[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Óvíst þótti hvaða áhrif ef einhver fyrstu kappræður Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Joes Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins, myndu hafa á kapphlaupið um Hvíta húsið.

Fréttaskýring

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Óvíst þótti hvaða áhrif ef einhver fyrstu kappræður Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Joes Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins, myndu hafa á kapphlaupið um Hvíta húsið. Kappræðurnar einkenndust af frammígripum, reiði og biturð og þóttu ekki góð auglýsing fyrir komandi forsetakosningar.

Í könnun CBS-sjónvarpsstöðvarinnar og YouGov, sem náði til 1.039 líklegra kjósenda, sögðu 48% aðspurðra að Biden hefði unnið kappræðurnar, en 41% þótti Trump hafa staðið sig betur. Um 10% svarenda sögðu hins vegar að niðurstaðan hefði verið jafntefli.

Meginathyglin var þó á form og eðli kappræðnanna frekar en frammistöðu frambjóðendanna, og 69% aðspurðra í sömu könnun sögðu að þær hefðu verið „pirrandi“.

Áhlaupið vakti litla lukku

Út úr könnunum meðal óákveðinna kjósenda mátti einnig sjá, að frammistaða Bidens þótti betri en menn höfðu átt von á, en Trump hefur reynt að gera aldur Bidens, sem er 77 ára, og andlegt ástand hans að kosningamáli. Þá var Trump sagður hafa hegðað sér eins og „eineltishrotti“ samkvæmt könnun sem Frank Luntz, skoðanakönnuður fyrir Repúblikanaflokkinn, lét gera hjá 15 manna rýnihópi.

Sé sú könnun lýsandi fyrir heildina má mögulega skrifa það á kappræðutækni Trumps, sem greip oft og iðulega fram í fyrir Biden, sakaði hann um að vera handgenginn öfgaöflum í Demókrataflokknum og rifjaði upp vafasaman viðskiptaferil Hunters, yngri sonar Bidens. Biden lét það augljóslega fara í taugarnar á sér og kallaði hann forsetann meðal annars trúð, fífl og lygara, og sagði honum í eitt skipti að „loka trantinum“ meðan hann væri að tala.

Á sama tíma náði Biden að mati flestra skýrenda að forðast alvarleg mistök sem framboð Trumps hefði getað nýtt sér til þess að snúa stöðunni sér í vil, en flestar skoðanakannanir benda til þess að Biden hafi nokkurt forskot á Trump, þegar fimm vikur eru til kosninga.

Nokkuð var rætt um kappræðurnar og hið óvenjulega eðli þeirra í gær. Chris Wallace, fréttamaður Fox-fréttastöðvarinnar, sem stýrði kappræðunum, var til að mynda gagnrýndur nokkuð fyrir að hafa ekki haft hemil á frambjóðendunum tveimur þegar mest gekk á.

Héldu áfram rifrildinu

Frambjóðendurnir tveir héldu áfram að troða illsakir á samfélagsmiðlum eftir kappræðurnar og kölluðu hvor annan öllum illum nöfnum. Trump gagnrýndi Wallace sérstaklega og sagði hann hafa dregið taum Bidens, og birti Biden þá myndband á twitterreikningi sínum sem gaf í skyn að forsetinn væri „vælukjói“.

Þá sagði Biden á kosningafundi sínum í Ohioríki að frammistaða Trumps hefði verið „þjóðarskömm“, þar sem forsetinn hefði látið undir höfuð leggjast að hughreysta þjóðina í þeim erfiðleikum sem nú steðja að. Trump hefði að auki fengið tækifæri til þess að sverja af sér hægri-öfgahópa og segja þeim að láta af ógnunum sínum, en í stað þess sagði hann þeim að „halda sig til hlés og bíða átekta“. Ummælin voru nokkuð gagnrýnd eftir kappræðurnar og sagði Biden þau ekki í takt við þjóðaranda Bandaríkjamanna.