Guðmundur Guðlaugsson fæddist í Stóra-Laugardal í Tálknafirði 3. ágúst 1931. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 19. september 2020.

Foreldrar hans voru Guðlaugur Guðmundsson, f. 29.1. 1900 á Krossi á Skarðsströnd, d. 28.2. 1988, og Hákonía Jóhanna Pálsdóttir, f. 4.8. 1907 á Hamri á Barðaströnd, d. 24.3. 1998. Systkini hans eru Arnbjörg, f. 17.6. 1930, d. 19.8. 1998, Þórður, f. 10.6. 1933, Páll, f. 6.11. 1935, Jóna, f. 6.8. 1937, Helga, f. 25.8. 1940, d. 29.4. 1941, Sigrún Helga, f. 7.8. 1942, og Margrét, f. 9.4. 1950, d. 10.1. 2018.

Guðmundur ólst upp í Stóra-Laugardal á stóru og gestkvæmu heimili sem jafnframt var kirkjustaður. Hann sótti barnaskóla á Bakka í Tálknafirði og síðar Héraðsskóla Vestfjarða á Núpi. Guðmundur byrjaði ungur til sjós eins og algengt var á þeim tíma. Samhliða sjómennskunni aðstoðaði hann við búrekstur föður síns í Stóra-Laugardal og kom hann árlega í heyskap og réttir allt þar til búskap lauk þar í kringum 1980.

Þann 31.12. 1960 kvæntist Guðmundur Jóhönnu Pálsdóttur, f. 24.10. 1932. Þau Guðmundur og Jóhanna hófu búskap sinn í Reykjavík og bjuggu þau alla sína tíð í Laugarneshverfinu. Börn þeirra eru:

1) Páll Ragnar, f. 21.2. 1959, giftur Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, börn þeirra eru Jóhanna Björk, f. 24.1. 1989, Arnór Ingi, f. 24.1. 1993, og María Björk, f. 29.8. 2001.

2) Hákonía Jóhanna, f. 8.3. 1963, börn hennar eru Guðmundur Andri Garðarsson, f. 23.7. 1987, og Rebekka Rakel Hákoníudóttir, f. 17.6. 2004.

3) Elín Bryndís, f. 17.6. 1972, gift Gretti Hreinssyni, f. 29.11. 1966, börn þeirra Andrea Mist, f. 10.11. 2005, Felix Óttar, f. 19.3. 2008, Dagmar Hrönn, f. 17.1. 2010.

4) Guðlaugur Skúli, f. 29.8. 1973, giftur Elizabeth Sargent, f. 24.7. 1979, börn þeirra Elinor Vigdís, f. 16.4. 2010, Victoria Bryndís, f. 7.6. 2013 og Davíð Edward, f. 20.5. 2017.

Eftir að Guðmundur hætti sjómennsku starfaði hann lengst af hjá Eimskip þar sem hann var verkstjóri í vöruskemmum fyrirtækisins, m.a. í Sundagörðum, Borgartúni, Grandagarði og í Faxaskála.

Síðustu fimm ár ævi sinnar dvaldi Guðmundur á öldrunarheimili Hrafnistu í Laugarási.

Jarðarförin fer fram í Laugarneskirkju í dag, 1. október 2020, kl. 13. Vegna aðstæðna í samfélaginu er athöfnin einungis fyrir nánustu fjölskyldu en henni verður streymt á youtu.be/DDGU6hpIM-c .

Virkan hlekk má nálgast á www.mbl.is/andlat .

Elsku afi, við barnabörnin dvöldum mikið hjá ykkur ömmu þegar við vorum yngri, einkum þau eldri okkar. Á Hofteignum var ýmislegt brallað, við spiluðum, lituðum, föndruðum, lærðum að tefla, horfðum á barnaefni og gerðum ýmislegt annað skemmtilegt með ykkur. Við vorum oft í mat og eru okkur í fersku minni vöfflurnar, pönnukökurnar, kjötbollurnar, slátrið, kakósúpan og annar heimilismatur sem minna var um á okkar eigin heimilum.

