„Það er huggun harmi gegn að leiðin til að bæta skaðann og rísa aftur upp, er nákvæmlega sú sama og við höfum talað fyrir áður og verið sammála um,“segir Þórdís. Ráðuneytið vinnur m.a. að því að greiða leið erlendra sérfræðinga til landsins.
„Það er huggun harmi gegn að leiðin til að bæta skaðann og rísa aftur upp, er nákvæmlega sú sama og við höfum talað fyrir áður og verið sammála um,“segir Þórdís. Ráðuneytið vinnur m.a. að því að greiða leið erlendra sérfræðinga til landsins.
Réttarríki, einkaframtak, frjáls viðskipti og hugvit leggja grunninn að verðmætasköpun. Erindi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur einkenndist af bjartsýni.

Hefð er fyrir því að iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarpi Iðnþing og gefi m.a. innsýn í stefnu og verkefni ráðuneytisins. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir kom víða við í erindi sínu og ræddi t.d. um lykilforsendur nýsköpunar:

„Það vill svo til að við vitum hvað þarf til að skapa efnahagsleg verðmæti í frjálsu samfélagi. Það þarf hugvit, það þarf einkaframtak, það þarf réttarríki, og það þarf frjáls viðskipti. Þetta eru þeir þættir sem verða að vera til staðar. Ef einhver þessara lykilþátta er ekki fyrir hendi er einfaldlega útilokað að hjól verðmætasköpunar og hjól atvinnulífsins geti snúist. Við þekkjum hvað þarf til,“ sagði Þórdís. „Með öðrum orðum: Hjól atvinnulífsins eru hjól sem við þurfum ekki að finna upp.“

Þórdís nefndi að hún hefði áður minnst á það á Iðnþingi hvernig óbilandi bjartsýni litaði framtíðarsýn Vesturlandabúa í kringum aldamótin 1900, og var vel lýst í bókinni Veröld sem var eftir Stefan Sweig. „Á þeim tíma trúðu flestir því að fátt annað væri fram undan en ljúfur friður og viðstöðulausar framfarir, sem myndu tryggja öllum gott og sífellt betra líf. Annað kom á daginn. Mannkynið átti í vændum tvær blóðugar heimsstyrjaldir á tiltölulega skömmum tíma,“ sagði hún.

„Inntakið í þessum orðum mínum var spurningin: Liggur kannski eitthvað í loftinu í dag sem mun ógna grundvelli okkar? Eitthvað sem mun höggva að rótum lífsgæða okkar og lífskjara; jafnvel umbylta daglegu lífi okkar? Ýmsar áskoranir samtímans komu til greina sem slík framtíðarógn, til að mynda loftslagsbreytingar og fjórða iðnbyltingin. Ekki ætla ég að standa hér og halda því fram að ég hafi spáð fyrir um heimsfaraldur. Fáum datt í hug að skæð veira væri handan við hornið, sem myndi valda hagkerfum heimsins meira efnahagstjóni en dæmi eru um á síðari áratugum, og setja daglegt líf almennings víðs vegar um heim í algjört uppnám mánuðum saman. Við vonum auðvitað að sú vá gangi yfir á sem skemmstum tíma, en enn þá sér ekki fyrir endann á skaðanum sem hún mun valda eða hvenær hún líður hjá.“

Þórdís minnti á að allar þjóðir eiga fullt í fangi með að ráða niðurlögum þessa nýja vágests og þótt stuðst sé við bestu þekkingu hverju sinni bjóði vísindin ekki upp á afdráttarlaus svör, eða formúlu að hárréttum viðbrögðum. „En það er þó huggun harmi gegn að leiðin til að bæta skaðann og rísa aftur upp, er nákvæmlega sú sama og við höfum talað fyrir áður og verið sammála um. Sú leið er rauði þráðurinn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, hún var inntakið í fyrri ávörpum mínum hér á þessum vettvangi, og hún er ein af grundvallaráherslum Samtaka iðnaðarins og meginumfjöllunarefni okkar hér í dag. Sú leið er að sjálfsögðu nýsköpun.“ ai@mbl.is