Ræktun Horft er til grænnar uppbyggingar á Suðurlandi.
Ræktun Horft er til grænnar uppbyggingar á Suðurlandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ríkisstjórnin á að dreifa byrðum svo þau sem misst hafa vinnuna beri ekki mestan kostnað í heimsfaraldri. Heimilin búa við rekstrarvanda líkt og fyrirtæki sem tekið hafa skellinn.

Ríkisstjórnin á að dreifa byrðum svo þau sem misst hafa vinnuna beri ekki mestan kostnað í heimsfaraldri. Heimilin búa við rekstrarvanda líkt og fyrirtæki sem tekið hafa skellinn. Þetta segir í ályktun kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem fundaði um síðustu helgi.

Högg í ferðaþjónustu

Atvinnuleysi á Suðurnesjum mælist nú 18% og 7,5% á Suðurlandi með tilheyrandi tekjufalli heimila og sveitarfélaga. Kjördæmisráðið krefst þess að allir þeir sem misst hafa vinnuna vegna covid-19 fái 6 mánaða tekjutengdar atvinnuleysisbætur og horfið verði frá því óréttlæti að skilja þá eftir sem misstu vinnuna í upphafi faraldursins. Þá er mikilvægt að ríkið í samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki komi af stað atvinnuskapandi átaksverkefnum þar til atvinnulífið hefur náð sér aftur á strik.

Ferðaþjónustan í Suðurkjördæmi hefur orðið fyrir miklu höggi og nú verður að að leggja alla áherslu á sköpun atvinnutækifæra bæði fyrir karla og konur með nýsköpun og menntun. Menntunartækifæri verða að vera aðgengileg svo fólk fái tækifæri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Íslenskukennsla atvinnulausra innflytjenda er þar á meðal.

Efla garðyrkju og skógrækt

„Aukin grænmetisframleiðsla og skógrækt til að vinna gegn loftslagsvá af mannavöldum, er eitt af yfirlýstum markmiðum stjórnvalda. Forsenda þess að nálgast það markmið er stóraukin starfsmenntun á sviði umhverfis og garðyrkju og stuðningur við nýsköpun og vöxt. Stofna þarf sérstakan starfsmenntaskóla á framhaldsskólastigi að Reykjum í Ölfusi og stórefla starfsmenntun í samvinnu við fagfélög og fyrirtæki,“ segir Samfylkingin í Suðurkjördæmi sem krefst aðgerða strax sem skapa atvinnutækifæri og græna uppbyggingu á sama tíma og staðið er vörður um velferðina og heimilin.