Ester Blendu Nordström
Ester Blendu Nordström
Ég drekk í mig þætti Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar, sem eru á dagskrá Rásar eitt á föstudagmorgnum.

Ég drekk í mig þætti Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar, sem eru á dagskrá Rásar eitt á föstudagmorgnum. Vera fjallaði í tveimur þáttum í síðasta mánuði um hina hugrökku sænsku hrútasystur mína, Ester Blendu Nordström, sem fæddist undir lok nítjándu aldar. Stúlkan sú átti ævintýralega ævi og strax í bernsku kom fram hversu orkumikil og uppátækjasöm hún var (eins og hrútar gjarnan eru). Ester sagði sjálf að hún hefði verið agalegt barn, og minntist svimandi gleði yfir óteljandi prakkarastrikum, en líka sorgar og sársauka refsinga. Hún lét engan segja sér hvað hún mætti eða mætti ekki gera. Hún fór sannarlega ótroðnar slóðir og gegn þeim straumi sem vildi halda konum niðri. Hún hóf ævintýralegan blaðamannsferil sinn aðeins rétt rúmlega tvítug. Hún villti á sér heimildir þegar hún réð sig sem vinnustúlka á bóndabæ í Svíþjóð til að komast að hinu sanna um hlutskipti ungra vinnukvenna. Það mál gerði hana að frægasta og umdeildasta blaðamanni Svíþjóðar, á þeim tíma þegar það var afar óvanalegt að konur skrifuðu yfir höfuð í blöð. Hún var brautryðjandi sem lifði lífinu á skjön við það sem tíðkaðist meðal kvenna þá, flakkaði um allan heim og fór á bjarnarveiðar á hjara veraldar, svo ekki sé nú minnst á ástamálin. Forvitnir ættu að fletta upp á dagskrá Rásar1 hinn 18. og 25. september á ruv.is.

Kristín Heiða Kristinsdóttir