Okkur eru minnisstæðar sumarbústaðaferðirnar, utanlandsferðirnar og ferðir í sveitina hans afa í Stóra-Laugardal, þar sem honum sem og okkur leið mjög vel. Þar gerðist ýmislegt sem við borgarbörnin þekktum ekki t.d. þegar farið var með bein og matarleifar upp á ákveðinn stein fyrir ofan bæinn til að gefa krumma og eftir það höfum við litið þennan fugl öðrum augum. Einnig munum við vel eftir því þegar afi stóð úti á tröppunum í Stóra-Laugardal og kallaðist á við tófuna og hún svaraði.

Við kynntumst lítið starfsævi afa en fréttum þó að hann hafi a.m.k. tvisvar lent í sjávarháska þegar hann var ungur. Þegar afi var 21 árs var hann á togaranum Gylfa frá Patreksfirði sem kviknaði í úti fyrir Snæfellsjökli. Togarinn Fylkir bjargaði áhöfninni og dró brennandi togarann til hafnar í Reykjavík.

Síðar þegar afi var 25 ára var hann á fyrrnefndum Fylki sem sökk eftir að hafa fengið tundurdufl í vörpuna. Þá varð einnig mannbjörg, áhöfninni tókst að komast í björgunarbát en skipið sökk á einungis 15 mínútum.

Afi sagði okkur hvernig þið amma kynntust en vinkona ömmu setti auglýsingu í Vikuna þar sem óskað var eftir bréfasambandi við pilta á aldrinum 18-25 ára og skyldi mynd fylgja. Þetta hefur verið “Tinder“ þess tíma. Auglýsingin bar árangur, ömmu hefur litist vel á myndina og þið náðuð saman í Reykjavík að lokum. Á þeim tíma bjuggu afi og amma hvort í sínum landsfjórðungnum og erfitt um samgöngur en afi tók sig til ásamt bróður sínum og keyrði í Willys-jeppanum sínum frá Tálknafirði alla leið í Meðallandið til að líta þessa ungu snót augum. Þegar á hólminn var komið brast hins vegar kjarkurinn þannig að þau hittust ekki í það sinnið.

Á tímabili sótti afi sundlaugarnar reglulega, synti mikið og stundaði þar leikfimi. Um helgar var þá gjarnan farið snemma dags og þá var keppst um hver væri fyrstur til að stinga sér í laugina. Hann sótti námskeið í skriðsundi og tók nokkrum sinnum þátt í Kópavogssundinu sem efnt var til árlega um aldamótin. Hann var mikill göngumaður og umtalað var þegar hann gekk í fararbroddi upp á Fagramúla við Stóra-Laugardal í stígvélum, þá rúmlega sjötugur. En ekki fer eins miklum sögum af dugnaði í verslunarmollum erlendis, þar var áhuginn minni og í minningunni sat afi gjarnan á bekk miðsvæðis og tók við og gætti þess sem við börnin og foreldrar okkar keyptum.

Afi var glaðlyndur og mjög athugull. Hann fylgdist vel með sínu næsta nágrenni, stóð löngum við eldhúsgluggann og fylgdist með bílnum sínum og mannaferðum. Ef e-ð breyttist í okkar útliti, hvort sem það var ný klipping eða annað smávægilegt, tók afi fyrstur eftir því. Afi sá mjög vel og heyrðum við að hann hafi á yngri árum þekkt kindur í fjallshlíð þar sem aðrir sáu ekki neitt. Afi var einnig oft að gauka að okkur peningum og öðru góðgæti sem hann bað okkur um að fara vel með og ekki auglýsa.

Elsku afi, takk fyrir allt. Takk fyrir að hafa verið okkur svona góður, takk fyrir að hafa alltaf verið til í faðmlag og að leiða okkar hendur, takk fyrir að vera frábær fyrirmynd, takk fyrir allar samverustundirnar og takk fyrir hversu vel við fundum að við vorum elskuð. Elsku afi hvíl þú í friði.

Fyrir hönd barnabarna,

Jóhanna Björk Pálsdóttir.