Átök Herskráningarstöðvar í báðum ríkjum taka nú við fjölda umsækjenda.
Átök Herskráningarstöðvar í báðum ríkjum taka nú við fjölda umsækjenda. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Stjórnvöld í Armeníu og Aserbaídsjan höfnuðu í gær allri viðleitni til þess að koma á vopnahléi í átökunum um Nagorno-Karabak-hérað, en harðir bardagar voru þar í gær, fjórða daginn í röð.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Stjórnvöld í Armeníu og Aserbaídsjan höfnuðu í gær allri viðleitni til þess að koma á vopnahléi í átökunum um Nagorno-Karabak-hérað, en harðir bardagar voru þar í gær, fjórða daginn í röð.

Rúmlega 100 manns hafa nú látist í átökunum, en hermálayfirvöld beggja ríkja hafa gefið út yfirlýsingar um mikið mannfall í her andstæðingsins, sem ekki hefur verið hægt að staðfesta.

Stjórnvöld í Rússlandi buðust í gær til þess að standa að friðarviðræðum milli ríkjanna tveggja um örlög héraðsins, og hringdi Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í kollega sína í báðum ríkjum til þess að staðfesta það boð. Hvorugt ríkið vildi hins vegar þekkjast það að sinni.

Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjans, hét því til að mynda í gær að her landsins myndi berjast þar til allar hersveitir Armena hefðu yfirgefið Nagorno-Karabak. „Ef ríkisstjórn Armeníu uppfyllir þessar kröfur munu bardagarnir og blóðsúthellingarnar hætta, og friður mun ríkja um heimshlutann,“ sagði Aliyev en hann var að heimsækja særða hermenn á hersjúkrahúsi.

Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, sagði á sama tíma að það væri ekki viðeigandi að tala um friðarviðræður meðan átökin væru sem mest. Í Jerevan, höfuðborg Armeníu, mátti sjá menn í löngum röðum við skráningarstöð hersins, og svipaða sjón mátti sjá í helstu borgum Aserbaídsjan.

Vígamenn frá Sýrlandi komnir?

Áhyggjur hafa vaknað síðustu daga um að átökin um Nagorno-Karabak gætu breitt úr sér, en Tyrkir hafa stutt við bakið á Aserum og hvatt þá til dáða í átökunum. Þeir hafa hins vegar hafnað ásökunum um að þeir hafi sent málaliða til Aserbaídsjan, sem og að tyrknesk orrustuþota hafi grandað armenskri orrustuþotu innan armenskrar lofthelgi á þriðjudaginn.

Utanríkisráðuneyti Rússlands sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu í gær um að vígamenn úr „ólöglegum hópum“ frá Sýrlandi og Líbíu væru komnir á átakasvæðið, og að Rússar hefðu „þungar áhyggjur“ af því. Ráðuneytið lýsti hins vegar ekki yfir hvaða þjóð bæri ábyrgð á því að vígamennirnir væru í héraðinu.