Velgengni Bækur Ragnars hafa verið þýddar á um 30 tungumál.
Velgengni Bækur Ragnars hafa verið þýddar á um 30 tungumál. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Mistur eftir Ragnar Jónasson er mest selda kiljan í Þýskalandi þessa dagana samkvæmt vikulegum bóksölulista Der Spiegel sem formlega verður birtur í dag.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Mistur eftir Ragnar Jónasson er mest selda kiljan í Þýskalandi þessa dagana samkvæmt vikulegum bóksölulista Der Spiegel sem formlega verður birtur í dag. Enginn íslenskur höfundur hefur áður náð efsta sæti metsölulistans í Þýskalandi.

Þrjár bækur á listanum

„Það er algerlega óraunverulegt að sjá íslenska bók á toppnum á metsölulista í 80 milljón manna þjóðfélagi. Ég bjóst ekki við að það væri hægt og bæði ég og útgefendur mínir erum í smááfalli,“ sagði Ragnar í gær.

Aðeins er hálfur mánuður síðan Mistur kom út í Þýskalandi og hefur bókin siglt hratt upp metsölulistann. Hinar bækurnar í þríleik Ragnars um lögreglukonuna Huldu hafa einnig átt velgengni að fagna í Þýskalandi og verið á metsölulistanum meira og minna í allt sumar. Dimma kom út í maí og Drungi í júlí og segir Ragnar að sú aðferð að gefa bækurnar út með skömmu millibili hafi greinilega verið góð hugmynd og hitt í mark. Metsölulisti Spiegel mælir sölu á yfir 4.200 útsölustöðum í Þýskalandi.

Dimma komst í annað sæti listans fyrir nokkrum vikum og er nú í fjórða sæti og Drungi fór hæst í þriðja sæti, en er nú í ellefta sæti. Það er fáheyrt að rithöfundur eigi þrjár bækur svo ofarlega á metsölulista á sama tíma. Áður hafði Arnaldur Indriðason náð öðru sæti listans með Napóleonsskjölin árið 2005.

„Ég taldi mig lánsaman að eiga bók í öðru sæti í sumar og gerði mér engar væntingar um að ná einhvern tímann fyrsta sætinu,“ segir Ragnar. Hann segist ekki hafa skýringar á þessum miklu vinsældum bókanna í Þýskalandi á hraðbergi. „Það er ómögulegt að skýra hvað veldur. Tíu ár eru síðan fyrsta bókin mín kom út í Þýskalandi og fyrstu fimm bækurnar birtust ekki á neinum metsölulistum. Salan í sumar er stórkostlega óvænt.“

Ragnar segir að bækur hans hafi verið þýddar á um 30 tungumál og verið samið um rétt að útgáfu þeirra í um 40 löndum. Frakkland hefur hingað til verið stærsti markaður fyrir bækur hans, en þar hafa verið seldar um 700 þúsund bækur á fjórum árum. Miðað við söluna í Þýskalandi í sumar gæti sá markaður hins vegar fljótlega siglt fram úr Frakklandi. Bækur Ragnars hafa alls selst í hátt í tveimur milljónum eintaka í heiminum.

Tilnefndur í Bretlandi

Greint var frá því í gær að Mistur hefði verið tilnefnd sem glæpasaga ársins í Bretlandi, en verðlaunin eru á vegum bókahátíðarinnar Capital Crime og Amazon-útgáfunnar. Mistur kom út í Bretlandi í vor. Verðlaunin verða nú veitt í annað skipti og var Ragnar einnig tilnefndur í fyrra fyrir Drunga. Ian Rankin varð þá hlutskarpastur.