[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Freyr Bjarnason Viðar Guðjónsson Guðni Einarsson Hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í gær, en 87 ný smit greindust við skimun í fyrradag.

Freyr Bjarnason

Viðar Guðjónsson

Guðni Einarsson

Hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í gær, en 87 ný smit greindust við skimun í fyrradag. Tuttugu sjúklingar lágu í gær á Landspítalanum og 795 sjúklingar voru undir eftirliti göngudeildar Covid-19. Fjórir eru nú á gjörgæslu, þar af þrír í öndunarvél.

Landspítalinn er nú á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins greindist smit hjá lækni á bráðamóttökunni á mánudaginn, og fóru 27 starfsmenn spítalans í sóttkví í kjölfarið. Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á spítalanum, sagði í samtali við mbl.is í gær að hugsanlega þyrfti að biðja aðra starfsmenn deildarinnar að bæta við sig vöktum, en hingað til hefði tekist að halda fullri starfsemi þar.

Alls eru 37 starfsmenn Landspítalans í einangrun og 72 í sóttkví. Viðbragðsáætlun spítalans vegna farsótta hefur því verið virkjuð, en í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd spítalans í gær kom fram að þau fundi nú daglega vegna ástandsins.

Mikil áhrif á snyrtifræðinga

Í auglýsingu heilbrigðisráðherra um hinar hertu aðgerðir var sérstaklega tekið fram að þjónusta sem krefðist snertingar eða mikillar nándar væri nú óheimil. Þar á meðal er starfsemi snyrtifræðinga, sem horfa nú fram á tekjutap.

„Þetta er eitthvað sem þarf að gera til að binda enda á smitið. Þetta hefur mikil áhrif á tekjur okkar því við erum svo margar einyrkjar,“ sagði Birna Ósk Þórisdóttir, formaður Félags íslenskra snyrtifræðinga. Skráðir félagsmenn eru um 160 talsins. Einungis konur eru í félaginu og reka margar þeirra litlar snyrtistofur. Einnig hefur lokunin áhrif á stóru snyrtistofurnar.

„Ég er einyrki og þarf að loka stofunni minni í tvær vikur. Það þýðir að ég fæ engar tekjur en þarf samt að borga húsaleigu og annan fastan kostnað,“ sagði Birna Ósk. Hún sagði að hlutabótaleiðin sé virk til áramóta þannig að snyrtifræðingar hljóti að fá einhverjar bætur.

„Við fengum eiginlega ekki neinn fyrirvara en við verðum að sýna þessu skilning,“ sagði Birna Ósk. Hún hafði strax samband við viðskiptavini sem áttu bókaða tíma í snyrtingu og frestaði þeim um tvær vikur með fyrirvara um að létt verði á takmörkununum þá.

Um 600 í skimun í dag

Um 600 börn og starfsmenn úr Sunnulækjaskóla verða send í skimun hjá Heilsugæslunni á Selfossi í dag. Aðstaða til skimunar var sett upp í íþróttasal skólans, en gert er ráð fyrir að skimunin muni taka mestallan daginn.

Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmalæknir sóttvarna á Suðurlandi, sagði í samtali við mbl.is í gær að ekki hafi verið sótt í þekkingu fólks úr Reykjavík áður en aðstaðan var sett upp, en eins og fram hefur komið fara fjöldaskimanir fram á hverjum degi við Suðurlandsbraut.

Fyrir skömmu voru einnig skimuð um 80 börn á Höfn í Hornafirði. „Þetta kemur upp af og til og við megum búast við því áfram á meðan þessi faraldur geisar,“ segir Elín.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er ekki með aðstöðu til innlagnar sjúklinga á sjúkrahúsinu, en slík aðstaða er einungis til staðar í Reykjavík og á Akureyri. „Aðrar stofnanir geta ekki lagt inn Covid-smitað fólk vegna hættu á því að aðrir sjúklingar myndu smitast,“ segir Elín.

Segjast sátt við sóttvarnir

Oddviti Kjósarhrepps gerir engar athugasemdir við að hertar sóttvarnaráðstafanir yfirvalda á höfuðborgarsvæðinu nái til hreppsins. „Við erum sátt við að tekið sé fast á þessum málum,“ segir Karl Magnús Kristjánsson oddviti.

Karl bendir á að Kjósarhreppur sé aðili að Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. „Auðvitað er það svo að það fólk sem býr hér í sveitinni sækir mikla þjónustu suður í Mosfellsbæ. Allmargir sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Börnin okkar sækja skóla á Kjalarnesi sem tilheyrir Reykjavík. Við sjáum enga ástæðu til að við ættum að vera undanþegin þessum sérstöku ráðstöfunum,“ segir hann.