Vinnumálastofnun Avinnuleysi er sagt geta náð 12% fyrir árslok.
Vinnumálastofnun Avinnuleysi er sagt geta náð 12% fyrir árslok. — Morgunblaðið/Eggert
293 misstu vinnuna í átta hópuppsögnum í september. Sjö uppsagnanna voru hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Vinnumálastofnun spáir auknu atvinnuleysi, sem gæti orðið um 12%.

293 misstu vinnuna í átta hópuppsögnum í september. Sjö uppsagnanna voru hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Vinnumálastofnun spáir auknu atvinnuleysi, sem gæti orðið um 12%. Í september er áætlað að atvinnuleysi hafi verið tæp 10%, 8,7% í almennu atvinnuleysi og 0,9% á hlutabótaleið. Það eru þó óstaðfestar tölur.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að uppsagnirnar hafi ekki komið á óvart. Aðeins færri misstu vinnuna í hópuppsögnum í ágúst en aðeins fleiri í júlí. Spurð hvort líklegt sé að þróunin verði áfram með þeim hætti að fleiri missi vinnuna segir Unnur:

„Okkar spár gera ráð fyrir því að atvinnuleysi muni stíga fram að áramótum alla vega, að það verði aukið atvinnuleysi með hverjum mánuðinum sem líður.“

Gæti farið upp í 25 þúsund

Unnur segir að atvinnuleysi gæti farið upp í 12% fyrir áramót. Spár Vinnumálastofnunar bentu áður til að 21.000 yrðu atvinnulausir fyrir lok árs en nú segir Unnur að sú tala gæti farið upp í 25.000. Fólk sem er á hlutabótum er þó inni í þessum tölum og getur það skekkt myndina.

Alls bárust fjórar tilkynningar um hópuppsagnir í ágúst, þar sem 284 starfsmönnum var sagt upp störfum. Flestum var sagt upp í tveimur fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu á Suðurnesjum eða 195, 68 í flutningastarfsemi á Suðurlandi og einum í gistiþjónustu á Vesturlandi eða 21. Uppsagnarfrestur þeirra sem sagt var upp í hópuppsögnum ágústmánaðar er í flestum tilvikum einn til þrír mánuðir og kemur uppsögnin því til framkvæmda á tímabilinu október til desember.

8.218 starfsmönnum sagt upp í hópuppsögnum á þessu ári

Fyrstu átta mánuði ársins hefur 8.218 starfsmönnum verið sagt upp störfum í 125 tilkynningum um hópuppsagnir, þar af langflestum í ferðatengdri starfsemi eða u.þ.b. 7.000. Við það bætast þeir 293 starfsmenn sem hefur verið sagt upp í átta hópuppsögnum í september.