Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Ef þær viðræður og kannanir á sameiningu sveitarfélaga sem nú eru í gangi leiða til sameiningar mun sveitarfélögum í landinu fækka úr 69 í um 60 fram til næstu kosninga. Við nýafstaðna sameiningu á Austurlandi fækkaði sveitarfélögum um þrjú og þeim gæti því fækkað um 12 á kjörtímabilinu.
Formlegar viðræður eru aðeins á einum stað, um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Þeim hefur aðeins seinkað vegna kórónuveirufaraldursins en stefnt er að íbúakosningu um tillögu að sameiningu í júní á næsta ári.
Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri í Mývatnssveit, segir að mikil óvissa sé í fjármálum allra sveitarfélaga, ekki síst hjá sveitarfélögum sem hafa reitt sig á innkomu vegna ferðaþjónustu. Búast megi við að það hafi áhrif á málefnagrundvöll sameiningar. „Hjá báðum sveitarstjórnum er sterkur vilji til að fjárfesta í góðum verkefnum sem koma samfélaginu áfram til framtíðar,“ segir Sveinn.
Enn verið að ræða málin
Sameiningarnefnd Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar hefur samþykkt að leggja til við sveitarstjórnir að þau hefji formlegar sameiningarviðræður sem endi með íbúakosningu í júní á næsta ári. Kom þetta fram í frétt í Morgunblaðinu í vikunni. Ekki er að sjá á fundargerðum að erindið hafi verið afgreitt.
Fimm sveitarfélög í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu eru enn að undirbúa kynningu á stöðu sveitarfélaganna og áhrifum sameiningar fyrir íbúum. Það verður gert á rafrænum fundum síðar í mánuðinum. Að því búnu verður gerð könnun á afstöðu íbúa og síðan þurfa sveitarstjórnirnar að ákveða, hver fyrir sig, hvort þær vilji taka þátt í formlegum sameiningarviðræðum. Kemur þar til greina að þær ræði allar saman eða skiptist upp í tvo hópa. Líkur eru taldar á að vilji sé til að láta reyna á heildarsameiningu. Verði ákveðið að fara í formlegar sameiningarviðræður verður sameiningartillaga lögð fyrir íbúa að vori eða hausti 2021.
RR ráðgjöf, sem unnið hefur með flestum sameiningarnefndum síðustu ár, vinnur einnig að valkostagreiningu fyrir nokkur sveitarfélög. Dalabyggð og Kjósarhreppur eru að kanna í hvaða átt er best að leita samstarfsaðila. Þá eru Svalbarðsstrandarhreppur og Eyjafjarðarsveit að kanna landið og möguleika til sameiningar sveitarfélaga á svæðinu.
Fleiri tilraunir hafa verið gerðar en lognast út af vegna kórónuveirufaraldursins og annars staðar er verið að reyna að hefja formlega vinnu við undirbúning sameiningar.
Ekki verið sett lágmark
Ráðherra sveitarstjórnarmála hefur markað þá stefnu að sveitarfélög með 250 íbúa eða færri þurfi að sameinast öðrum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar og sveitarfélög með 1.000 íbúa og færri þurfi að sameinast eigi síðar en við kosningar 2026. Frumvarp um að lögfesta lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga hefur hins vegar ekki enn verið samþykkt á Alþingi. Fram kom á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á dögunum að Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra er ekki fallinn frá þessum áformum.
Það ýtir hins vegar á sveitarstjórnir að láta reyna á sameiningu að ríkið styður slíkt ferli með rausnarlegum hætti, að því er virðist, í gegn um jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Til að jafna stöðu sveitarfélaganna eru veitt svokölluð skuldajöfnunarframlög og þátttaka í greiðslu kostnaðar við sameiningu. Þetta eru umtalsverðir fjármunir. Nýja sveitarfélagið á Austurlandi fær þannig 1,3 milljarða til slíkra verkefna og nýtt sveitarfélag á Suðurlandi gæti átt von á mörg hundruð milljónum ef af sameiningu verður. Þetta hjálpar sveitarfélögunum við að greiða niður skuldir og byggja upp stjórnsýslu sameinaðs sveitarfélags. Þar fyrir utan eykst slagkraftur svæðisins til að fylgja eftir kröfum um framgang ýmissa framfaramála, til dæmis í samgöngum, eins og Austurland er skýrt dæmi um.