Tilbúnir Alfreð Finnbogason, Albert Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson á æfingu landsliðsins í gær. Alfreð, Aron og Kolbeinn geta leikið sinn fyrsta landsleik á árinu.
Tilbúnir Alfreð Finnbogason, Albert Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson á æfingu landsliðsins í gær. Alfreð, Aron og Kolbeinn geta leikið sinn fyrsta landsleik á árinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2021 Víðir Sigurðsson Bjarni Helgason Leikurinn sem beðið hefur verið eftir frá 22. nóvember 2019 fer loksins fram á Laugardalsvellinum í kvöld. Rúmenar, sem áttu að mæta Íslendingum í umspilsleiknum mikilvæga á þjóðarleikvanginum 26. mars, eru mættir til landsins og hinn þekkti dómari Damir Skomina frá Slóveníu mun flauta til leiks klukkan 18.45.

EM 2021

Víðir Sigurðsson

Bjarni Helgason

Leikurinn sem beðið hefur verið eftir frá 22. nóvember 2019 fer loksins fram á Laugardalsvellinum í kvöld. Rúmenar, sem áttu að mæta Íslendingum í umspilsleiknum mikilvæga á þjóðarleikvanginum 26. mars, eru mættir til landsins og hinn þekkti dómari Damir Skomina frá Slóveníu mun flauta til leiks klukkan 18.45.

Skomina dæmdi einmitt leikinn fræga í Nice í júní 2016 þegar Ísland lagði England að velli í 16-liða úrslitum EM og líka úrslitaleik Liverpool og Tottenham í Meistaradeild Evrópu vorið 2019.

Þetta er óvenjulegur leikur í undankeppni þar sem nú verður leikið til þrautar. Jafntefli er ekki inni í myndinni þannig að gripið verður til framlengingar ef með þarf, og síðan til vítaspyrnukeppni ef staðan yrði enn jöfn eftir 120 mínútur. Í húfi er ferðalag til Búlgaríu eða Ungverjalands eftir fimm vikur, í hreinan úrslitaleik um sæti á „EM alls staðar“.

Fyrirkomulagið er útskýrt nánar í greininni hér til hliðar.

Þjóðadeildin hjálpaði

Til upprifjunar þá er þetta umspil þannig tilkomið að vegna frábærs árangurs íslenska liðsins í undankeppni EM 2016 og undankeppni HM 2018 var það meðal þeirra tólf liða sem voru í fyrstu A-deild Þjóðadeildar UEFA þegar henni var hleypt af stokkunum haustið 2018.

Þátttaka í A-deildinni gulltryggði svo Íslandi sæti í umspilinu, eftir að liðið náði ekki að tryggja sér EM-sæti á hefðbundinn hátt í undankeppninni á síðasta ári.

Miklar væntingar í Rúmeníu

Erik Hamrén hefur mun sterkari hóp til umráða en gegn Englendingum og Belgum í september. Þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Ragnar Sigurðsson, Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Sigþórsson og Rúnar Már Sigurjónsson gætu allir spilað sinn fyrsta landsleik á þessu ári og þá er Birkir Már Sævarsson með á ný. Nú er spurning hvort reynslan eða æskan ná yfirhöndinni í þessum mikilvæga leik. Íslenska liðið í dag er eitt það reynslumesta í Evrópu en Rúmenar eru að byggja upp nýtt lið á öflugu 21-árs landsliði, rétt eins og Ísland gerði á sínum tíma með kynslóðina sem nú er í kringum þrítugt og enn í liðinu. Rúmenar hafa miklar væntingar til liðsins og í skoðanakönnun sem 330 þúsund rúmenskir knattspyrnuáhugamenn tóku þátt í núna í vikunni töldu rúmlega 89 prósent að þeirra lið myndi hafa betur í viðureigninni á Íslandi.

Sextíu háværir áhorfendur

Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur að vonum verið aðaláhrifavaldurinn fyrir leikinn og ástandið og ráðstafanir sem grípa hefur þurft til vegna hennar hafa skyggt á leikinn sjálfan. Á venjulegum degi, eins og átti að vera í mars, hefðu 9.700 manns troðfyllt Laugardalsvöllinn og stemningin hefði verið mögnuð eins og ávallt á þýðingarmestu landsleikjum Íslands.

