Orkuveita Reykjavíkur hefur auglýst eftir tilboðum í endurbyggingu útveggja svonefnds Vesturhúss höfuðstöðva Orkuveitunnar.
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi OR, segir að áætlaður verktími framkvæmdarinnar sé 22 mánuðir frá undirritun samnings við verktaka. ,,Áætlað er að verksamningur verði undirritaður fyrir miðjan apríl 2021,“ segir Ólöf.
Fram kemur í lýsingu á verkinu að það muni einskorðast að langmestu leyti við að skipta út útveggjum Vesturhúss og aðgerðum tengdum því. Ekki standi til, sem hluta af þessu verki, að gera breytingar á öðrum hlutum höfuðstöðva OR eða kerfa þess umfram það sem þarf til að skilgreina nýja útveggi og þá hluta húskerfa sem þeim tengjast.
Tilboð opnuð 12. janúar
Spurð um kostnað við framkvæmdirnar segir Ólöf að þar sem útboðsferli er í gangi geti Orkuveitan ekki á þessu stigi gefið upp kostnaðaráætlun framkvæmda um endurbygginguna. „Kostnaðaráætlun ráðgjafa OR verður hins vegar gefin upp á opnunardegi tilboða sem er þann 12. janúar 2021,“ segir Ólöf.Leiðarstef verkefnisins á að vera ,,hagkvæmni, viðurkenndar og reyndar lausnir, hógvært og lágstemmt“.
Í ljós kom sumarið 2017 að hluti Orkuveituhússins, þ.e. Vesturhúsið fyrrnefnda, var mikið skemmt af raka. Ýmsir kostir voru skoðaðir og varð niðurstaðan sú að endurbyggja útveggi Vesturhússins. omfr@mbl.is