Á krana Stilla úr stuttmyndinni Lífið á eyjunni sem sýnd er í leigu RIFF þessa dagana í stuttmyndapakka.
Á krana Stilla úr stuttmyndinni Lífið á eyjunni sem sýnd er í leigu RIFF þessa dagana í stuttmyndapakka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Lífið á eyjunni , Island Living á ensku, nefnist stuttmynd sem frumsýnd var á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, um síðustu helgi og er nú hægt að leigja á vef hátíðarinnar, riff.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Lífið á eyjunni , Island Living á ensku, nefnist stuttmynd sem frumsýnd var á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, um síðustu helgi og er nú hægt að leigja á vef hátíðarinnar, riff.is, á meðan á henni stendur. Leikarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Atli Óskar Fjalarsson framleiddi myndina og skrifaði handrit hennar með Viktori Sigurjónssyni og Apríl Helgudóttur en Viktor leikstýrði henni.

Myndin er 30 mínútur að lengd og fjallar um ungan dreng sem smíðar sér trommusett úr rusli og stofnar hljómsveit með vini sínum en í myndinni má heyra þekkta tónlist frá áttunda og níunda áratugnum því drengurinn finnur gamalt kassettutæki móður sinnar og kemst í tæri við slíka tónlist. Myndinni er ætlað að vekja athygli á málefnum drengja, geðheilsu þeirra, félagslegri einangrun og bágri stöðu í skólakerfinu og vonast höfundar til þess að hún veki umræður um þau mál og leiði til breytinga. Stuttmyndin var unnin í samstarfi við ADHD-samtökin, Geðhjálp, Eitt líf, Öryrkjabandalag Íslands, Olnbogabörnin og Allir gráta.

Tvíræður titill

„Það er pínu tvíræðni í þessu. Þetta er auðvitað eyjan okkar allra, Ísland, en þetta vísar til þess að strákar eru svolítið einir á sinni eigin eyju í lífinu, eru svolítið einangraðir oft. Þetta er lífið á eyjunni, þinni eigin eyju,“ segir Atli um titil myndarinnar. Strákar eigi erfiðara með að opna sig og lesa eigin tilfinningar, tilfinningalæsið sé lélegt hjá þeim.

– Er þá hugmyndin að sýna myndina í skólum?

„Já, við erum náttúrlega bara kvikmyndagerðarmenn og gerðum það sem við gerum best, að búa til kvikmyndir, og hvað sem kemur svo út úr því er svolítið úr okkar höndum. Ég held samt að sýna eigi myndina sem hluta af RIFF í öllum skólum landsins og það er mjög jákvætt,“ svarar Atli. Aðalsögupersónur myndarinnar, drengirnir tveir, verða helteknir af rokki og poppi frá áttunda og níunda áratugnum og segir Atli að í stuttmyndinni sé þroskasaga þeirra sögð að miklu leyti í gegnum þessa tónlist. Drengirnir fara að prófa sig áfram í tónlistarsköpun og setja stefnuna á hæfileikakeppni sem er hápunktur myndarinnar.

Krúttleg vinátta

Atli er spurður að því upp úr hverju þessi saga hafi sprottið, hver hafi átt hugmyndina. „Það var Viktor, leikstjórinn. Hann var staddur í strætó, sá þar tvo drengi og þótti vinátta þeirra svo krúttleg og sæt og langaði að skoða vináttu stráka því hún er svo falleg. Upp úr því spratt þessi hugmynd og við unnum handritið saman og úr varð þessi mynd,“ svarar hann.

Atli segir þá Viktor báða hafa glímt við ADHD í æsku og við skólakerfið sem hafi ekki náð utan um slík börn. Atli og Viktor eru á svipuðum aldri, Atli fæddur árið 1992 og Viktor tveimur árum fyrr. Atli segir þá hafa langað til að gera mynd sem væri gagnrýnin á skólakerfið. „Kerfið var alveg eins og það er í dag. Við erum ennþá í 140 ára gömlu menntakerfi, það hefur ekkert breyst og ég held að hrista þurfi upp í því og gera eitthvað,“ segir Atli.

Útrás fyrir sköpunargleði

– Þú ert lærður leikari, hafði það eitthvað að gera með ADHD að þú valdir það fag?

„Já, ég held að það hafi klárlega verið útrás fyrir sköpunargleðina og þessa orku sem ég var með. Það spilaði klárlega inn í og svo er fullt af fólki sem ég þekki sem var alveg jafnskapandi og jafnmiklir ADHD-pésar sem náðu ekki að finna sinn farveg og beina þessari orku í einhvern skapandi grunn. Það er mjög sorglegt og ég held að hjálpa þurfi þessu fólki við að finna sinn vettvang til að geta tjáð sig,“ svarar Atli.

Atli er ekki hættur að leika þó hann hafi snúið sér í auknum mæli að kvikmyndagerð. Hann leikur í kvikmyndinni Skuggahverfið sem frumsýnd var á RIFF fyrr í vikunni og hægt er að leigja á vef hátíðarinnar, riff.is, líkt og Lífið á eyjunni sem er í stuttmyndapakkanum Íslenskar stuttmyndir II.