Það má horfa á nýliðnar kappræður úr mörgum áttum og velja sigurvegara að smekk

Fyrsta sjónvarpseinvígi Trumps forseta og Bidens fv. varaforseta vegna kosninganna eftir rétt rúmar fjórar vikur er yfirstaðið.

Það er hluti af kosningabaráttunni að gera upp hver „vann“ skylmingarnar á skerminum. Þar er þó enga eina algilda niðurstöðu að hafa. En þegar þær sjónvarpsstöðvar sem hafa gagnrýnislaust stutt baráttu demókrata við að ógilda niðurstöðu kjósenda og ýta honum úr embætti segja að „hvorugur hafi unnið, en bandaríska þjóðin hafi tapað“ og má Trump sennilega vel við una. Könnun gerð fyrir CNN að útsendingu lokinni var þó með þá eindregnu niðurstöðu að 60% áhorfenda segðu Biden hafa unnið en 40% Trump. Kannanir voru þó ekki allar á sömu lund og í samantekt úr fjölmörgum könnunum um miðjan dag í gær kom fram að um 1% fleiri væru á því að Trump hefði unnið Biden. Það mundi sennilega teljast vel innan skekkjumarka ef rétt reyndist.

En það eru fleiri kostir til að meta „úrslit“ þessa sjónvarpsslags. Demókratar hafa falið Biden niðri í kjallara í marga mánuði með vísun til kórónuveirunnar. En á sama tíma hefur Trump boðað til fjölda funda sem tugir þúsunda hafa sótt. Það væri ekki að undra þótt einhverjir andastæðingar forsetans hefðu grátið það þurrum tárum ef hin mikla óvarkárni sem forsetinn er sakaður um að hafa sýnt með fjöldafundunum hefði leitt til þess að vírusinn hefði í kjölfarið farið eins og logi yfir akur kjósenda forsetans. En svo merkilegt sem það kann að þykja þá hefur ekki borið á neinu slíku. En á meðan Biden hefur kúrt í kjallaranum hafa stuðningsmenn og áróðursliðar Trumps komið því rækilega á framfæri hvers vegna þetta sé gert. Þeir halda því fram að Biden frambjóðandi hafi óþægilega lengi verið „fjarri því að ganga á öllum“. Og það eru vissulega til óþægilega margar sjónvarpsupptökur af honum sem benda rækilega í þá átt. Og andstæðingar Bidens draga ekki af sér við að benda á að sá annmarki sem sé farinn að há honum svo stórlega sé ótvírætt merki um ástand sem því miður getur einungis hafa farið versnandi með hverjum mánuði sem líður.

En þá hljóta menn að spyrja: Hvernig birtist þessi annmarki í þessu liðna einvígi? Og fyrsta svarið við því hlýtur að vera að hafi repúblikanar vænst hryðju sjálfsmarka Joes Bidens í þessum kappræðum, af fyrrgreindum ástæðum, þá hafi þeim ekki orðið að ósk sinni. Ekkert sérstakt benti til þess að hann væri ekki viss um hvar hann væri staddur og af hvaða tilefni, sem stundum hefur virst vera vandamál.

Engin alvarleg mismæli, sem hægt væri að hengja marga stóra hatta á og skella svo inn í sjónvarpsauglýsingar á bestu tímum, duttu út úr Biden. Að því leyti hefur einvígið örugglega verið nokkur vonbrigði fyrir þá sem væntu sannindamerkja í þessum efnum. Og þótt enn sé ekki öll von úti um slíkt góðgæti, þar sem tvö einvígi eru enn eftir, hefði lengst mátt japla á óförum úr fyrsta einvíginu. Repúblikanar meta niðurstöðu kappræðunnar þannig að Trump hafi haft nauman sigur líkt og fram kom í fyrrgreindri samantekt.

Og repúblikanar, sem hljóta að viðurkenna að þeir fengu ekki stóra vinning um elliglöp Bidens út úr þessari kappræðu, benda hver öðrum á annað. Joe Biden hefur um langa hríð haft verulegt forskot á Trump í skoðanakönnunum þegar spurt er um hvað menn ætli sér að kjósa, mælt á landsvísu. Þótt aðeins hafi dregið saman með keppendunum eftir því sem kjördagur nálgast hefur einnig hægt á þeirri þróun og munurinn virðist enn nokkuð fastur í 5-7%. Huggun repúblikana felst í þeirri staðreynd, svo merkilega sem það hljómar. Langflestir sem fylgjast með kappræðunum og eru spurðir um sigurvegara í þeim hafa þegar gert upp hug sinn til þessara tveggja manna. Niðurstaðan í könnun um kappræðuna hefði því langlíklegast átt að lenda á bilinu 53-55 með Biden og 45-47 með Trump. Sé það rétt reiknað að vegin niðurstaða allra kannana um það hvor hafði betur í kappræðunni sé 49,5 Biden og 50,5 Trump þá væru það af þessum ástæðum ekki afleitar fréttir fyrir forsetann. En svo fara slíkir útreikningar og niðurstöður vitaskuld eftir því hverjir eru spurðir, hvaða kannanir eru þar teknar með og hverjum er sleppt.

En sú ályktun, að kappræðurnar nú hafi ekki breytt miklu um stöðuna í baráttunni, hlýtur einnig að koma til álita. Og þar sem Trump hefur verið þetta mikið undir eru það heldur ekki nógu góð tíðindi fyrir hann.