Íslenska knattspyrnusumarið hefur verið ansi sérkennilegt, þökk sé kórónuveirufaraldrinum sem skaut upp kollinum í Evrópu stuttu eftir áramót.
Íslenska knattspyrnusumarið hefur verið ansi sérkennilegt, þökk sé kórónuveirufaraldrinum sem skaut upp kollinum í Evrópu stuttu eftir áramót. Tímabilið klárast vonandi í nóvember, sem betur fer, enda handboltinn nú þegar byrjaður og körfuboltinn hefst í dag. Það er því ágætis álag að vera íþróttafréttamaður þessa dagana.

Að vera íþróttafréttamaður er vandmeðfarið starf. Sjálfur er ég nokkuð opinn og á auðvelt með að tala við fólk, án þess þó að vera gjörsamlega óþolandi, vona ég. Frá því að ég hóf störf á 433.is árið 2014 að mig minnir hef ég tekið ógrynni af viðtölum við fólk úr öllum íþróttum. Þótt íþróttirnar séu margar og fólkið misjafnt er íþróttaheimurinn á Íslandi ekki svo stór ef við miðum við hinn stóra heim.

Þú ert mikið að tala við sama fólkið, aftur og aftur, og það eru góðar líkur á því að þið hittist reglulega á förnum vegi. Ef ekki þá hittist þið allavega eftir næsta leik en sjálfur hef ég reynt að halda ákveðinni fjarlægð við „viðfangsefni“ mín í gegnum tíðina. Ég átta mig t.d. ekki alveg á því hvernig maður á að geta horft gagnrýnum augum á einhvern fótboltaleik ef félagi manns er að þjálfa annað liðið.

Að eiga æskuvin í íslenska landsliðinu getur líka verið erfitt og þá sérstaklega að draga línuna á milli vinskapar og blaðamennskunnar. Ég get til dæmis ímyndað mér að hann hafi ekki verið neitt sérstaklega sáttur með mig þegar ég tók skjáskot af nýjustu meiðslavandræðum hans fyrir nokkrum árum. Hann eyddi mér af Snapchat í stutta stund en mér til varnar þá lærði ég af mistökunum og hef ekki tekið skjáskot á samfélagsmiðlinum síðan.