Alþingi Þingmenn hafa ekki farið til útlanda á fundi síðasta hálfa árið.
Alþingi Þingmenn hafa ekki farið til útlanda á fundi síðasta hálfa árið. — Morgunblaðið/Eggert
Verulega hefur dregið úr kostnaði Alþingis vegna utanlandsferða þingmanna vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Verulega hefur dregið úr kostnaði Alþingis vegna utanlandsferða þingmanna vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Ferðakostnaður utanlands fyrstu átta mánuði ársins 2020 er 10,5 milljónir króna en var á sama tíma í fyrra 25,3 milljónir, samkvæmt upplýsingum frá Alþingi.

Forsætisnefnd þingsins ákvað í mars að fella niður vinnutengdar ferðir þingmanna og starfsfólks Alþingis frá og með 17. mars út vorþingið. Sú ákvörðun hefur ekki verið framlengd, enda hefðbundinni þátttöku í alþjóðastarfi sjálfhætt þegar þingmannafundir og -ráðstefnur hafa færst í rafrænt form að frumkvæði skipuleggjenda.

Á vef Alþingis má sjá tikynningar um þrjá fjarfundi í næstu viku. Birgir Þórarinsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir taka þátt í fjarfundi eftirlitsnefndar Evrópuráðsþingsins 5. október. Sigríður Á. Andersen tekur þátt í fjarfundi 12+ landfræðihóps hjá Alþjóðaþingmannasambandinu 6. október og Njáll Trausti Friðbertsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir taka þátt í fjarfundi á vegum NATO-þingsins um áherslur bandalagsins til 2030 hinn 7. október. sisi@mbl.is