Gunnlaugur Kristófer Bjarnason var fæddur í Múlakoti á Síðu, Hörgslandshreppi, 4. mars 1952. Hann lést á Líknardeild Landspítalans 29. september 2020.

Hann var sonur hjónanna Bjarna Þorlákssonar, bónda og kennara, f. 6.8. 1911 í Múlakoti, d. 8.11. 1975, og Sigurveigar Kristófersdóttur húsmóður, f. 12.4. 1919 á Keldunúpi, d. 9.6. 2003. Systkini hans voru Baldur Þorlákur Bjarnason, f. 11.1. 1942, Helga Matthildur Bjarnadóttir, f. 30.8. 1945, og Guðrún Lilja Bjarnadóttir, f. 16.5. 1957.

Gunnlaugur giftist 7.12. 1985 Unni Flygenring, f. 22.8. 1962. Foreldrar hennar voru hjónin Ágúst Flygenring og Guðbjörg Flygenring. Börn Gunnlaugs og Unnar eru Ágúst Þór Gunnlaugsson, f. 14.5. 1987, maki Þórhildur Halla Jónsdóttir, f. 13.11. 1986, og Sigrún Helga Gunnlaugsdóttir, f. 14.7. 1989.

Gunnlaugur ólst upp í Múlakoti á Síðu og gekk í Múlakotsskóla, unglingaskóla á Kirkjubæjarklaustri og Skógaskóla. Að lokinni skólagöngu starfaði hann við vélavinnu víða um land og síðar hjá Íshúsi Hafnarfjarðar. Frá 1984 vann hann hjá Vélaverkstæði Jóhanns Ólafssonar í Hafnarfirði og árið 1999 lauk hann sveinsprófi í vélsmíði. Síðar starfaði hann hjá Hval hf. í Hvalfirði.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Garðakirkju í dag, 8. október 2020, klukkan 13. Vegna aðstæðna í samfélaginu geta aðeins nánustu ættingjar og vinir verið viðstaddir athöfnina. Verður streymt frá athöfninni á vefslóðinni:

https://youtu.be/gN4R6I9RNkM

Einnig er virkur hlekkur á: www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi.

Takk fyrir öll árin sem við fengum með þér, öll ferðalögin um fjöll og firnindi, öll skiptin sem þú hjálpaðir okkur í framkvæmdum, í bílaviðgerðum og öllu öðru sem okkur datt í hug að biðja þig um að hjálpa okkur með.

Takk fyrir allar stundirnar heima á Grund, allar helgarnar í sumarbústaðnum og í sveitinni. Takk fyrir allt sem þú kenndir okkur, allt það mikilvæga og það smávægilega.

Í lautinni, þar sem lyngið grær

og lindin er hljóð og angurvær,

má glataða gleði finna.

Friðland á sá, sem flugi nær

til fjallahlíðanna sinna.

Ef ég að borginni baki sný,

þá brosir við augum veröld ný,

full af ódáinsangan.

Þar hefjast bláfjöllin hátt við ský,

með hádegissól um vangann.

Kletturinn er mín konungshöll,

kirkja mín tindur, þakinn mjöll,

helguð heilögum anda.

Þar vex og hækkar mín hugsun öll,

unz himnarnir opnir standa.

Hreinn er faðmur þinn, fjallablær.

Fagurt er þar, sem lyngið grær.

Þar get ég elskað alla.

Á tíma og eilífð töfrum slær

af tign hinna bláu fjalla.

(Davíð Stefánsson)

Ágúst Þór og Sigrún Helga.

Gunnlaugur Kristófer Bjarnason, móðurbróðir okkar, eða Gulli frændi, var okkur systkinunum mjög kær. Það voru mikil forréttindi að eiga Gulla að og búum við að fjölmörgum minningum um skemmtilegar samverustundir og traustan og góðan frænda. Hann sýndi okkur væntumþykju á svo margan hátt. Það fór ekki mikið fyrir Gulla og þó hann væri ekki maður marga orða þá var hann einkar hnyttinn. Við gleymum aldrei prakkarasvipnum á Gulla sem gaf strax til kynna að fjörið væri skammt undan; eltingaleikir, kitl, við á hestbaki á Gulla og svo mætti lengi telja. Þessa fengu börnin okkar líka að njóta.

Gulli var vélsmiður og einkar verklaginn. Hann var með eindæmum vinnusamur og sjaldan iðjulaus. Þá var Gulli einnig mjög fjölhæfur og gerði til dæmis við hús, traktora, skip, jeppa og barbí-dúkku með brotna löpp. Hann lagði til að mynda mikið af mörkum til að halda æskuheimilinu sínu, Múlakoti á Síðu, í góðu horfi. Við systkinin og okkar fjölskyldur höfum notið þess.

Það var alltaf fróðlegt að kíkja inn í bílskúrinn til Gulla og sjá að hverju hann var að vinna. Okkur þótti sérstaklega spennandi þegar Gulli setti upp tilkomumikinn logsuðuhjálm og hófst handa við að sjóða saman málma með tilheyrandi eldglæringum sem minntu okkur á stjörnublys.

