Prestsvígsla Guðrún Eggerts Þórudóttir vígsluþegi, Agnes M. Sigurðardóttir og sr. Elínborg Sturludóttir fremst. Fyrir ofan eru sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sr. Sigurður Grétar Helgason og sr. Arnfríður Guðmundsdóttir.
Prestsvígsla Guðrún Eggerts Þórudóttir vígsluþegi, Agnes M. Sigurðardóttir og sr. Elínborg Sturludóttir fremst. Fyrir ofan eru sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sr. Sigurður Grétar Helgason og sr. Arnfríður Guðmundsdóttir. — Ljósmynd/Hreinn S. Hákonarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Konum í prestastétt hefur farið fjölgandi og nú er svo komið að kynjahlutföll eru nánast jöfn. Þetta er athyglisvert þegar haft er í huga að ekki eru liðin nema rétt 46 ár síðan fyrsta konan var vígð til prests.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Konum í prestastétt hefur farið fjölgandi og nú er svo komið að kynjahlutföll eru nánast jöfn. Þetta er athyglisvert þegar haft er í huga að ekki eru liðin nema rétt 46 ár síðan fyrsta konan var vígð til prests.

Fyrst til að hljóta vígslu var séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Hún var vígð til þjónustu á Suðureyri við Súgandafjörð, af Sigurbirni Einarssyni biskupi. Athöfnin fór fram í Dómirkjunni í Reykjavík 29. september 1974 og því voru liðin 46 frá þessum sögulega atburði sl. þriðjudag.

Eins og staðan er í dag eru 75 karlar og 68 konur starfandi sem prestar á vegum Þjóðkirkjunnar, Biskupsstofu. Það eru 52% karlar og 48% konur. Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Ingunni Ólafsdóttur, mannauðsstjóra Þjóðkirkjunnar. Á árunum í kringum 1993-1996 var kynjahlutfallið 60/40, þ.e. karlar um 60% og konur um 40%, svo konur hafa verið að sækja á undanfarna áratugi. Til prestastéttarinnar teljast sóknarprestar, prestar, héraðsprestar, prestar erlendis, sérþjónustuprestar (t.d. prestur heyrnleysingja, prestur innflytjenda, fangaprestur og prestur fatlaðra) og sjúkrahúsprestar.

Fleiri konur hafa vígst

Um það bil sex einstaklingar vígjast til prests á ári ef meðaltal er tekið frá árunum 2013-2019. Á þeim tíma hafa 21 karlmaður og 28 konur vígst, upplýsir Ingunn.

Það sem af er árinu 2020 hefur verið ráðið í 14 störf presta hjá Þjóðkirkjunni. Ráðningu hafa hlotið níu konur og fimm karlar.

Fyrsta konan sem vígðist var Auður Eir árið 1974. Næst vígðust fjórar konur árið 1981, Dalla Þórðardóttir, dóttir Auðar, Agnes M. Sigurðardóttir, Hanna María Pétursdóttir, Miyako Þórðarson (í þessari röð), svo 1983 ein kona, Sólveig Lára Guðmundsdóttir, 1985 ein kona, Helga Soffía Konráðsdóttir. Næst árið 1987, Arnfríður Guðmundsdóttir, Hulda Hrönn M. Helgadóttir og Yrsa Þórðardóttir. Eftir það hafa konur verið vígðar árlega. Kona númer 100 var vígð 22. september 2019, Aldís Rut Gísladóttir. Kona númer 104 var vígð síðstliðinn sunnudag, Guðrún Eggerts Þórudóttir, til prestsþjónustu í Ólafsfjarðarprestakalli.

Það var Geirþrúður Hildur Bernhöft sem fyrst kvenna lauk prófi frá guðfræðideild Háslóla Íslands, eða árið 1945. Hún sótti aldrei um brauð eða tók vígslu heldur starfaði lengi sem ellimálafulltrúi Reykjavíkurborgar. Síðan liðu 18 ár uns næsta kona útskrifaðist, Auður Eir.

Eins og gefur að skilja var mikið fjallað um það í blöðunum haustið 1974, þegar Auður Eir var vígð til prestsstarfa. Morgunblaðið fjallaði um málið á heilli opnu á sjálfan vígsludaginn, 29. september, og leitaði álits nokkurra einstaklinga, bæði vígðra og leikmanna. Flestir viðmælenda blaðsins lýstu yfir ánægju með að konur tækju pretsvígslu en þrír prestar voru því mótfallnir og vísuðu til guðfræðilegra raka.

Málið kom til afgreiðslu í stjórn Prestafélags Íslands þar sem fjórir af fimm stjórnarmönnum lýstu sig samþykka því að biskup veitti konum vígslu. Jafnrétti kynjanna og íslensk löggjöf gerði andstöðu óraunhæfa.

Morgunblaðið ræddi einnig við dr. Þóri Kr. Þórðarson, prófessor í guðfræði, sem sagði að áhugi stúlkna á guðfræðinámi væri heldur lítill. Þess hefði ekki orðið vart að hann færi vaxandi eins og reyndin væri á Norðurlöndum. Þetta átti heldur betur eftir að breytast.

Sjö námsleiðir í boði

Nemendur í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands eru um 70 talsins og kynjaskipting jöfn, samkvæmt upplýsingum sem blaðið fékk hjá Ásdísi Guðmundsdóttur deildarstjóra.Við deildina eru 7 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi og námið fjölbreytt.

Þeir sem læra til prests ljúka fimm ára námi alls. Þriggja ára 180e BA-námi í guðfræði og 120e tveggja ára námi á meistarastigi, sem líkur með mag. theol.-prófi. Á árinu 2020 hafa átta kandidatar lokið mag.theol.-námi, 4 konur og 4 karlar.

Fyrir 10 árum var kynjaskipting sú að konur voru um 60% nemenda í deildinni en karlar um 40%. Hélst það hlutfall fram til um 2015 en síðan hefur kynjaskiptingin jafnast.

Prestar ráðnir 2020
» Ólafsfjörður, Guðrún Eggerts Þórudóttir.
» Húsavíkurprestakall, Sólveig Halla Kristjánsdóttir.
» Breiðabólstaður, Sigríður Kristín Helgadóttir.
» Stafholt, Anna Eríksdóttir.
» Kaupmannahöfn, Sigfús Kristjánsson.
» Héraðsprestur Reykjavík, Jón Ásgeir Sigurvinsson.
» Laugalandsprestakall, Jóhanna Gísladóttir.
» Selfossprestakall, Gunnar Jóhannesson.
» Akranes, Jónína Ólafsdóttir og Þóra Björg Sigurðardóttir.
» Þorlákshöfn, Sigríður Munda Jónsdóttir.
» Glerárprestakall Akureyri, Sindri Geir Óskarsson.
» Eyrarbakkaprestakall, Arnaldur Bárðason.
» Fangaprestur, Sigrún Óskarsdóttir.