Nú eru aðrir tímar og eftir miklar breytingar síðustu sólarhringana vegna sóttvarnaráðstafana varð niðurstaðan sú í gærmorgun að 60 meðlimir stuðningssveitarinnar Tólfunnar fengju að vera á leiknum í kvöld. Þeir verða einu áhorfendurnir á vellinum en eiga ef að líkum lætur eftir að læta rækilega í sér heyra allan tímann. Það verða strax mikil viðbrigði frá leiknum við Englendinga í september þar sem engir áhorfendur fengu að fylgjast með viðureign liðanna á Laugardalsvellinum og hróp og köll leikmanna og þjálfara bergmáluðu um dalinn.

Vonandi skilar samspil okkar og Tólfunnar sigri

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði sagði á fréttamannafundinum í gær að íslensku leikmennirnir væru afar þakklátir fyrir að Tólfan fengi að vera með sína fulltrúa á leiknum í kvöld.

„Þeir gefa allt í þetta í stúkunni, alveg eins og við gerum inni á vellinum. Vonandi skilar það samspil okkur sigri því við erum algjörlega staðráðnir í að vinna leikinn og lyfta þjóðinni upp,“ sagði Aron Einar sem leikur í kvöld sinn fyrsta landsleik á þessu ári, eins og margir fleiri sem ekki tóku þátt í landsleikjunum gegn Englandi og Belgíu í september.

„Það er erfitt að venjast því að spila á tómum velli en við erum orðnir vanir því núna og það á ekki að spila of mikið inn í hvað einbeitingu varðar. Við þurfum að sýna okkar rétta andlit og styrk og vonandi dregur Tólfan okkur áfram líka,“ sagði Aron Einar.

Reynslan mun hjálpa okkur

Viðbúið er að byrjunarliðið sem Erik Hamrén stillir upp í kvöld verði keimlíkt því sem lék alla fimm leikina á EM 2016 í Frakklandi, enda eru allir úr því byrjunarliði í hópnum í dag. Hann gaf til kynna á fréttamannafundinum að nú skipti reynslan miklu máli.

„Þetta eru tvö lið sem eru mjög svipuð að styrkleika. Bæði lið vilja virkilega vinna og það lið sem gerir færri mistök ásamt því að nýta færin sín mun vinna leikinn. Við þurfum að vera virkilega agaðir en við þurfum líka að vera hugrakkir. Við erum með mjög reynda leikmenn sem hafa spilað svona leiki áður og það mun hjálpa okkur mikið þegar mest á reynir. Þess vegna er ég sannfærður um að við munum standa okkur frábærlega,“ sagði Hamrén.

Átta umspilsleikir í kvöld

Leikur Íslands og Rúmeníu á Laugardalsvellinum í kvöld er einn af átta umspilsleikjum þar sem sextán þjóðir eru í baráttu um fjögur sæti í lokakeppni EM 2021. Leikið er í fjórum riðlum með útsláttarfyrirkomulagi og í nóvember mætast sigurvegarar kvöldsins í fjórum úrslitaleikjum þar sem sigurvegararnir komast á EM.

Riðlarnir fjórir eru myndaðir út frá árangri Þjóðadeild UEFA 2018-19 þar sem Ísland var í A-deildinni og fór því í A-umspilið. Allar hinar A-deildarþjóðirnar komust beint á EM þannig að Ísland fékk með sér í riðil þrjá mótherja úr C-deildinni sem höfðu náð langt þar en ekki komist beint á EM.

Búlgaría og Ungverjaland mætast í hinum leik A-umspilsins í kvöld og sigurvegarinn þar fær heimaleik gegn Íslandi eða Rúmeníu 12. nóvember.

Í B-umspilinu mætast í kvöld Bosnía og Norður-Írland, sem og Slóvakía og Írland.

Í C-umspilinu taka Norðmenn á móti Serbum og Skotar fá Ísraelsmenn í heimsókn.

Í D-umspilinu leikur Georgía við Hvíta-Rússland og Norður-Makedónía við Kósóvó.

Þeir sterkari í návígjum

Nicolae Stanciu, leikmaður rúmenska landsliðsins í knattspyrnu, segir það liggja fyrir að íslensku leikmennirnir séu sterkari í návígjum en þeir rúmensku. Það muni vonandi ekki ráða úrslitum þegar þjóðirnar mætast á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég á von á erfiðum leik því ég veit að íslenska liðið er mjög sterkt á heimavelli og í liðinu eru góðir leikmenn,“ sagði Stanciu meðal annars á blaðamannafundi í Laugardalnum.

„Okkur hefur tekist vel upp þann tíma sem við höfum haft til að æfa frá því liðið kom saman heima í Rúmeníu. Ég ímynda mér að þetta verði 50/50 leikur og liðið sem er tilbúið að gefa allt í leikinn muni komast áfram,“ sagði Stanciu en rúmenski hópurinn kom til Íslands á þriðjudaginn.

