[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benný Sif Ísleifsdóttir fæddist á Egilsstöðum en ólst upp á Eskifirði. En þótt Benný tilheyrði stórri fjölskyldu voru sjaldnast allir heima.

Benný Sif Ísleifsdóttir fæddist á Egilsstöðum en ólst upp á Eskifirði. En þótt Benný tilheyrði stórri fjölskyldu voru sjaldnast allir heima. „Pabbi var skipstjóri á togurum, lengst af á Fáskrúðsfirði, og eldri systkini mín tíndust til mennta eitt af öðru þar til að lokum við mamma vorum einar eftir þegar ég var tíu ára. Mínar glöðustu stundir í æsku voru þegar systkini mín komu í jóla- og sumarleyfi og þegar pabbi kom í land, en að sama skapi þótti mér erfitt að kveðja.“

Benný gekk í grunnskóla á Eskifirði „Ég var í fámennum fyrirmyndarbekk sem kennarar slógust um að fá að kenna og ég man enn nafnaromsuna sem lesin var upp úr kladdanum á hverjum morgni. Það situr í mér eins og gömul þula.“

Eins og margir krakkar af fjörðunum fór Benný í Alþýðuskólann á Eiðum og var þar í tvö ár. Þar kunni hún vel við sig og hefði glöð viljað vera lengur en þar var ekki í boði frekara nám og stúdentsprófi lauk hún því frá Menntaskólanum á Egilsstöðum.

„Ég innritaðist í uppeldisfræði við Háskóla Íslands eftir stúdentspróf en hitti ekki á rétta hillu og elti kærastann minn og núverandi eiginmann til Lancaster á Englandi þar sem hann stundaði nám í markaðsfræði. Þar úti lauk ég diplómunámi í Youth and Community Studies.“

Eftir að þau komu frá Englandi bjuggu þau í Reykjavík í nokkur ár en fluttu austur í heimahagana vorið 1995, þá þriggja manna fjölskylda en fljótlega voru dæturnar orðnar fjórar. „Við vorum á Eskifirði í 11 góð ár en fluttum í Kópavog haustið 2006 og skömmu síðar fæddist sonur okkar.

Ég var lengi heimavinnandi, sá um börn og bú. Mig hafði alltaf dreymt um stóra fjölskyldu og gat ekki hugsað mér að börnin væru lengur en hálfan daginn á leikskóla. Meðan við bjuggum á Eskifirði var ég í fjarnámi í hagnýtri íslensku og reyndar einnig í söngnámi.“

Eftir að fjölskyldan flutti suður settist Benný aftur á skólabekk og kláraði bæði grunnnám og meistaranám í þjóðfræði við HÍ. „Þar hitti ég jafn mikið á rétta hillu eins og ég hitti á ranga í uppeldisfræðinni tuttugu árum áður. Þjóðfræðin var eins og réttur maður á réttum stað og við smullum eins og ástfangið par. Lokaritgerðirnar mínar til BA- og MA-prófs fjölluðu um ættarnöfn Íslendinga út frá menningarpólitík og sjálfsmynd.“

Eftir útskrift hefur Benný unnið við skriftir. Hún hefur gefið út tvær barnabækur, Jólasveinarannsóknina og Álfarannsóknina, og tvær sögulegar skáldsögur; Grímu og Hansdætur.“

Fyrsta skáldsaga Bennýjar, Gríma, sem kom út haustið 2018, hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta og nú í ár hreppti hún Hljóðbókaverðlaun Storytel sem besta skáldsagan. Í dag, á afmælisdegi höfundar, kemur svo út önnur skáldsaga Bennýjar, Hansdætur. „Vegna kófsins verður ekki boðið til afmælis- og útgáfuhófs í raunheimum en bókin verður fáanleg hjá Forlaginu í dag á sérstöku tilboðsverði með áritun og heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu en skellt í póst til þeirra sem búa fjær.“

Benný segist engin sérstök afreksmanneskja í frístundum en þau hjónin gangi sér til heilsubótar, oftast ríkishringinn í hverfinu en stundum upp á einhverja hóla og fjöll eða meðfram sjó, enda sakni hún sjávarins. „Við erum iðin við ferðalög, utan landsteina þegar það mátti en enn frekar innanlands. Ég fæ reglulega þéttbýlishroll og flý malbikið en get líka vel ferðast innanhúss þegar mælst er til þess, stoppa þá reglulega, kíki í bók og fæ mér kaffi og súkkulaði.“

Fjölskylda

Eiginmaður Bennýjar er Óskar Garðarsson, f. 9.12. 1968, framkvæmdastjóri Dögunar. Foreldrar hans eru hjónin Dagmar J. Óskarsdóttir útgerðarkona, f. 5.8. 1935, og Garðar Eðvaldsson, skipstjóri og síðar útgerðarmaður, f. 13.6. 1932, d. 17.2. 2010, fyrst búsett á Djúpavogi en á Eskifirði frá 1968.

Börn Bennýjar og Óskars eru: 1) Sóldís Alda, f. 17.7. 1993, viðskiptafræðingur frá HÍ og heimshornaflakkari; 2) Særós Eva, f. 13.6. 1995, viðskiptafræðingur frá Boston University og meistaranemi við St. Gallen; 3) Salný Vala, f. 5.5. 1997, söngnemi við Listaháskóla Íslands. Unnusti hennar er Birgir Stefánsson, f. 6.10. 1995, nemandi við Söngskólann í Reykjavík; 4) Selma Dagmar, f. 29.1. 1999, sálfræðinemi við HÍ. Unnusti hennar er Karl Avram Stenberg, f. 24.5. 1996, lögfræðinemi við HR; 5) Baldvin Ísleifur, f. 7.12. 2006, grunnskólanemi.

Systkini Bennýjar eru Guðný Þorbjörg, f. 1.12. 1955, bókasafnsfræðingur, umsjónarmaður á hjartadeild Landspítala, búsett í Kópavogi; Pétur Hafsteinn, f. 11.3. 1957, verkstjóri hjá ÚA, Laugum; Magnea Björk, f. 11.8. 1960, hjúkrunarfræðingur, búsett í Kópavogi; Sóley Rut, f. 5.12. 1965, þjónustufulltrúi hjá VÍS, búsett í Reykjavík. Hálfsystir, samfeðra: Árdís Björg Ísleifsdóttir, f. 24.8. 1951, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Bennýjar voru hjónin Guðný Magnea Magnúsdóttir, f. 28.8. 1928, d. 24.10. 2016, lengst af heimavinnandi en vann einnig ýmis verslunarstörf og hlutastörf og Guðmundur Ísleifur Gíslason, f. 7.6. 1924, d. 31.10. 1993, skipstjóri. Þau bjuggu á Eskifirði.