Alþingi Í gær voru allir hliðarsalir þingsins gerðir klárir, en lengra bil þarf að vera á milli þingmanna og gesta við þingsetninguna, sökum sóttvarna. Þingmenn sem ekki sjá púltið geta séð ræðumenn á skjá í hliðarsölunum.
Alþingi Í gær voru allir hliðarsalir þingsins gerðir klárir, en lengra bil þarf að vera á milli þingmanna og gesta við þingsetninguna, sökum sóttvarna. Þingmenn sem ekki sjá púltið geta séð ræðumenn á skjá í hliðarsölunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem Morgunblaðið ræddi við eru sammála um að efnahagsaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins verði stóra málið við upphaf þings, sem sett verður í dag.

Baksvið

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem Morgunblaðið ræddi við eru sammála um að efnahagsaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins verði stóra málið við upphaf þings, sem sett verður í dag. Ágreiningurinn muni þó ekki snúa að því hvort rétt sé fyrir stjórnvöld að grípa til einhverra aðgerða heldur um þær leiðir sem verða farnar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þó síður von á því að efnahagstillögurnar, sem kynntar voru í vikunni, muni mæta mikilli andstöðu og vonast eftir málefnalegri umræðu um málið í þinginu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að stærsta mál næsta þings væri „fjármálaáætlun og skyld mál um stefnumörkun til næstu ára, um það hvernig við beitum ríkisfjármálunum til að takast á við áhrif heimsfaraldursins. Við eigum að setja okkur markmið um að það verði sem sterkara samfélag sem hefur náð lengra á ýmsum sviðum, nota tækifærið og búa okkur undir áskoranir framtíðarinnar með sterkari tækniinnviðum, fjölbreyttara atvinnulífi, betri lausnum í umhverfis- og loftslagsmálum, aukinni samkeppnishæfni og sanngjarnara velferðarkerfi,“ ritar Bjarni.

Katrín segir mikilvægt að reyna að auka umsvif í hagkerfinu til að takast á við það atvinnuleysi sem hér ríkir og að verjast langtímaatvinnuleysi. „Ríkisstjórnin mun auka opinbera fjárfestingu og skapa jákvæða hvata til grænnar atvinnuvegafjárfestingar,“ nefnir Katrín sem dæmi um aðgerðir til að auka umsvif.

Stjórnarskrárbreytingar

Hvað varðar frumvörp á næsta þingi sem VG leggur áherslu á, þá vonast Katrín eftir því að áform um miðhálendisþjóðgarð fái brautargengi. Eins gerir hún sér vonir um breiða sátt um að taka breytingar á stjórnarskrá til afgreiðslu. „Þetta eru ákvæði um auðlindir í þjóðareign. Ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd. Tillögur að breytingum á kaflanum um forseta og framkvæmdavald. Ákvæði um íslenska tungu og táknmál og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og vonandi fleiri ákvæði,“ segir hún.

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar gagnrýndu efnahagsaðgerðirnar sem kynntar voru í fyrradag á þeim forsendum að þær væru sniðnar að atvinnulífinu fremur en almenningi. Katrín telur hagsmuni beggja samofna: „Við kynntum miklar aðgerðir í tengslum við lífskjarasamningana í fyrra upp á 80 milljarða króna á því tímabili. Og það hefur verið mín sýn að þarna fari saman hagsmunir almennings og atvinnulífs. Það eru hagsmunir okkar allra að atvinnuleysi verði ekki viðvarandi í okkar samfélagi. Svo má ekki gleyma því að margar af þeim aðgerðum sem kynntar voru í fyrra og við erum enn að vinna að snúast um að bæta afkomu almennings. Lengra fæðingarorlof, lægri skattbyrði á tekjulágt fólk, aukinn stuðningur við félagslegt húsnæðiskerfi og fleira,“ segir Katrín.

Ríkisstjórn viðbragða

Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, telur að sumar þeirra efnahagstillagna sem lagðar voru fram séu ágætar en þær komi of seint og gangi of skammt. Þá segir hann ríkisstjórnina skorta sýn til framtíðar. Samfylkingin muni leggja fram sínar eigin efnahagstillögur á næstu dögum þar sem m.a. er lögð til hækkun atvinnuleysisbóta. „Það er snöggur blettur á aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það eru 20-30 þúsund manns án atvinnu og við þurfum að tryggja þessu fólki lífsviðurværi,“ segir Logi.

Hann segir að efnahagstillögurnar miði m.a. að því að skapa sem flest störf í einka- og opinbera geiranum. „Það er alveg ljóst að þetta er ríkisstjórn viðbragða. Ríkisstjórn sem reynir að slökkva elda frekar en að byggja mannvirki sem eru eldþolin og standast kröfur tímans,“ segir Logi.

Viðbrögð við hótunum SA

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að efnahagstillögurnar séu „bersýnileg viðbrögð við hótunum Samtaka atvinnulífsins“. Hann telur þær um of í anda gamalla tíma og saknar þess að sjá tillögur um það hvernig tekist verður á við framtíðina. Í því samhengi sé m.a. vert að skoða borgaralaun í baráttu við ójöfnuð.

„Framundan eru miklar loftslagsbreytingar og fjórða iðnbyltingin. Þetta mun hafa varanleg áhrif á það hvernig hagkerfið þróast og breytast í grundvallaratriðum. Við erum ekki með einhverja eina lausn á því en við verðum að horfast í augu við þennan nýja raunveruleika með nýjum hugmyndum,“ segir Helgi.

Örfáum boðið til þingsetningar

Alþingi verður sett í dag, 1. október, og hefst þingsetningarathöfnin kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.

Í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis segir að vegna kórónuveirufaraldursins verði aðeins örfáum gestum boðið til þingsetningarinnar að þessu sinni.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins líkt og hefð gerir ráð fyrir.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða í kvöld kl. 19:30.

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp 2021 og fyrri umræða um fjármálaáætlun verða aðalmál 2. viku þingsins og hefst umræðan mánudaginn 5. október.