Lykilmaður LeBron James skorar fyrir Lakers gegn Denver í úrslitum Vesturdeildarinnar. Nú þarf hann að slást við öflugt lið Miami Heat.
Lykilmaður LeBron James skorar fyrir Lakers gegn Denver í úrslitum Vesturdeildarinnar. Nú þarf hann að slást við öflugt lið Miami Heat. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NBA Gunnar Valgeirsson Los Angeles Loksins, eftir þriggja mánaða stöðvun vegna kórónuveirunnar og sex vikna úrslitakeppni í kúlunni svokölluðu í Flórída, erum við komin í lokaúrslitin. Los Angeles Lakers var annað af tveimur sigurstranglegustu liðunum þegar keppnin hófst, en fáir áttu von á að Miami Heat myndi vinna úrslitakeppnina í Austurdeildinni. Einvígið hófst í nótt og búast má við fjörugri viðureign liðanna.

NBA

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Loksins, eftir þriggja mánaða stöðvun vegna kórónuveirunnar og sex vikna úrslitakeppni í kúlunni svokölluðu í Flórída, erum við komin í lokaúrslitin. Los Angeles Lakers var annað af tveimur sigurstranglegustu liðunum þegar keppnin hófst, en fáir áttu von á að Miami Heat myndi vinna úrslitakeppnina í Austurdeildinni. Einvígið hófst í nótt og búast má við fjörugri viðureign liðanna.

Við fyrstu sýn virðist Lakers-liðið sigurstranglegra, rétt eins og gegn Denver Nuggets í úrslitarimmu Vesturdeildar. Reyndar eru Denver og Miami svipuð lið að mörgu leyti, þannig að það er ekki eins og að Lakers sé að vaða út í óvissuna.

LeBron James á nú gott tækifæri til að vinna fjórða meistaratitilinn og bæta enn við orðstír sinn sem einn af bestu leikmönnum sögunnar.

Varnarleikur lykill Miami

Miami er komið í úrslitin í fyrsta sinn síðan 2014 eftir að hafa slegið út þrjú lið með betri deildarárangur í þessari úrslitakeppni. Heat er lið sem byggir á liðsmenningunni sem Pat Riley, fyrrverandi þjálfari Lakers og forseti Miami nú, leggur áherslu á, þar sem sterk liðsheild er í fyrirrúmi frekar en að byggja á stjörnuleikmönnum.

Það er fyrst og fremst góður varnarleikur Heat sem hefur komið liðinu í úrslitin. Liðið skiptir um varnaraðferð mörgum sinnum í leik og þjálfarar eru ekki hræddir að nota svæðisvörn til að rústa sókn andstæðingsins. „Maður verður að bera virðingu fyrir því hvað þeir hafa gert í þessari úrslitakeppni. Þeir eru rosalega seigir og líkamlegir í varnarleiknum og með gott körfuboltavit. Þeir eiga einfaldlega skilið að vinna Austurdeildina, eins vel og þeir hafa leikið,“ sagði Brad Stevens, þjálfari Boston, á sunnudagskvöld eftir að lið hans var slegið út af Heat í úrslitarimmu Austurdeildar.

Þjálfari Lakers, Frank Vogel, virtist hinsvegar ekki hræddur við varnarleik Miami fyrr í vikunni. „Við erum tilbúnir að skora gegn hvaða vörn sem þeir setja upp. Við þekkjum vel það sem þeir setja upp og erum tilbúnir að eiga við mismunandi varnarskipulag. Á þessum tímapunkti gengur þetta bara út á að treysta strákunum í að vera á réttum stöðum og gera atlögu að körfunni eins og sókn okkar leggur til.“

Þrátt fyrir orð Stevens að ofan, verður Miami enn á ný talið ólíklegt til að vinna þessa úrslitarimmu ef marka má veðbanka hér vestanhafs.

Höfum séð þessa stöðu áður

Lakers hefur áður verið í þessari stöðu í lokaúrslitunum. Árið 2004 var Lakers – með Shaq, Kobe, Karl Malone og Gary Payton innanborðs – að reyna að vinna fjórða meistaratitil sinn í röð, í þetta sinn gegn Detriot Pistons. Skemmst er frá því að segja að sú rimma varð aldrei skemmtileg og Pistons vann auðveldlega 4:1 eftir að hafa tapað fyrsta leiknum. Ég var viðstaddur fyrstu tvo leikina og augljóst var að þrátt fyrir betri einstaklinga var Pistons-liðið betra körfuknattleikslið í þeirri rimmu.

Munurinn í þetta sinn fyrir Lakers er að liðsheildin hjá þessu liði er mun sterkari en hún var 2004, en allt það keppnistímabil var ein sápuópera hjá Lakers þar sem fjórir stjörnuleikmenn gátu á endanum ekki unnið upp liðsheild Detroit. LeBron James hefur algera stjórn á leikmannahópnum í dag og það heyrist ekki minnsta gagnrýni á þeim bænum þessa dagana. Það er enginn að kvarta yfir hversu mikið hann spilar í þetta sinn – allt gengur út á liðsheildina.

