Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Samkvæmt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) verður heimilt að veiða meira af norsk-íslenskri síld á næsta ári en samkvæmt ráðgjöf þessa árs.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Samkvæmt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) verður heimilt að veiða meira af norsk-íslenskri síld á næsta ári en samkvæmt ráðgjöf þessa árs. Hins vegar hljóðar ráðgjöfin upp á samdrátt í veiðum á makríl og kolmunna miðað við ráðgjöf þessa árs.

Ekki er í gildi heildarsamkomulag um stjórnun veiða úr þessum stofnum og hver þjóð hefur sett sér aflamark. Veiðar úr stofnunum hafa verið umfram ráðgjöf síðustu ár.

Góður síldarárgangur

Síðustu ár hafa vonir verið bundnar við árgang norsk-íslensku síldarinnar frá 2016. Hann hefur staðist væntingar og jafnvel rúmlega það og er gert ráð fyrir að hann komi af þunga inn í veiðina á næsta ári.

ICES leggur til að síldaraflinn 2021 verði ekki meiri en 651 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 526 þúsund tonn og er því um að ræða 24% hækkun í tillögum ráðsins um afla á norsk íslenskri síld á næsta ári. Áætlað er að alls verði síldaraflinn í ár um 694 þúsund tonn sem er 32% umfram ráðgjöf. Frá árinu 2013 hafa veiðar umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins numið 4-42% á ári.

Endurmat í makríl

Í makríl leggur ICES til að afli fari ekki yfir 852 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 922 þúsund tonn og því er um að ræða tæplega 8% lægri ráðgjöf nú. Það skýrist af bæði minnkandi hrygningarstofni og lægra mati á honum nú en á síðasta ári. Lækkun á ráðgjöf hefði orðið meiri ef ekki hefði komið til endurmat og hækkun á veiðihlutfalli viðmiðunarmarka sem ráðgjöfin byggist á, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun. Áætlað er að alls verði makrílafli ársins tæplega 1,1 milljón tonn sem er 18% umfram ráðgjöf.

Rifjað er upp í ástandsskýrslu um makríl, sem fylgir frétt um ráðgjöfina, að hann hafi gengið á Íslandsmið í fæðuleit yfir sumarmánuðina í meira en áratug. Niðurstöður rannsókna bendi til minnkandi magns makríls innan íslenskrar lögsögu frá árinu 2018. Ástæður þess eru ekki þekktar, segir í skýrslunni.

Minnkandi kolmunnastofn

ICES leggur til að kolmunnaafli 2021 fari ekki yfir 929 þúsund tonn. Ráðgjöf þessa árs var 1,2 milljón tonn og er því um að ræða 20% lækkun á ráðgjöf. Áætlað er að alls verði kolmunnaafli ársins tæplega 1,5 milljón tonn sem er 27% umfram ráðgjöf.

Í ástandsskýrslu um kolmunna segir m.a. um horfurnar: „Nýliðun hefur verið lág undanfarin fjögur ár og er það í samræmi við niðurstöður úr rannsóknaleiðöngrum. Eins er óvissa í mati á nýliðun meiri í ár en undanfarin ár. Stofninn mun því líklega minnka næstu árin og að sama skapi mun aflamark lækka á komandi árum.“