„Við þekkjum leikmenn íslenska liðsins og sérstaklega þá sem leika í stærstu deildunum. Allir vita að liðin frá Norður-Evrópu eru líkamlega sterk og leikmenn þeirra sterkari en við í návígjum. En við höfum búið okkur undir það og erum með okkar leikskipulag sem vonandi mun skila okkur sigri.“

Spurður um þær aðstæður sem nú eru uppi þar sem knattspyrnuleikir eins og þessi fara gjarnan fram fyrir luktum dyrum sagði Stanciu:

„Á heildina litið er slæmt fyrir íþróttina að ekki sé hægt að leyfa áhorfendur en við því er lítið að gera. Þetta er leiðinleg staða fyrir bæði íslensku stuðningsmennina sem og okkar stuðningsmenn,“ sagði Stanciu, sem leikur með Slavia Prag.

Tekur á en gengur vel

• „Ótrúlega flókin framkvæmd“ vegna glímunnar við kórónuveiruna EM 2021

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Nei, mesta furða. Ég hef góða tilfinningu fyrir leiknum en ég er nú líka bjartsýnn maður almennt séð. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessum leik sem og flestum öðrum hjá landsliðunum,“ sagði Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, þegar Morgunblaðið innti hann eftir því hvort hann væri orðinn stressaður fyrir leikinn mikilvæga gegn Rúmeníu í kvöld.

„Við erum með mjög sterkan leikmannahóp. Í þetta skiptið eru nánast engin meiðsli en nokkuð hefur verið um það í undanförnum leikjum. Menn eru instilltir og ætla sér sigur. Liðið ætlar sér auðvitað að komast á EM.“

Þótt þær reglur sem Knattspyrnusamband Evrópu hafi sett um framkvæmd leiksins hafi legið fyrir þá hafa breytingar orðið á sóttvarnareglum hér innanlands á síðustu dögum og vikum. Spurður um hvernig starfsfólki KSÍ hafi gengið að undirbúa leikinn sagði Guðni það ganga ágætlega.

„Að mörgu er að huga í þessum aðstæðum og það má alveg segja að þetta sé ótrúlega flókin framkvæmd. Taka þarf tillit til alls kyns sóttvarnareglna bæði frá yfirvöldum en einnig frá UEFA. Þótt ekki verði nema fáir áhorfendur á leiknum þá er þetta engu að síður flókið í framkvæmd. En þetta hefur gengið vel og samhliða landsleikjum þurfum við að huga að mótahaldi og öllu öðru starfi hjá knattspyrnusambandinu. Þetta hefur tekið á en gengið vel. Við kvörtum ekki og ég held að framkvæmdin á morgun [í dag] eigi eftir að ganga vel.“

Skiptir máli að hafa Tólfuna

Fyrir ekki löngu síðan voru væntingar um að hægt yrði að leyfa fólki að fara á völlinn og ljóst að ekki vantar eftirspurnina þegar svo mikið er í húfi. Talsverð óvissa hefur verið í þeim efnum og fyrir nokkrum dögum var útlit fyrir að um þúsund áhorfendur gætu verið í Laugardalnum en segja má að þær vonir hafi að engu orðið á upplýsingafundi almannavarna fyrir tveimur dögum.

„Ég var í sambandi við UEFA fyrir rúmum tveimur mánuðum. Þá gerði maður sér vonir um að geta verið með fjögur tvö þúsund manna hólf á þessum leik eða nánast fullan völl. En við höfum þurft að takast á við þetta sem dunið hefur yfir undanfarnar vikur og mánuði. Þetta hefur breyst viku frá viku og jafnvel dag frá degi. Við verðum þó með okkar dyggustu stuðningsmenn í Tólfunni sem munu hvetja strákana áfram. Ég held að það muni skipta máli og gefa landsliðsmönnunum kraft. En eftir allt sem á undan er gengið er ánægjulegt að þessi leikur fari loksins fram og við ætlum okkur sigur. Hjá mér persónulega held ég að það verði ákveðinn léttir þegar maður getur sest í sætið og horft á leikinn eftir að hann verður loksins flautaður á. Ég geri ráð fyrir því að stór hluti þjóðarinnar verði heima í stofu að fylgjast með.“

Laugardalsvöllurinn hefur af og til verið vettvangur mikilvægra leikja í október og völlurinn er í góðu ásigkomulagi að sögn formannsins.

„Það er auðvitað farið að kólna og því þarf að hafa fyrir því að halda vellinum við. Hann er í góðu standi miðað við árstíma. Eins góðu og hægt er að búast við myndi ég halda,“ sagði Guðni Bergsson.