Meiriháttar afrek hjá LeBron

Körfuknattleikseðjótar hér vestra deila oft um hverjir séu bestu leikmenn NBA-deildarinnar frá upphafi. Fáir neita því að á toppnum sé Michael Jordan og fyrir neðan hann séu örfáir aðrir sem ekki sé hægt að líta framhjá, svo sem Bill Russell, Wilt Chamberlain, Kareem Abdul-Jabbar og Magic Johnson (meira að segja Kobe Bryant, Hakeem Olajuwon og Larry Bird komast ekki í þennan hóp). Öruggt er þó að LeBron James er nú kominn í hann.

Hann er nú með liði í lokaúrslitunum í níunda sinn á síðustu tíu árum, en hann var meiddur í fyrra. Honum hefur tekist þetta með þremur mismunandi liðum og fimm þjálfurum. Enginn af þeim leikmönnum sem nefndir voru að ofan hefur leikið þetta afrek James eftir.

Í þessu samhengi er vert að geta þess að á keppnisferli Bill Russell hjá Boston Celtics (hann vann tíu titla á ellefu árum) voru þetta 8-14 lið í deildinni og það var ekkert launaþak sem liðin þurftu að eiga við, auk þess sem mjög erfitt var fyrir leikmenn að skipta um lið. Það voru einfaldlega aðrir tímar í deildinni þá og auðveldara fyrir lið að komast í úrslitin ár eftir ár með sterkan leikmannahóp.

Það gerir afrek James merkilegt. Hann hefur einfaldlega verið besti leikmaðurinn í deildinni undanfarinn áratug, hvað svo sem kosningar um leikmann ársins segja.

Lengi að komast yfir reiðina

Þótt hér séu tvö lið á ferðinni verður erfitt að líta framhjá því að James var lykillinn að velgengni Miami 2010 til 2014 þegar liðið komst í lokaúrslitin öll þau árin. Hann yfirgaf liðið með lausan samning 2014 eftir tap gegn San Antonio Spurs í úrslitunum.

Það tók Pat Riley langan tíma að komast yfir reiðina yfir brottför James. „Ég var mjög reiður þegar LeBron yfirgaf okkur til að fara til Cleveland og tók það persónulega. Mig langaði að opinbera reiði mína í fjölmiðlum, en góðum vini mínum tókst að koma í veg fyrir það á síðustu stundu og eftir á var ég glaður að ég gerði það ekki,“ sagði Riley í viðtali 2017. „Ég varð þó að viðurkenna á endanum að hann var að taka ákvörðunina sem var best fyrir hann sjálfan og gera lokatilraun til að vinna titilinn fyrir heimaborgina sína í Cleveland.“

Það verður því eitthvert efni fyrir fréttafólk að narta í í þessari rimmu.

Teigurinn og 3ja stiga línan

Þetta eru tvö ólík lið.

Lakers reiðir sig á tvo stjörnuleikmenn á meðan Heat er með 5-6 leikmenn sem geta gert gæfumuninn í hverjum leik. Varamannabekkur Heat er sterkari, þannig að búast má við að Lakers svari með því að keyra á færri leikmönnum en ella í þessum leikjum, enda engin ástæða til að hvíla leikmenn á þessu stigi.

Miami reiðir sig mikið á þriggja stiga skotin, enda liðið með næstbestu hittnina í þeim á keppnistímabilinu. Þar fara þeir Duncan Robinson, Tyler Herro, Goran Dragic og Jae Crowder fremstir í flokki. Þessir leikmenn hafa skorað að meðaltali nær ellefu þriggja stiga körfur í úrslitakeppninni nú, þannig að varnaraðferð Lakers verður að taka það með í reikninginn.

Robinson og Herro fóru illa með Boston í síðustu umferð og átti gott varnarlið Boston í miklum erfiðleikum með að hemja þessa leikmenn í sóknarleik Heat, sem byggist mikið á hreyfingu leikmanna. Það verður því bara að sjá hvort leikmenn Lakers geti gert betur.

Annars er það leikur naglans Jimmy Butler, sem loksins er búinn að finna rétt lið með rétta liðsandann fyrir hann, og Bam Adebayo sem núna er orðinn stórstjarna eftir leik sinn í kúlunni, sem mun skipta mestu fyrir liðið. Besta tækifæri Miami er að Adebayo haldi Anthony Davis niðri í sókninni hjá Lakers.

Lakers á hinn bóginn er eitt af verstu liðunum í deildinni í þriggja stiga skotum, en á móti kemur að liðið hefur þá LeBron James og Anthony Davis innanborðs. Þeir munu verða lykillinn í sóknarleik Lakers og spurningin er hvort varnarleikur Miami geti stöðvað þá inni í teignum. Það hefur engu liði tekist gegn Lakers það sem af er úrslitakeppninni.

Nái Miami ekki að stöðva þessa tvo kappa Lakers, eða ef einhver þriðji leikmaður Lakers fer einnig í gang (þar lít ég til Kentavious Caldwell-Pope, Rajon Rondo og Kyle Kuzma), verður erfitt að sjá Miami vinna þessa rimmu. Slíkir eru kraftar James og Davis.

Þetta verður því einvígi stórstjarna gegn liðsheildinni og næsta víst er að það verður jafnara en margan grunar.

Lakers tekur þetta í sjö leikjum. Miami er besta liðið sem Lakers hefur mætt í úrslitakeppninni.