Gulli var sigursæll afreksmaður í torfæruakstri á sínum yngri árum. Við minnumst ferðalaga með fjölskyldunni, til dæmis eftirminnilegrar ferðar að fjallabaki sem aðeins átti að vera fær jeppum. Gulli og Unnur voru á Lödu station, sem þótti ekki líkleg til stórræða uppi á fjöllum, en það kom ekki að sök, með Gulla undir stýri.

Gulli bjó fyrstu árin með okkur á Lynghaganum og svo síðar með Unni kærustu sinni og síðar eiginkonu í kjallaranum hjá okkur í Sigluvoginum. Alla tíð hafa verið sterk bönd á milli fjölskyldnanna. Unnur og börnin þeirra tvö, Sigrún Helga og Ágúst Þór, eru okkur góðir vinir.

Fyrir samveru Gulla og umhyggju erum við ákaflega þakklát. Við vottum þeim, sem og ættingjum og vinum, okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Gulla.

Ragnheiður Lóa Björnsdóttir, Sólveig Hildur Björnsdóttir, Hallgrímur Thorberg Björnsson og fjölskyldur.

Genginn er góður vinur minn og mágur, Gunnlaugur Kristófer Bjarnason.

Þegar ég minnist Gulla, eins og hann var ávallt kallaður, koma mér í huga fleyg orð Egils Skalla-Grímssonar í ljóðinu Sonatorreki: „Mjök erumk tregt tungu að hræra.“ Eins er mér nú farið.

Gulli var lítillátur maður en einstaklega hjarthlýr, samviskusamur, greiðvikinn og hjálpsamur.

Mín fyrstu kynni af honum voru upp úr árinu 1968, þegar ég og eiginkona mín, Helga Matthildur, vorum að draga okkur saman.

Gulli fór snemma að heiman til að vinna fyrir sér og æxlaðist það þannig að hann bjó hjá okkur um tíma á Lynghaganum, en síðan fluttum við saman í Sigluvog ásamt Unni Flygenring, verðandi eiginkonu Gulla. Þar í kjallaranum gerðu þau sér fyrsta hreiðrið. Unnur var Gulla afar traustur lífsförunautur og er okkur fjölskyldunni mjög kær vinur.

Ég fékk strax miklar mætur á Gulla og hélst vinskapur okkar og fjölskyldnanna alla tíð. Við ferðuðumst saman innanlands og fórum einnig tvisvar með þeim hjónum til Tenerife, þótt hvorki ég né Gulli værum hrifnir af sólböðum. Hins vegar nutum við Gulli gönguferða í hafgolunni og hann naut líka hvíldar í forsælu við lestur góðra bóka.

Hér heima fórum við Gulli oft á laugardagsmorgnum í bíltúra með viðkomu í Litlu kaffistofunni. Í þessum ferðum spjölluðum við um heima og geima og krufum heimsmálin.

Gulli var vélsmiður og afar fróður um hinar ýmsu vélar og tæki. Hann gegndi ýmsum störfum og annaðist meðal annars viðhald á svonefndum Baader-vélum í Íshúsi Hafnarfjarðar. Seinna vann hann lengi hjá Vélsmiðju Jóhanns Ólafs ehf. í Hafnarfirði og annaðist meðal annars viðhald á tækjabúnaði Hvals hf. í Hvalfirði. Réðst Gulli síðar alfarið til Hvals hf. og starfaði þar uns kraftar hans þrutu.

Ég veit að vinnusemi Gulla var ætíð mikil og vann hann oft langt fram yfir það sem honum var hollt. Vinnuveitendur hans voru ósviknir af hans framlagi.

Ófáar voru ferðir hans á æskuheimilið að Múlakoti á Síðu til að laga gamla bæinn svo og til að smíða og gera við landbúnaðartæki fyrir bróður sinn, sem þar bjó þá. Féll Gulla aldrei verk úr hendi.

Gulli var í miklu uppáhaldi hjá börnum okkar, enda sýndi hann þeim hlýju og athygli. Aldrei leið langur tími þar til hann var dottinn í leik með þeim, en hann var glettinn prakkari og það kunnu börnin sannarlega að meta.

Fyrir liðlega einu ári kom í ljós að Gulli var með illvígt krabbamein. Tók hann því af æðruleysi og hélt áfram að vinna eftir því sem dvínandi þróttur leyfði, enda bauð samviskusemi hans það.

Gulli var sannur heiðursmaður, traustur vinur og mágur. Hvergi ber skugga á framgöngu hans, ósérhlífni og trúmennsku. Það voru mikil forréttindi að fá að eiga Gulla að.

Fyrir vinarþel Gulla alla tíð erum við hjónin ákaflega þakklát og munum varðveita minningu hans um ókomna tíð.

Blessuð sé minning elsku Gulla.

Við hjónin vottum Unni og börnum þeirra, Ágústi Þór og Sigrúnu Helgu, okkar dýpstu samúð.

Björn Ólafur Hallgrímsson.