Á Boðnarmiði tekur Guðmundur Arnfinnsson Halldór Benjamín upp í beinni: Í kjaradeilu menn kýta og þrátta, klókindum beita og leita sátta, og loks verða allir með samning sáttir, því „samtalið gengur í báðar áttir“.

Á Boðnarmiði tekur Guðmundur Arnfinnsson Halldór Benjamín upp í beinni:

Í kjaradeilu menn kýta og þrátta,

klókindum beita og leita sátta,

og loks verða allir með samning sáttir,

því „samtalið gengur í báðar áttir“.

Guðmundur Stefánsson sagði á sunnudag, að hann hefði í gær heyrt vísu, sem er að verða 100 ára: „Strákarnir í Smjördalahverfinu í gamla Sandvíkurhreppi höfðu gaman af því að setja saman vísur. Slátrað var kú á einum bænum og strákarnir eða einhver þeirra orti“:

Hún er sofnuð síðsta blund,

sú má vera fegin.

Er nú dregin út á grund,

afhausuð og flegin.

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason hélt áfram: „Einhverju sinni þurfti ég að aðstoða föðurbróður minn við að aflífa kú og koma henni út úr fjósinu. Til þess var notaður kaðall um háls og hún svo dregin út eftir að ég skaut hana.

Smá efasemdir voru af hálfu míns varkára frænda hvort skepnan væri örugglega dauð og vísan ort til að sannfæra hann um að svo væri“:

Kýrin var að kröftum þrotin

kálfi bar en síðan dó

því hún var bæði hengd og skotin.

Það hálfa væri reyndar nóg.

Guðmundur Þorsteinsson bætti við: „Eftir heimsókn Gunnars Gauta“:

Oss þó gangi margt í mót

mun ég lítið sorgum flíka.

Gunnar mætti með sitt dót, –

málið dautt, og kýrin líka.

Dagbjartur Dagbjartsson hefur sögu að segja: „Flaut upp í kollinum á mér vísa sem aldraður frændi minn og nágranni um hríð orti um það leyti sem verið var að byrja niðurskurð í landbúnaði“:

Það væri gaman og gott að farga

gjörvöllu bændastóðinu.

Kostar lítið. Kætir marga.

- Kratar hræra í blóðinu.

Jón Atli Játvarðarson segir: „Bændur hafa endalausan tíma til að bíða eftir lausnum að ofan. Meðan beðið er má svo vel tína til smáatriði, t.d. í heimaslátrun að hætti Sveins Margeirssonar“:

Bóndans raunum best að gleyma,

basl við strengdan hupp.

Slöppum sauðum slátrað heima

og slögum rúllað upp.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is