Grímuskylda Í Hamrahlíðinni mæta nemendur nú hálfan daginn.
Grímuskylda Í Hamrahlíðinni mæta nemendur nú hálfan daginn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Starf í framhaldsskólum er nú með óvenjulegu móti. Námsráðgjafar í MH hvetja krakkana með ráðum og dáð. Til framtíðar litið mun skólastarf breytast eftir reynsluna nú.

Að fara á fætur og klæða sig á morgnana og nýta tímann milli átta og 16 eins og í hefðbundnum skóla væri gott. Ekki nota rúmið sem vinnuaðstöðu og nauðsynlegt er að mæta vel í tíma, hvort sem þeir fara fram í gegnum tölvu eða með hefðbundnum hætti í skólahúsi. – Ábendingar námsráðgjafa Menntaskólans við Hamrahlíð eru meðal annars þessar. Vegna smitvarna og kórónuveirunnar hefur hluti náms nemenda farið fram utan skólans og við þær aðstæður þarf að huga að ýmsu óvenjulegu.

Um 1.100 nemendur eru við skólann, og samkvæmt því fyrirkomulagi mæta þeir í skólann fyrir hádegi aðra vikuna og síðdegis hina og það sem út af stendur er kennt í gegnum netið. Skólahúsinu er skipt upp í fimm 200 manna sóttvarnahólf og í kennslustundum eru allir með grímu fyrir vitum.

Gengur ótrúlega vel

„Þrátt fyrir að aðstæðurnar séu óvenjulegar gengur skólastarfið vel,“ segir Fríður Reynisdóttir, náms- og starfsráðgjafi við MH. „Eðlilega finnst krökkunum þetta þó erfitt, sérstaklega nemendum á 1. ári við skólann. Við höfum því fylgst sérstaklega með þeim hópi, leiðbeint þeim og hvatt áfram. Hringt í alla sem eru að byrja í skólanum og sagt að við starfsfólk skólans séum til staðar og viljum hjálpa. Sú endurgjöf er mikilvæg. Sérstaklega gildir það um nemendur sem eru að koma inn í alveg nýtt umhverfi þar sem þau þekkja kannski ekki hvers vænst er af þeim. Það er alltaf átak að byrja í nýjum skóla og vinna með fólki sem maður þekkir ekki fyrir.“

Íþróttakennsla í MH er nú öll í útitímum. Framan af haustönninni áttu nemendur sjálfir að sinna íþróttunum og skila kennurum sínum til staðfestingar myndum eða öðrum stafrænum göngum sem staðfestu að þeir hefðu stundað hreyfingu, rétt eins og námsráðgjafarnir hafa hvatt til í orðsendingum.

Einangri sig ekki

„Þegar faraldurinn er að baki er margt úr stafrænni kennslu sem mun nýtast til framtíðar. Skólastarf þar sem nemendur mæta og eru í samfélagi við aðra er þó hið eðlilega og verður áfram,“ segir Fríður, sem í ráðleggingum sínum til nemenda leggur áherslu á gott skipulag. „Einnig að nemendur haldi góðu sambandi við vini sína, einangri sig ekki og reyni eftir megni að halda rútínu í daglegu lífi,“ segir Fríður. sbs@mbl.is