[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sighvatur Bjarnason sighvaturb@mbl.is Um 36 þúsund Íslendingar eru meðlimir í facebookhópnum „Verslað á netinu“.

Baksvið

Sighvatur Bjarnason

sighvaturb@mbl.is

Um 36 þúsund Íslendingar eru meðlimir í facebookhópnum „Verslað á netinu“. Hópurinn er sá stærsti en alls ekki sá eini sinnar tegundar og er til marks um líflega netverslun þeirra sem panta vörur sínar að utan.

Blaðamaður ræddi við Önnu Björk Kristinsdóttur, sem hefur verið annar af tveimur stjórnendum síðunnar síðastliðinn áratug og hefur því góða innsýn í þennan anga verslunar.

Hún segir það ekkert nýmæli að fólk panti vörur frá erlendum netsíðum, en það hafi tekið mikinn kipp fyrir 4-5 árum þegar margar af stóru vefverslununum tóku að opna fyrir sendingar til Íslands. Samfara því hafi fjölgað mjög í facebookhópnum, en margir reiða sig á aðstoð annarra við að stíga sín fyrstu skref.

Lifandi samfélag netverja

Anna segir að að mörgu sé að hyggja við slík kaup. Tollar og innflutningsgjöld geti verið mjög mismunandi eftir því hvaða hlutir eru keyptir og hvaðan og alls ekki víst að öll kaup borgi sig. Einnig séu margir hræddir við að láta svindla á sér, sem Anna segir ólíklegt að gerist þegar verslað er við þekkt merki og vöruhús. Þó verði alltaf að hafa í huga að ekki sé allt gull sem glóir og því nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga er grunur vaknar.

Við skoðun á facebooksíðunni virðist sem félagslegi þátturinn sé snar þáttur í upplifun kaupenda. Fólk deilir upplýsingum, gefur meðmæli og birtir jafnvel myndir af því sem það hefur keypt og kennir þar margra grasa, allt frá smæstu hlutum upp í heilu innréttingar húsa. Margir hlutir virðast einnig fara í endursölu á ýmsum netsíðum.

Fá sent heim og senda aftur út

Spurð um áhættuna við að panta t.d. fatnað og skó sem ekki passi segir Anna að stærri netverslanir bjóði í auknum mæli ókeypis endursendingu og fulla endurgreiðslu ef varan hentar ekki. Þannig sé ekkert því til fyrirstöðu að panta t.d. sama skóparið í þremur stærðum og endursenda eftir mátun heima hjá sér.

Blaðamaður skoðaði heimasíðu hjá þekktri netverslun í Bretlandi þar sem skýrt kemur fram að passi skórnir ekki sé auðveldlega hægt að skila þeim án endurgjalds og fá peningana til baka. Ferlinu er lýst nákvæmlega og límmiðar fylgja með til að merkja vöruna. Eina sem virðist þurfa er að afhenda pakkann á næsta pósthúsi.

Anna er fljót til svars þegar hún er spurð um aðalhvatann við þessa tegund verslunar og segir að þægindin ráði þar mestu. Að þurfa ekki að „arka um í verslunarmiðstöðvum“ sé nóg til að velja þessa leið, en að auki komi úrval og verð einnig við sögu og geti vegið þungt.

Lýsingar á þessari líflegu netverslun vekja margar spurningar t.d. um vistspor vörunnar: um varanlegar breytingar á kauphegðun landans og dulið hagkerfi endursölu á ýmsum netmiðlum. Einnig vakna spurningar um hugverkarétt hönnunarvöru, sem mjög hefur átt undir högg að sækja og virðist auðvelt að komast hjá.

Gerðardómstóll netsala

Blaðamaður ræddi við karlmann á miðjum aldri sem keypti veggljós af Aliexpress og borgaði fyrir það 150 bandaríkjadali ásamt 50 fyrir hraða sendingu. Um er að ræða merkjavöru sem að hans sögn kostar 150 þúsund krónur úr búð hér heima. Til að tryggja að varan „rynni greiðlega gegnum tollinn“ bað hann um að varan yrði CE-merkt og fékk þau svör að „það væri ekkert mál“. Varan barst á tilsettum tíma en þrátt fyrir að virkni og útlit væru í lagi voru mál lampans ekki eins og auglýst var. Maðurinn lagði því inn kvörtun til undirseljanda Aliexpress. Nokkurt tafs var í þeirra samskiptum þar sem m.a. voru boðnir 12 dollarar í skaðabætur, ellegar að varan yrði endursend til Kína, sem virtist nokkuð flókið ferli. Brá maðurinn á það ráð að opna formlega kvörtun (e. open dispute) hjá Aliexpress, sem þá tekur formlega við sem einskonar gerðardómstóll á milli aðila. Úrskurðurinn var þessi: 60 dollarar yrðu gefnir í afslátt eða að söluaðilinn tæki við vörunni aftur og endurgreiddi að fullu. Eftir nokkra umhugsun brá maðurinn á það ráð að setja fram móttilboð upp á 70 dollara í afslátt. Það tilboð var samþykkt og eftir stóð maðurinn með lampann í höndunum fyrir 130 dollara, eða 18 þúsund krónur. Þar sem varan hentaði ekki fullkomlega seldi maðurinn lampann síðar á innlendri vefsíðu fyrir 38 þúsund krónur.