisafrit af skjali. Vegna þess hvað skjalið var skaddað ákváðum við að gera mörg afrit, reyna að endurheimta hluta þess og setja það síðan saman á ný. Ástæðan er sú að þegar reynt er að endurheimta skjal línulega getur það eyðilagst. En maður reynir að komast eins langt og maður getur áður en það gerist og smám saman tókst okkur að ná vænum hluta upplýsinganna. Við erum komin með um 10% og ég veit ekki hvað náum miklu, en við höldum áfram að vinna í þessu.“

Potter segir að því geti vissulega verið fleiri íslensk nöfn á listanum og bætir við að lögð hafi verið meiri vinna í að endurheimta ástralska hlutann, en aðra hluta gagnagrunnsins. Fjöldi nafna frá löndum, sem ekki hefði verið lögð áhersla á að endurheimta úr grunninum, gæti því verið allt að tífalt meiri, en nú væri komið fram.

Pólitíkusar og áhrifavaldar

Potter segir að í grunninum kenni margra grasa. Áhersla í fréttum hingað til hafi verið á stjórnmálamenn á listanum eða áhrifavaldar, enda veki það áhuga bæði fjölmiðla og almennings. Þarna séu líka nöfn einstaklinga sem gætu verið hvaðan sem er. Einnig megi nefna upplýsingar um starfsfólk og stjórnendur fyrirtækja, stórra og smárra. Þá séu líka hugveitur og rannsóknarstofnanir í grunninum og nefnir Potter John F. Kennedy School of Government við Harvard-háskóla og stjórnmálafræðideild Columbia-háskóla. Þá séu þarna nöfn úr hergagnageiranum og prófílar af herforingjum.

Anne-Marie Brady, prófessor við Canterbury-háskóla á Nýja-Sjálandi og sérfræðingur í pólitískum afskiptum Kínverja, fór í gegnum listann.

Safnað til að hafa áhrif

Hún sagði í frétt nýsjálensku útvarpsstöðvarinnar RNZ að gagnasöfnunin væri hluti af söfnunaráráttu kínverskra stjórnvalda í þeirri viðleitni að byggja upp sambönd í pólitík og efnahagslífi.

„Fyrst þarf upplýsingar um fólkið svo hægt sé að þróa samskiptin og finna veiku blettina,“ sagði hún. Svo yrðu upplýsingarnar notaðar til að þrýsta á viðkomandi einstaklinga eða átta sig á afstöðu þeirra til kínverskra stjórnvalda og rækta þá og hafa áhrif á þá, í leit að nöfnum, sem tengjast herjum, sem eru með flota á Suður-Kyrrahafi.

Potter segir að Brady hafi farið ofan í það hvaða nöfn hafi verið á listanum frá eyjum á Kyrrahafi, sem tengja mætti valdabaráttunni í Suður-Kínahafi. Þar hefði hún meira að segja fundið nöfn, sem væru ekki skráð á samskiptamiðla á borð við Facebook og LinkedIn. Þá hefðu upplýsingar komið frá tengdu fólki og úr bankagögnum.

Þetta er í samræmi við fréttir um að þótt mestu af upplýsingunum í grunninum hafi verið safnað úr opnum miðlum á borð við Twitter, Facebook, LinkedIn, Instagram og TikTok, sé einnig að finna upplýsingar, sem virðist fengnar úr lokuðum bankagögnum, starfsumsóknum og sálgreiningum.

Potter segir að Zhenhua sé ekki stórt fyrirtæki. Starfsmenn séu um 30. Þeir neiti að svara spurningum um hverja þeir vinni fyrir. „En á vefsíðu sinni nefna þeir samstarfsaðila og það eru fyrirtæki með staðfest og náin tengsl við kínverska kommúnistaflokkinn, þar á meðal þekkt hugveita,“ segir hann. „Við höfum ekki getað staðfest að þessar upplýsingar á heimasíðunni standist, en lítum svo á að hægt sé að taka þá á orðinu að þeir vinni fyrir varnar- og njósnageirann.“