Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Frumættleiðingar frá útlöndum voru níu í fyrra eða talsvert fleiri en árin tvö á undan þegar þær voru einungis fjórar hvort ár. Frumættleiðingar frá útlöndum höfðu aldrei verið jafn fáar á einu ári og á árunum 2017 og 2018. Frumættleiðing merkir ættleiðingu á barni sem ekki er barn maka umsækjanda. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.
„Fyrir utan árin 2017-2018 voru frumættleiðingar frá útlöndum fæstar 1992 þegar einungs fimm börn voru ættleidd erlendis frá. Flest börn voru ættleidd frá útlöndum árið 2005 þegar 41 frumættleiðing átti sér stað. Undanfarin ár hafa flest ættleidd börn verið frá Tékklandi og árið 2019 voru einnig flestar ættleiðingar þaðan eða sjö,“ að sögn Hagstofunnar.
Stjúpættleiðingar í fyrra voru 31 eða tíu færri en 2018. Í öllum tilvikum var stjúpfaðir kjörforeldri en það hefur verið algengast. Frumættleiðingar innanlands voru níu í fyrra. Stjúpættleiðing er ættleiðing á barni eða kjörbarni maka umsækjanda.
Ættleiðingum fækkar almennt
Íslensk ættleiðing er eina ættleiðingarfélagið á Íslandi og er með löggildingu frá dómsmálaráðuneytinu til að annast ættleiðingar frá Búlgaríu, Kína, Kólumbíu, Tékklandi eða Tógó. Elísabet Hrund Salvarsdóttir, formaður félagsins, sagði að tölur Hagstofunnar sýni hvenær ættleiðing er endanlega staðfest hjá sýslumanni. Það ferli getur tekið nokkurn tíma. Íslensk ættleiðing miðar hins vegar við hvenær börnin koma til landsins og þá er ekki jafn mikill munur á fjölda ættleiddra barna á milli ára og hjá Hagstofunni.„Tékkar til dæmis samþykkja ekki að ættleiðingarferlinu sé að fullu lokið fyrr en 7-8 mánuðum eftir að barnið er komið hingað,“ sagði Elísabet. „Þeir vilja fá eftirfylgniskýrslur og eru strangir á því, fá raunar alls níu skýrslur um hvert barn. Þeir þurfa að fá þrjár þessara skýrslna áður en ættleiðingin er endanlega samþykkt.“ Hún þekkti engin dæmi þess að börn sem komin voru til Íslands hafi verið tekin til baka. Á meðan beðið er endanlegs samþykkis er barnið í fóstri hjá væntanlegum kjörforeldrum.
Það sem af er þessu ári hafa fjögur börn, 3-4 ára, komið frá Tékklandi. Þá bíða tvær fjölskyldur eftir börnum, öðru frá Kína og hinu frá Tógó. Í fyrra komu hingað fimm börn til ættleiðingar, fjögur frá Tékklandi og eitt frá Tógó. Elísabet sagði að mörg ættleiddu barnanna frá Tékklandi hafi dvalið þar á barnaheimilum eða hjá fósturfjölskyldum.
Hún sagði að ættleiðingum sé almennt að fækka á heimsvísu. „Lönd sem mörg börn komu frá á árum áður eru ekki lengur opin fyrir ættleiðingum. Regluverkið hefur líka breyst og ferlið allt orðið miklu flóknara og tímafrekara en það var,“ sagði Elísabet.
Biðlistinn eftir ættleiðingu hjá Íslenskri ættleiðingu hefur styst og nú eru fjórtán umsóknir í bið. Flestar eru um að fá að ættleiða barn frá Tékklandi. Elísabet sagði að nú taki lengri tíma en áður að fá forsamþykki frá íslenskum yfirvöldum til að mega ættleiða barn erlendis frá. Kerfið sé svifaseinna en áður. „Við vorum að fá samþykkta fyrstu umsóknina í Kólumbíu um ættleiðingu fyrir samkynhneigt par. Það er mjög ánægjulegt,“ sagði Elísabet.