Stór vinnustaður Samúel Samúelsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Vestfjarða í Bolungarvík, en þar eru 14-15 stöðugildi á ársgrunni.
Stór vinnustaður Samúel Samúelsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Vestfjarða í Bolungarvík, en þar eru 14-15 stöðugildi á ársgrunni. — Ljósmynd/Samúel Samúelsson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Sjósókn frá Bolungarvík hefur gengið vel í haust, en aflabrögð hefðu mátt vera betri í september. Vel hefur hins vegar veiðst það sem af er október, að sögn Samúels Samúelssonar, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðs Vestfjarða.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Sjósókn frá Bolungarvík hefur gengið vel í haust, en aflabrögð hefðu mátt vera betri í september. Vel hefur hins vegar veiðst það sem af er október, að sögn Samúels Samúelssonar, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðs Vestfjarða. Uppboð eru flesta virka daga, en fiskurinn fer síðan til vinnslu víðs vegar um land.

Samúel segir að þrátt fyrir kórónuveirufaraldur um allan heim hafi gengið merkilega vel að selja fisk og hefur meðalverð verið gott. Þannig hafa fengist 354 krónur fyrir kíló af öllum þorski að meðaltali það sem af er ári. Hjá markaðnum eru 14-15 stöðugildi á ársgrunni, en nokkrar sveiflur eftir árstímum.

Endurgreiddu hlutabætur

„Þetta leit ekki vel út í upphafi faraldursins í marsmánuði,“ segir Samúel. „Við gripum til þess að setja hluta af fólkinu okkar á hlutabótaleiðina, en fljótlega kom í ljós að ótrúlega vel rættist úr sölumálum. Við endurgreiddum því mánuði síðar það sem við höfðum fengið vegna hlutabóta. Verð fyrir fiskinn lækkaði á þessum tíma, en það voru kaupendur að aflanum áfram og bátarnir gátu haldið áfram að róa. Það mátti hins vegar ekki mikið út af bera og ef magnið var of mikið kom það strax fram í verði og um tíma voru ekki full afköst.“

Frá áramótum er búið að selja um tíu þúsund tonn á Fiskmarkaði Vestfjarða, en síðasti vetur var erfiður vegna ótíðar. Auk starfseminnar í Bolungarvík er fyrirtækið með útibú á Suðureyri og Flateyri. Samúel reiknar með að um markaðinn fari hátt í 13 þúsund tonn í ár. Það er talsvert meira en í fyrra þegar þar voru seld 11.600 tonn, en nokkru minna en metárið 2018 þegar um 14 þúsund voru seld á markaðnum.

Fimm línubátar frá Bolungarvík landa hjá FiskVest; Otur ÍS, Einar Hálfdáns ÍS, Jónína Brynja ÍS, Fríða Dagmar ÍS og Guðmundur Einarsson ÍS. Einnig landa þar dragnótabátarnir Þorlákur ÍS, Ásdís ÍS og Finnbjörn ÍS og togarinn Sirrý ÍS að hluta. Jakob Valgeir ehf. gerir út þrjá línubátanna og togarann og er stærsti hluthafinn í fiskmarkaðnum, sem sér einnig um slægingu fyrir útgerðina og fleira.

Samúel segir að lítið hafi verið um aðkomubáta í viðskiptum við markaðinn undanfarið. Bátar af Snæfellsnesi og víðar hafi oft komið vestur síðustu mánuði ársins, en þeir séu ekki enn komnir.

Fiskmarkaður Vestfjarða tók til starfa í Bolungarvík árið 2007.